laugardagur, nóvember 10, 2012

Kaldur vetur og kisur á vergangi

Einn helsti baráttumaður fyrir réttindum dýra, Árni Stefán Árnason, skrifar pistil á blogg sitt í dag. Efnið er ömurlegt líf útigangskatta og hvað þarf að gera til að annarsvegar koma í veg fyrir að þeir eigi jafn hörmulegt líf og raun ber vitni og hinsvegar hvernig hægt er að koma í veg fyrir að þeir – sem og aðrir kettir — fjölgi sér (svo ekki verði til fleiri kettir á vergangi). Pistill hans er skyldulesning.

Árni Stefán bendir á frábært starf Kattavinafélagsins og einstakra meðlima þess („duglegustu sjálfboðaliðarnir“) sem leita uppi útigangsketti og reyna að ná þeim í hús en fóðra þá ella. En til þess að þau geti hjálpað þarf að láta vita um þá ketti sem eru á vergangi. Nú þegar allir og amma þeirra eru með snjallsíma ætti að vera hægur vandinn að taka mynd af þeim köttum sem fólk rekst á og bera þær saman við myndir af eftirlýstum kisum hjá Kattholti (það er nefnilega til fólk sem týnir kisum sínum og saknar þeirra mjög og vill umfram allt fá þá aftur; það fólk setur auglýsingu inn á vef Kattholts (og Dýrahjálpar og hjá bland.is) með upplýsingum um köttinn sem hvarf). Leiki minnsti grunur á að kötturinn sé týndur eða heimilislaus (allir ólarlausir kettir geta verið heimilislausir en jafnvel þeir sem hafa ól gætu hafa villst að heiman) ætti að senda inn mynd og upplýsingar til Kattholts til að auka líkurnar á að kisa komist heim til sín eða eignist annað heimili.

Á vef Kattholts er dásamleg saga um konu sem vildi ekki eignast kött en frétti svo af ketti sem hafði verið í Kattholti mánuðum saman og átti ekki langa lífdaga fyrir höndum ef enginn vildi taka hann til sin. Lesið hana líka. Svo megið þið líka taka ykkur þessa konu og sjálfboðaliða Kattavinafélagsins til fyrirmyndar.

Efnisorð: