fimmtudagur, október 04, 2012

Dagur dýranna

Í dag er Dagur dýranna haldinn í fyrsta sinn hér á landi. Stórgóð hugmynd. Af því tilefni er samkoma fyrir dýravini suður í Hafnarfirði. Það er ekki eins góð hugmynd. Ekki vegna þess að hún er haldin í Hafnarfirði heldur vegna þess að hún er haldin í kirkju. Ekki nóg með þar heldur á þar einhver djákni að tala og svo mun prestur biðja fyrir dýrunum.

Ef þessi samkoma væri ekki haldin í kirkju og hefði ekki á sér kristilegt yfirbragð sæti ég eflaust á fremsta bekk, í klappstýrubúningnum. En mig langar ekki rassgat að vera meðal dýravina undir þessum kringumstæðum.

Það er furðulegt að geta ekki haldið dag dýranna hátíðlegan á hlutlausum vettvangi og án guðræknishjals. Vonandi verður staðarval og dagskrá endurskoðuð að ári, þá mæti ég á staðinn.* En á þetta fyrirbæri mæti ég ekki og styð ekki þetta framtak að óbreyttu.

___
* Tekið er fram að „Dagurinn er haldinn hátíðlegur óháð trúarbrögðum og stjórnmálaskoðunum.“ Miðað við staðarval nú má búast við að hann verði haldinn í Valhöll næsta ár. Þá áskil ég mér rétt á að endurskoða ákvörðun mína.


Efnisorð: ,