sunnudagur, október 14, 2012

Lagst á eitt til að vernda frægan kynferðisbrotamann (enn einu sinni)

Nú hefur komist upp um frægan breskan fjölmiðlamann (sem ég hafði aldrei heyrt um áður), sem er reyndar dauður, og kynferðisofbeldi sem hann beitti fjölda stúlkna undir lögaldri um áratugaskeið.

Enda þó margir hafi haft spurnir af athæfi hans, yfirmenn hans hjá BBC þar á meðal, og lögreglu margoft borist vísbendingar og kærur, gerði aldrei neinn neitt í málinu. Hvorki stofnunin sem hann vann hjá né lögreglan. Fórnarlömbum hans var ekki trúað, því hann var frægur og frægðinni fylgja þau völd að beri einhver fram ásakanir á frægðarmenni er viðkomandi umsvifalaust ásökuð um að vilja vera fræg sjálf (athyglissýki) eða vilja peninga (þetta þekkjum við úr umræðu um Dominique Strauss-Kahn og Egil Gillz Einarsson).*

Jimmy Savile var stjórnandi vinsældalistatónlistarþáttarins Top of the Pops í tuttugu ár,frá árinu 1964. Gengu þegar sögur af því á sjöunda áratugnum að hann væri með skólastelpur (oftast um 14 ára gamlar) í búningsherberginu hjá sér og ætti við þær kynferðisleg samskipti. Fleiri starfsmenn eða frægðarmenn munu hafa tekið þátt í því sem fram fór í búningsherbergi hans þ.á.m. Gary Glitter, sem síðan hefur hlotið dóm fyrir barnaníð, svo og einhver enn ónefndur leikari sem enn mun vera starfandi en hefur enn ekki verið nafngreindur. Savile var með aðra þætti bæði í útvarpi og sjónvarpi hjá BBC áratugum saman eftir þetta.

Eitt af því sem hefur komist upp varðandi Jimmy Savile, þessa frægu og dáðu fjölmiðlastjörnu, er að hann hafi eftir að hann varð frægur gerst sjálfboðaliði á barnaspítulum þar sem hann beitti stúlkubörn kynferðisofbeldi. Starfsfólk vissi um athæfi hans en enginn sagði neitt eða þorði að segja neitt.

Ekkert bendir til að ásókn hans í stelpur undir lögaldri hafi verið vegna þess að honum var meinað að kvænast eða eiga í kynferðissamböndum við fullorðnar konur, heldur valdi hann að fara í aðstæður þar sem hann hafði aðgang að varnarlausum börnum og unglingsstúlkum. Að sama skapi hafa kaþólskir prestar (og sundlaugaverðir, íþróttaþjálfarar og fleiri sem velja sér störf þar sem þeir eru einir með börnum) valið sér starfsvettvang. Það er semsagt ekki vegna þess að kaþólskir prestar mega ekki kvænast, að þeir fá ekki eðlilega útrás fyrir kynhvöt sína, sem þeir leita á börn. Kaþólsku prestarnir hafa sér það til afsökunar (ekki að mig langi að afsaka þá) að hafa sjálfir alist upp í kirkjunni (og sumir sjálfir verið beittir ofbeldi þar) og þekkja því þann vettvang sem vænlegan til að fá útrás fyrir hvatir sínar. Ekkert er í sögu Jimmy Savile (sem ég veit til en gæti komið fram síðar) sem segir til um hversvegna hann valdi barnasjúkrahús sem vettvang glæpa sinna, en þar hafði hann ótakmarkaðan aðgang að sjúkum og fötluðum börnum í nafni frægðar sinnar og 'óeigingjarnra' sjálfboðaliðastarfa.

Nú hafa a.m.k. tíu konur stigið fram sem segja að Jimmy Savile hafi áreitt þær eða nauðgað á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, þá var ein þeirra fjórtán ára. Lögregla rannsakar nú mál tuga kvenna og teygja sum málin sig aftur til 1959. Fjölmiðlar hafa greint frá fórnarlömbum allt niður í tíu ára en flestar ásakanirnar fjalla um ásókn Savile í 13-16 ára stelpur. (Margir karlmenn munu afsaka þá hegðun hans, enda þykir mörgum eðlilegt að vilja þær ungar — svo ekki sé talað um alla þá sem segja að ungar stelpur á þeim aldri viti ekkert skemmtilegra en draga karlmenn sem eru áratugum eldri á tálar.**) Árið 1971 framdi ein stelpnanna sjálfsmorð, þá fimmtán ára gömul. Í dagbók hennar kom fram að hún hafði verið 'notuð' kynferðislega af ýmsum frægðarmennum Top of the Pops þáttanna, þar sem hún hafði komið fram sem dansari. Þar á meðal kom nafn Jimmy Savile fram. Lögreglan afskrifaði dagbókina á þeim forsendum að hún væri fantasía. Orð unglingsstúlku máttu sín lítils gegn stofnunum á borð við lögreglu og BBC.

Það er ábyrgð stofnana samfélagsins að loka þá inni til eilífðarnóns sem uppvísir verða að því að nauðga börnum, káfa á þeim, taka af þeim nektarmyndir eða brjóta gegn þeim með öðrum hætti; sömuleiðis að hvetja til slíks eða eiga barnaklám (sem er hvatning til ofbeldis gegn börnum). Það að frægir einstaklingar — eða bara Jón af götunni — skuli komast upp með kynferðisbrot gegn börnum oft og mörgum sinnum, eða eins og í tilviki Jimmy Savile áratugum saman, ætti aldrei að fá að gerast.

Yfirmenn Savile hjá BBC munu hafa fengið vitneskju um athafnir hans árið 1973 ef ekki fyrr. Íslenska þjóðkirkjan vissi lengi um hegðun Ólafs Skúlasonar en varði hann samt og reyndi að gera konurnar sem kærðu hann tortryggilegar og stinga bréfi frá dóttur hans, þar sem hún lýsti kynferðisofbeldi af hálfu föður síns, oní skúffu. Í báðum tilvikum neituðu menn að horfast í augu við sannleikann þar til níðingurinn var dauður (og þjóðkirkjan talsvert lengur). Í báðum tilvikum segir fólk: Veriði ekki að níða látinn mann. Sannarlega hefðu þessir kynferðisbrotamenn átt að sæta refsingu í lifanda lífi, en stofnanirnar sem vernduðu þá verða að minnsta kosti að læra sína lexíu, þó ekki væri nema öðrum til viðvörunar.

Almenningur mætti líka hugsa sinn gang næst þegar frægur karlmaður er ásakaður um kynferðisbrot, en ekki verja hann og æpa: „saklaus uns sekt er sönnuð“. Eða var Jimmy Savile saklaus allan tímann, bara af því að engum tókst að fá hann dæmdan?

___

* Egill Gillz sagðist líka vera fórnarlamb samsæris, sama segir Julian Assange. Enn ein afsökun frægðarmenna er að þeir séu fórnarlömb kjaftasagna þegar fréttist um athæfi þeirra, sbr. grenj Sigmundar Ernis sem nú afneitar vændiskúnnanum í sér á síðum DV.

** Hér kemur Roman Polanski upp í hugann og það sem ég hef skrifað um hann og Lólítu-afsökun karlmanna.

[Ég hirði ekki um að setja tengla á allar þær fréttir sem ég hef lesið um Jimmy Savile, breskir fjölmiðlar eru uppfullir af þeim. Ég las aðallega The Telegraph (sem er hægri sinnað) og The Guardian (sem hallast til vinstri; ég sá ekki merkjanlegan mun á fréttum þessara tveggja fjölmiðla um málið) auk Wikipedia-síðunnar um Savile og síðu sem eingöngu fjallar um hinar níðingslegu gjörðir hans.]

Efnisorð: , , , ,