miðvikudagur, desember 12, 2012

Leyniskjöl afhjúpuð skv. beiðni

Í ljósi þeirrar kröfu sem gerð er á ríkisreknar menntastofnanir að þær í nafni upplýsingalaga birti opinberlega allt sem nemendur hafast að í skólanum, er mér ljúf skylda að ganga á undan með góðu fordæmi og birta gögn frá skólagöngu minni.

Skv. skriflegum gögnum sem ég hef undir höndum og eru undirrituð af kennara og foreldrum mínum (nöfn ekki birt af persónugreinanlegum ástæðum) fékk ég eftirfarandi vitnisburð í sjöára bekk.

Stundvísi: Á — Ágætt
Hegðun: G — Gott
Ástundun: S — Sæmilegt
Reglusemi: G — Gott

(Á þessu skeiði mannkynssögunnar þótti 'ágætt' betra en 'gott'.)

Þetta voru einkunnir fyrir fyrsta mánuð skólans það haustið. Fleiri mánuðir og ár bíða birtingar, enda nauðsynlegt að dæla ekki inn upplýsingum of ört til að fólk geti meðtekið þær en verði ekki sinnulaust og sljótt og missi áhugann (minnug þess hvernig fór fyrir rannsóknarskýrslu alþingis). Ég býst þó við að hver taug lesenda verði spennt til hins ítrasta því ég get lofað spennandi sviptingum í einkunnagjöf í níuára bekk.

Skriflegan rökstuðning kennara fyrir 'S' einkunnagjöfinni birti ég þó ekki fyrr en mér verður birtur dómsúrskurður.

Efnisorð: