fimmtudagur, október 25, 2012

Um hin sönnu vísindi

Feministar sem ræða samfélagsleg, efnahagsleg og pólitísk málefni á kynjapólitískum nótum á opinberum vettvangi gera það hver á sínum forsendum. Sumar fjalla fyrst og fremst um uppeldismál, aðrar um sýnileika kvenna í fjölmiðlum, eða um klámvæðingu, kynjakvóta, konur í íþróttum og þar fram eftir götunum. Margir feministar skrifa um allt þetta og hefur hver sitt lagið á, sumar beita jafnvel fyrir sig háði (sem iðulega misskilst). Fæstir feministar, hvort sem þeir tjá sig með grein á Knúzinu, á blogg eða facebook eða með athugasemd við fréttir og greinar, líta svo á að um fræðilega ritgerð sé að ræða, þar sem vísa þarf í frumheimildir og setja mál sitt fram með formlegum hætti. Enda ber þeim ekki skylda til þess: internetið er umræðuvettvangur sem lýtur ekki akademískum kröfum.

Þó virðist sem sumir sem haldnir eru andfeminisma ræði um skrif feminista eins og um vísindarit sé að ræða. En vísi feministar í rannsóknir og kenningar eru þær slegnar útaf borðinu sem ómerkilegar og gert lítið úr fræðimönnunum að baki þeim. Sást þetta vel í umræðum um klámráðstefnuna sem haldin var um daginn þar sem reynt var að gera aðalfyrirlesarann Gail Dines ómerka orða sinna, og sagt að hún „gefi sig út fyrir að vera vísindamaður“ enda þótt hún hafi doktorspróf og gegni prófessorsstöðu við háskóla. En fyrir andfeministum virðist slíkt algert ómark ef doktorsgráðan er ekki úr réttri fræðigrein; félagsfræði er ein þeirra greina sem ekki hlýtur náð fyrir augum andfemininsta.

Akademían, háskólasamfélagið, hefur að sumra mati — sérstaklega þeirra sem hallir eru undir raunvísindi — tekið stórlega niður fyrir sig í rannsóknum á mannlegri hegðun og samfélagi manna. Það sem truflar þá helst er aðferðafræðin sem beitt er í þessum rannsóknum á manninum og samfélaginu í greinum sem teljast til félagsvísinda. Þá á ég við greinar eins og félagsfræði, sálfræði og kynjafræði (svo ekki sé minnst á þá sem hatast beinlínis út í kynjafræði og kalla hana „gervivísindi“ og „djöflafræði“). Þessar fræðigreinar nota reyndar ‘viðurkenndar aðferðir’ að einhverju leyti, svokallaðar megindlegar rannsóknaraðferðir, þ.e. rannsóknir og tilraunir sem hægt er að setja fram með tölfræðilegum niðurstöðum og eru raunvísindamönnum þóknanlegar. En vei þeim fræðigreinum þegar þær notast við eigindlegar rannsóknir.*

Í eigindlegum rannsóknum er ekki lengur talið hve margir einstaklingar köstuðu sér fyrir björg (15% köstuðu sér fram af bjarginu, 35% nutu bara útsýnisins en 50% nenntu ekki útúr bílnum) heldur er talað við fólk sem á síðustu stundu var hindrað í að kasta sér framaf. Viðtal við 5 eða 50 slíka þar sem rannsakandi gerir grein fyrir hvað þeir eiga sameiginlegt og hvernig þeir (eða rannsakandinn, og miðar þá við kenningar fræðimanna og aðrar rannsóknir) telja að koma megi í veg fyrir að fólk kasti sér fram af bjargi (setja upp girðingu) — eða líði þannig að það sjái sér ekki annarra kosta völ (sálfræðihjálp, félagsleg aðstoð) er að mati einhverra þá bara asnaleg rannsókn.** Nei, sé ekki hægt að nota prósentutölur, gröf og línurit (m.ö.o. nota útreikninga) þá eru þetta ekki alvöru vísindi.

Það ber vott um talsverðan hroka raunvísindanna að líta niður á greinar sem skoða manninn og fjölbreytilega hegðun hans. Samfélag manna er flóknara en svo að það sé hægt að setja það upp í jöfnu eða reikna það út með óyggjandi niðurstöðu.*** Samfélög breytast, það gerir stærðfræði ekki. Samfélög á Vesturlöndum hafa t.a.m. tekið gríðarmiklum breytingum frá iðnbyltingu og sér ekki fyrir endann á þeim. Þetta er rannsakað af fræðimönnum sem sumir hafa hreinlega þurft að finna upp nýjar aðferðir til að fjalla um viðfangsefni sín.

En vilji fólk óbreytt ástand, þá er auðvitað gott að ríghalda í stærðfræðinginn stærðfræðina sína. Við hin skoðum mannlífið með fjölbreyttari hætti.

