miðvikudagur, nóvember 07, 2012

Föðurhlutverk og feminismi

Áðan horfði ég á mynd sem Bob Geldof gerði um réttindi feðra til að umgangast börn sín. Myndin snýst um breskt réttarkerfi sem ég þekki ekki nægilega vel en miðað við það sem kom fram í myndinni falla dómar sjaldan (sjaldnast)á þann veg að barn umgangist báða foreldra sína jafnt. Auðvitað er það ekkert alltaf hægt (eins og Bob Geldof kemur inná en aðalmálið segir hann vera að 50% reglan sé útgangspunktur samninga) en breskir feður virðast samkvæmt þessu hitta börn sín tvær helgar (eða jafnvel bara annan daginn?) í mánuði og punktur.

Flest þau dæmi sem ég þekki til hér á landi eru á annan veg. Forræðið er reyndar allaf hjá móðurinni en börnin eru með föður sínum frá fimmtudegi til mánudags aðra hverja helgi og svo yfirleitt einn aukadag í viku. Í einu tilviki sem ég man eftir var barnið eina viku hjá föðurnum og eina hjá móðurinni (líka meðan það var á skólaaldri). Allt var þetta í góðu samkomulagi og allir eins sáttir við það og hugsast getur (en auðvitað má þó alltaf reikna með að börnin sjálf vilji heldur að foreldrar sínir byggju saman).

Ég þekki líka hina hlið málanna, umgengnis- og forræðisdeilur sem ætla engan endi að taka. Þau dæmi eru allt frá því að faðirinn fái ekki barnið eins oft og um var samið og yfir í að móðir og barn fluttu úr landi og faðirinn sá barnið ekki aftur fyrr en það var orðið fullorðið, fram að því voru engin samskipti. Auðvitað líða bæði faðir og barn við slíkar aðstæður.

Í myndinni var talað við sálfræðiprófessor sem hafði gert rannsókn á 10.000 fjölskyldum og niðurstaðan var sú að þegar börn höfðu mikið samband við föður sinn eftir skilnað gekk þeim betur að aðlagast. Þetta sögðu mæðurnar sjálfar, svo ekki verða allar konur sakaðar um ósanngirni í garð feðra þegar þær eru beðnar um að meta hvað er börnum fyrir bestu.

Þar sem ég þekki til þar sem fráskildir feður eiga í hlut þá eru þeir reyndar alveg til fyrirmyndar og gefa mæðrum ekkert eftir í að næra, klæða og sinna börnum sínum.* Þeir líta á tíma sinn með börnunum sem nánast heilagan (a.m.k. fyrstu árin eða meðan þau eru ung) og taka frí frá vinnu eða fara fyrr heim þá daga sem þeir hafa börnin.

Afturámóti eru þeir feður sem eru í sambúð með barnsmæðrum sínum mun líklegri til að vinna lengi, láta vinnuferðir til útlanda ganga fyrir, mæta aldrei á foreldrafundi, taka sér aldrei frí þegar barnið er veikt og sinna bara börnunum um helgar (eins og helgarpabbar!) og láta sér oft nægja að sjá börnin um eða eftir kvöldmat eða þá sofandi, vikum og mánuðum saman. Mér hefur stundum fundist sem börn sem eiga fráskilda foreldra hafa meiri samskipti við feður sína en hin sem eiga foreldra í hjónabandi þar sem pabbinn sinnir fjölskyldunni bara þegar hann má vera að og mamman sér um að gera allt fyrir og með börnunum, tekur sér frí úr vinnu og ber alla ábyrgð á tómstundaiðkun þeirra og félagslífi.

