þriðjudagur, október 16, 2012

Ráðstefna gegn klámi

Ég sé að klámverjendur skrifa á margar síður núna og býsnast yfir klámráðstefnuninni. Þeirra helsta lausn á málinu er að fólk fræði börn sín um kynlíf, en klámið skuli látið óáreitt, enda skaði það engan.

Hvað segja þessir karlmenn sonum sínum? Hverskonar kynfræðslu veita karlmenn sem eru svona uppteknir af skaðleysi kláms? Segja þeir ekki bara sonum sínum að klám sé ok og normalt að fá útrás yfir því?

Svarið er semsagt ekki að foreldrar (klámsjúkir pabbar) sjái um kynfræðsluna og skólarnir geta bara frætt börnin takmarkað ef annað viðhorf mætir þeim heima. Pabbinn sem horfir á klám og börn hans vita það, svo og að hann hatast útí feminista og 'kéllingar' almennt (það geta þau t.d. séð á facebook), hann er eftir alltsaman fyrirmynd sona sinna. Börn geta því miður ekki valið sér foreldra.

Klámið sem pabbarnir og synirnir horfa á er líka öðruvísi en fólk gerir almennt ráð fyrir. Lýsingar Gail Dines á því sem fram fer í klámmyndum eiga ekkert skylt við 'fólk að geraða'. Konur í klámmyndum eru beittar ofbeldi (sumar eru þar ekki viljugar, aðrar eru þar vegna félagslegra- eða efnahagslegra örðugleika, næstum allar hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi) og niðurlægðar á ýmsan máta. Þessu skemmta karlar sér yfir (og yfirfæra á konurnar sem þeir fara í rúmið með; lýsingar á atburðum og orðfærið nota þeir svo þegar þeir tala um að senda menn á nafngreinda feminista). Börn og unglingar sjá þessi ósköp og halda að tíðkist í samskiptum karla og kvenna og reyna að herma eftir (eða í tilviki stelpna: reyna að standast þá þolraun að stunda kynlíf með strákum sem hafa alla sína visku um kynlíf úr klámmyndum). Klám hefur semsagt slæm áhrif á alla, allt samfélagið, sbr. yfirskrift greinar Ögmundar Jónassonar „Klámiðnaðurinn: ógnun við almannaheill.“

Ef sett væri í lög að ekki varsla kláms væri ólögleg — eins og gildir um barnaklám* — þá mætti skylda starfsmenn tölvuverkstæða til þess að láta lögreglu vita þegar þeir verða varir við klámefni á tölvum, eins og þeir verða að gera þegar þeir verða varir við barnaklám. Það og að niðurhal á klámi (ljósmyndum, hreyfimyndum o.s.frv.**) væri ólöglegt, þá væri hægt að nota sömu aðferðir og notaðar eru til að nappa menn fyrir ólöglegt niðurhal og barnaklám (sbr. barnaklámhringir).

Ekkert af þessu kemur algerlega í veg fyrir klámframleiðslu, klámdreifingu og klámneyslu, en það hefði fælingarmátt. Um leið og það hefði fælingarmátt yrði það síður álitið eðlilegt að horfa á klám. Þar af leiðir myndi eftirspurn minnka og framleiðsla dragast saman. Það er kannski draumsýn að klámframleiðsla leggist af en það væri strax skárra að minnka klámneyslu, rétt eins og það er betra að bannað að kaupa vændi. Það er ekkert normal við það að ala upp börn í samfélagi sem segir við pilta að þeir eigi að líta á konur sem kjötskrokka sem koma megi fram við að vild en stelpum að þær séu bara kjötskrokkar sem engu máli skipta.

Fyrir alla muni þarf að reyna að stemma stigu við klámneyslu, fullorðinna jafnt sem barna.
___


* 210. grein hegningarlaganna (210. gr., 210 gr. a. og 210. gr. b) fjallar um klám, annarsvegar klám með fullorðnum í aðalhlutverkum, hinsvegar barnaklám.

Klám með fullorðnum í aðalhlutverkum: Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum …Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt.

Barnaklám: Hver sem framleiðir, flytur inn, aflar sér eða öðrum eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti

** Ef ég hefði verið á ráðstefnunni hefði ég spurt Sigríði Hjaltesteð aðstoðarsaksóknara hjá lögreglunni að því hvort tölvur karla sem eru til rannsóknar fyrir kynferðisbrot séu alltaf rannsakaðar, eða bara þegar þeir eru sakaðir um kynferðisofbeldi gegn börnum. Þó engin lög séu (enn) sem banna vörslu klámefnis með fullorðnu fólki, og klámeign kæmi þessvegna ekki (enn) til refsiþyngingar, þá væri allavega fróðlegt að hafa tölfræðina, sjá fylgni kláms (og hverskonar kláms) og nauðgana.

Kannski er þetta nú þegar verklagsregla, en ég man bara eftir einu dæmi þar sem ráða mátti af því sem kom fram í dómnum að nauðgarinn hafi stundað klámáhorf. Hann er sagður hafa verið með „óeðlilega kynferðislega fantasíu sem hafi tengst hugsunum um konur sem hefðu þvaglát og hafi sú ímynd örvað hann kynferðislega.“ Hversu mikið klámefni hafði hann hlaðið niður með slíku efni? Byrjuðu órar hans eftir að hann fór að horfa (markvisst) á klám eða sótti hann í klám til að sjá konur pissa? Sömuleiðis: sækja nauðgarar í klám eða hvetur klám til nauðgana? (Mitt svar er já og já, en hér er ég að tala um að löggan gæti gert á þessu úttekt.)


Efnisorð: , , , , ,