miðvikudagur, október 31, 2012

Birtingarmyndir bakslagsins

Það hefur verið sérlega ömurlegt að fylgjast með þeim meðbyr sem kvenfyrirlitning hefur í hópi unglinga. Hver framhaldsskólinn á fætur öðrum kemst í fjölmiðla fyrir andstyggilegar uppákomur og auglýsingar þar sem konur eru fyrst og fremst álitnar kynlífshjálpartæki skólabræðra sinna. (Ekki að 'fullorðna fólkið' sé til fyrirmyndar, sbr. verkfæratískusýning Würth fyrirtækisins, þar sem ekki má á milli sjá hvor sýnir meira dómgreindarleysi og kvenfyrirlitningu, forsvarsmaður fyrirtækisins eða auglýsingastofan Pipar sem sá um uppákomuna.)

Svo er öðrum konum hótað fyrir að voga sér að koma fram opinberlega. Virðist litlu skipta fyrir hvað, Hildi Lilliendahl er sannarlega hótað fyrir að vera með feminískar skoðanir á lofti en svo fær einhver stelpa alveg viðbjóðslega nauðgunarhótun, bara af því bara. Bara af því að það þykir einhverju kallógeði í lagi að hóta konum því að þeim verði nauðgað.

Á sama tíma kemur í ljós að starfsmenn skemmtistaða er svo vanir (eða hlynntir) því að nauðgunarlyfjum sé laumað í drykki gesta að þeir kippa sér ekkert upp við ábendingar um slíkt, en stelpur á djammaldri lenda æ oftar í því að vera byrlað eitur og svo er bara hipsumhaps hvort þær sleppa við að vera nauðgað meðan þær eru nær meðvitundarlausar eftir að hafa drukkið ólyfjanina. Eflaust bíða nauðgararnir tilvonandi átekta til að sjá hver fellur í gildruna og hvort hún ráfar um ein eða hvort fólk henni vinveitt tekur eftir ástandi hennar.

Það er ljós í myrkrinu að fylgjast með 'ég þarfnast feminísma' herferðinni, það er sannarlega gott að það er til fólk sem styður ekki slíka framkomu við konur eins og ofangreind dæmi sýna. En það sem fólk skrifar á spjöldin um ástæður þess að feminisma er þörf er sumt frekar dapurlegt, þá á ég við að það er sorglegt að enn verði fyrir fordómum, mismunun og ofbeldi. Og þegar ég sá myndbandið sem fylgdi pistli Þyrnigerðar Láfu (ég hafði séð það áður en það er jafn hræðilegt fyrir því) varð ég miður mín yfir því sem þar ber fyrir augu, að verða vitni að því að hópar karlmanna ráðast á konur, káfa á þeim og tæta utan af þeim fötin. Eins og tekið er fram í mynbandinu er hegðun strákanna — sem skeyta engu um hræðsluvein kvennanna — eftirherma af því sem fyrir þeim er haft, í tónlistarmyndböndum og klámi.

Enda þótt kynferðisofbeldi gegn konum, hótanir og önnur kvenfyrirlitning hafi alltaf tíðkast þá ætti það, eftir áratuga jafnréttisbaráttu, að heyra sögunni til. Jafnréttisbarátta og kynlífsbylting 68 kynslóðarinnar hefði átt að leiða til þess að við værum öll jöfn hvort sem það væri á vinnumarkaði, við heimilisstörf og barnauppeldi eða í kynlífi, en andstaða karlveldisins við breytingar á kynjahlutverkum er gríðarlega mikil. Vopnin sem gripið hefur verið til er fyrst og fremst klámiðnaðurinn og allar hans mismunandi birtingarmyndir.

Klámiðnaðurinn og klámvæðing samfélagsins er slík að fjöldi karla er tilbúinn að koma fram undir nafni á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum og verja klámnotkun, strippstaðaheimsóknir og vændiskaup, og kalla alla kvenfyrirlitningu grín (sbr. framhaldsskólaauglýsingarnar), og nauðganir misskilning eða lygaþvætting hefnigjarnra kvenna.

Og ákkúrat núna, eftir að hafa fylgst með ofangreindum atvikum og séð þetta myndband aftur, fallast mér hendur. Það eru bara of margir karlmenn sem vilja ekki jafnrétti, þeir vilja niðurlægingu kvenna.



Efnisorð: , , , ,