En þarna stendur hnífurinn í kúnni. Hin hefðbundnu kynjahlutverk þar sem konan sér um börnin og karlinn er fjarverandi (að skaffa). Eins og einn viðmælandi Bob Geldof segir þá er það talið konunni til tekna fyrir dómstólum að hafa séð meira um börnin. Og hverjir eru nú það sem hafa mest barist gegn hinum hefðbundnu hlutverkum kynjanna? Jú, feministar. Enda þótt karlar (sérstaklega þeir sem eru í félagskap sem berst fyrir forræði feðra) bölsótist út í feminista** þá voru það feministar sem börðust fyrir því að karlar tækju jafnan þátt í uppeldi barna sinna. Fyrir hálfri öld lét ekki nokkur karlmaður sjá sig með barnavagn, ætli það hefði breyst ef kvenréttindabaráttan hefði ekki átt sér stað?

Án þess að ég nenni að rekja alla þá sögu þá má benda á þau sannindi að þær konur sem eru feministar eru ekki líklegar til að halda því fram að barnsfeður þeirra séu ófærir um að skipta á bleyjum eða klæða börn í úlpu eða muna eftir að senda þau í skólann; þær telja (nema annað sé sannað í tilfelli einstaka karla) að karlar geti bara ágætlega séð um börnin bæði meðan þær búa með þeim og eftir skilnað.*** Það eru afturámóti konur sem eru pikkfastar í hugmyndaheimi hefðbundinna kynjahlutverka sem bera því við að þær einar geti séð um börn sín og þau þurfi ekkert á feðrum sínum að halda.

Feministar eru ekki eðlishyggjusinnar, heldur trúa því að samfélagið móti okkur og við mótum samfélagið. Það er sú samfélagsmótun sem gerir það að verkum að (fráskildum) karlmönnum finnst nú sjálfsagt að þeir hafi jafn mikið með uppeldi barna sinna að gera og barnsmæður þeirra. Það er því mikill misskilningur forsjárlausra feðra að feministar séu óvinir þeirra, þó að feministar sjái ekki ástæðu til að berjast fyrir þá, það geta þeir séð um sjálfir.**** Þeim væri hinsvegar nær að styðja baráttu feminista og taka þannig þátt í að gera samfélagið betra fyrir okkur öll.

___
* Það er semsagt ekki vegna þess að ég haldi að allir karlar séu óhæfir sem feður sem ég hef óbeit á samtökum karla í forræðis- og umgengnisdeilum. Ég hef lengi haft horn í síðu samtaka þeirra, hverju nafni sem þau nefnast, og fylgdist um tíma með umræðum á heimasíðu Ábyrgra feðra (nú Félag um foreldrajafnrétti) þar sem var stækt kvenhatur sem ég minnist ekki að stjórnarmenn hafi reynt að draga úr; og svo er auðvitað erfitt að líta framhjá hverskonar menn hafa verið þar í stjórn, sem gerir lítið fyrir trúverðugleika þeirra fullyrðinga samtakanna um að mæður séu sífellt að ljúga upp á feður í forræðisdeilum að þeir séu ofbeldismenn.

** Það bar reyndar ekki á kvenhatri í mynd Geldofs og ekkert slæmt sagt um feminista (það er meira segja vísað til þeirra á fremur jákvæðan hátt í lokin) en það þarf ekki að lesa margar athugasemdir við myndina á youtube til að sjá að feministum er kennt um aðskilnað feðra frá börnum sínum.

*** Í þeim dæmum sem ég taldi upp að ofan um gott og slæmt samkomulag um umgengni eftir skilnað var alltaf um feminista að ræða þegar vel gekk en konur sem voru fastheldnar á kynjahlutverkin þegar hlutirnir fóru á verri veg (hér er ég ekki að tala um dæmi þar sem karlar hafa beitt þær eða börnin ofbeldi, þá finnst mér skiljanlegt að konur leiti allra leiða til að forða börnum sínum frá feðrunum; ég þekki þannig dæmi líka, og sannarlega þekki ég líka dæmi þess að feður hafa aldrei samband við börn sín, hvort sem um börn fædd innan hjónabands eða úti í bæ er að ræða).

**** Hildur Lilliendahl skrifaði fínan pistil á Knúzið um þetta en bloggið hennar virðist horfið og því get ég ekki vísað í það sem hún hafði áður sagt þar um málið.

Efnisorð: ,