fimmtudagur, október 18, 2012

Þjóðaratkvæði 20. október

Eftir að hafa lesið allan bæklinginn sem Lagastofnun Háskóla Íslands skrifaði um tillögur stjórnlagaráðs hef ég séð á tillögunni nokkra galla. Þeir eru þó ekki nægilega margir eða miklir til að ég hafni stjórnarskrárdrögum, kostirnir eru fleiri en svo.

Ég taldi plúsana, mínusana og spurningarmerkin (sem ég setti þar sem ég var ekki viss, finnst mér t.d. að þingsályktunartillögur sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu eigi að falla niður við lok þings?) sem ég hafði krotað á spássíurnar og þar var hlutfallið greinilega plúsunum í vil.

Mínusarnir lentu flestir við tillögur um málskot til þjóðarinnar og þingmál að frumkvæði kjósenda (65. og 66.grein), sem flokkast sem spurning nr. 6 við þjóðaratvæðagreiðsluna. Mér finnst hlutfall kjósenda sem geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu allt of lágt (10%), mér finnst að það yrði að vera stór hluti landsmanna en ekki bara einhver fámennur hópur sem gæti farið fram á slíkt. Frekar vil ég sleppa því. Þá finnst mér alls ekki góð hugmynd að kjósendur geti lagt fram þingmál eða frumvörp á Alþingi.

Stóran plús fengu tillögur stjórnlagaráðs um bann við herskyldu (31. grein: „Herskyldu má aldrei í lög leiða“)og um dýravernd. Þar er talað um dýrategundir í útrýmingarhættu og vernd dýra gegn illri meðferð (36. grein; sjá brýningar Árna Stefáns Árnasonar hér og hér).

Þá kætti mig að sjá í 72. grein að stjórnvöldum sé óheimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar einkaaðila. Ég veit að flestum verður hugsað til bankanna og Icesave en ég mín fyrsta hugsun tengdist DeCode og ríkisábyrgðinni sem Davíð Oddsson tryggði því fyrirtæki. Sömuleiðis kætti mig að sjá í 79. grein þessa setningu: Forseti skal ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil.

Margt annað gæti ég talið upp sem mér fannst jákvætt eða umhugsunarvert, en svör mín við spurningum þeim sem ég fæ að taka afstöðu til í kosningunum á laugardag eru þessi.

1. Já — ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

2. Já — ég vil að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign. Eða með orðalagi Guðmundar Andra (sem lýsti bæði með og móti röksemdum): „óveiddur fiskurinn í sjónum verði ekki áframhaldandi grundvöllur að stigvaxandi stéttaskiptu lénsveldi hér eða peningafabrikka með óljósri ávísun.“

3. Nei — ég vil ekki að gert sé ráð fyrir þjóðkirkju í stjórnarskránni því ég vil ekki þjóðkirkju.

4. Nei — ég vil ekki að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er. Ég tel persónukjör verða að vinsældarkeppni fræga fólksins en bakvið það standi e.t.v. hagsmunaöfl sem muni stýra því. Og, eins og Guðmundur Andri orðaði það þá er „persónukjör til þess fall[ið] að ýta enn frekar undir dellumakerí athyglissjúklinga í ræðustól Alþingis“

5. Já — ég vil að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt — það er réttlætismál.

6. Nei — ég vil ekki að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu (ekki nema hlutfallið sé mun hærra en stjórnlagaráð leggur til).

Ég hefði þó gjarnan viljað fá að kjósa um fleiri greinar tillagna stjórnlagaráðs. Aðallega vona ég þó að kjörsókn verði góð og þegar upp er staðið fáum við nýja og betri stjórnarskrá.

Efnisorð: , , , , ,