___

* Um muninn á megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum má lesa á Vísindavefnum. Þar segir einnig: „Þótt oft hafi ríkt átök milli fræðimanna um ágæti megindlegra rannsóknaraðferða umfram eigindlegar, og öfugt, eru margir nú á þeirri skoðun að nota þurfi báðar aðferðir til þess að byggja upp heildstæða þekkingu á sviði félagsvísinda.“

Eigindlegar rannsóknir eru reyndar líka gerðar í heilbrigðisvísindum, sbr. þessi skilgreining á megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum sem ég tók úr B.Sc. ritgerð í hjúkrunarfræði — sem er þá líklega „djöflafræði“ úr því hún notast við eigindlegar rannsóknir (umfjöllunarefnið er að auki um þjónustu ljósmæðra, öllu djöfullegra verður það ekki).

„Fylgjendur megindlegra rannsóknaraðferða vinna samkvæmt þeirri trú að sannleikurinn sé algjör og að það sé einungis einn raunveruleiki sem hægt sé að skilgreina með góðu mælitæki. Rannsakendur trúa því að mannleg hegðun sé hlutlæg, ákveðin og mælanleg.

Eigindleg rannsóknaraðferð er notuð til að lýsa og stuðla að skilningi á mannlegri upplifun líkt og sársauka, umhyggju, ánægju og þægindum. Þar sem mannlega upplifun er erfitt að mæla virðist eigindleg rannsóknaraðferð vera gagnleg. Eigindleg rannsóknaraðferð einblínir á uppgötvanir og skilning á heildinni sem er nálgun í samræmi við hugmyndafræði heildrænnar hjúkrunar. Fyrirbærafræði (Phenomenology) er ein tegund eigindlegra rannsóknaraðferða. Fyrirbærafræði er bæði heimspeki og rannsóknaraðferð sem ætlað er að auka skilning á mannlegum fyrirbærum m.a. til að bæta mannlega þjónustu eins og t.d. heilbrigðisþjónustu. Grunnhugmynd hennar er að eðli heimsins er ekki þekkt, við getum aðeins vitað hvernig fólk skynjar heiminn. Markmið fyrirbærafræðinnar er því að lýsa reynslu eins og einstaklingurinn upplifir hana og segir frá. Fyrirbærafræði lítur svo á að einstaklingurinn og umhverfið sé ein heild, þannig að umhverfið móti einstaklinginn og einstaklingurinn móti umhverfið.“

[Ég sleppi úr tilvísunum í heimildir, en játa hér með að ég hef enga heimild fyrir því að draga þessa örugglega ágætu ritgerð (ég las hana ekki) inn í deilur um „gervivísindi“ og „djöflafræði“. Þá stytti ég textann talsvert til að ofgera ekki lesendum sem stendur ógn af djöflum.]

** Hér er dæmi um hvernig eigindleg rannsóknaraðferð var notuð til að öðlast þekkingu á viðhorfum pólskra íbúa Reykjavíkur. Einhver myndi segja að nægilegt væri að senda þeim spurningalista (megindleg aðferð) og láta svör við honum duga sem fullnaðarsvar, enda óþarft að elta ólar við hvort Pólverjum „finnist“ að þeim sé mismunað, slíkt er bara túlkun.
„Tekin voru eigindleg viðtöl við 6 pólska borgarbúa sem allir hafa þegið þjónustu á Þjónustumiðstöðvunum. Viðtölin veittu innsýn í upplifum viðmælenda á þjónustu hjá þjónustumiðstöðvunum, bæði hvað varðar viðmót félagsráðgjafa og túlka. Helsta niðurstaða rannsóknarinnar var sú að auðvelt aðgengi að þjónustunni er fólki afar mikilvægt, ekki síst vegna þess að misvísandi upplýsingar geta orðið til þess að einstaklingum finnist sem þeim sé mismunað.“

*** Á morgun, föstudag, verða haldnir fjölmargir fyrirlestrar um atvinnuleysi, dvöl barna í Kvennaathvarfinu, einelti, lestrarvenjur, flóttamenn, fötlun, innflytjendur, kreppu, kynleiðréttingaraðgerðir, líkamsímynd ungmenna, nepalskar konur, rasisma, samkynhneigð, stöðu kynjanna, umönnun aldraðra, utangarðsfólk, þingræði, þjóðfélagsbreytingar og margt fleira. Sumt af þessu er eflaust byggt á afar hæpnum rannsóknum, allavega að mati þeirra sem eiga bágt með að sætta sig við að þær eru viðurkenndar af háskólasamfélaginu.

Viðbót: Anna Bentína Hermansen skrifar ágæta grein um sama efni („Um „gervivísindi“ kynjafræðinnar„) sem birtist 13. nóvember á Smugunni.

Efnisorð: , , , ,