þriðjudagur, október 23, 2012

Hrósa skal því sem til afreka telst

Um daginn las ég grein eftir nemanda í MA þar sem kvartað var yfir því að fjölmiðlar flyttu bara slæmar fréttir af nemendum skólans (þ.e.a.s. fréttir um það sem nemendur gera af sér, en eins og formaður nemendafélags VMA benti á þykir nemendum ekkert að hegðun sinni en þeim þykir hinsvegar ægilega slæmt að hún rati í fjölmiðla). Umkvörtunin sneri semsagt að því að aldrei væri sagt frá því sem þau gerðu vel eða þegar þau hegðuðu sér vel.*

Mér þykir undarleg þessi árátta að vilja komast í fjölmiðla, fyrir næstum hvað sem er. En jæja, þessi nemandi vill komast í fjölmiðla fyrir það sem vel er gert. Hún telur upp að þau hafi farið í utanlandsferð. Og ég segi, fyrir mitt leyti: takk fyrir að pissa ekki í laugina. Þið eigið sannarlega hrós skilið, þvílíkt afrek!

En úr því að ég er farin að hrósa fólki fyrir það sem ég hélt að væri sjálfsögð hegðun:

Evrópumeistarar stúlkna í hópfimleikum eiga hrós skilið fyrir að hafa ekki komið með niðrandi athugasemdir um Dani áður en gengið var til keppni, og hefðu þær þó getað rætt maðkað mjöl svo undan sviði. Hrósa ber þeim fyrir að ráðamenn allt upp í ráðherra voru ekki dregnir í fjölmiðla til að minnka skaðann sem hefði getað skapast af ummælum þeirra. Gott hjá stelpunum að verða okkur ekki til skammar. Hrós fyrir það.

Ásdís Kristjánsdóttir — fyrsti Íslendingurinn til að ljúka keppni á heimsmeistaramóti í Ironman á Hawaii — á sömuleiðis hrós skilið fyrir að hafa ekki fundið eyjarskeggjum allt til foráttu. Hrós fyrir það.

Annie Mist Þórisdóttir heimsmeistari í CrossFit á ennfremur hrós skilið fyrir að hafa engan móðgað og að enginn þurfti að biðjast afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar þó hún hafi verið á ferð í lastabælinu Los Angeles.

Að þessum hrósyrðum loknum (sem greinilega er ekki vanþörf á, miðað við hegðun sumra íþróttamanna á erlendum vettvangi) óska ég ofangreindum íþróttakonum til hamingju með íþróttaafrek sín.** Það verða víst færri til að muna eftir þeim í lok árs þegar íþróttafréttamenn (les: boltaáhugamenn) útnefna íþróttamann ársins. Nema þeir taki sig til og geri eitthvað verulega hrósvert (les: sjálfsagt), eins og að veita einhverja af þessum verðugu konum titilinn.

___

*„Við komum heim með hrós frá fararstjórum, kennurum og hótelstarfsfólki um góða umgengi, lítil læti og yfir heildina góða hegðun, en hvað kom mikið um það í fréttum.“

** Ásdís synti 3.8km sjósund, hjólaði 180 km á hjóli og hljóp svo maraþon. Sama daginn. (Ég þarf nú bara að leggja mig eftir að hafa skrifað þetta.)



Efnisorð: