mánudagur, janúar 21, 2013

Þriðji mánudagur í janúar

Þriðji mánudagur í janúar er lögboðinn frídagur opinberra starfsmanna í Bandaríkjunum því þá er Martin Luther King jr. dagurinn. Þegar Stevie Wonder samdi og söng lagið Happy Birthday árið 1981 til þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar svo þessi dagur yrði haldinn hátíðlegur grunaði hann líklega ekki að á þeim degi yrði þeldökkur maður svarinn í embætti Bandaríkjaforseta — og ekki bara í fyrsta sinn heldur annað sinn. Það má ekki gleyma því hvað þetta er mikill áfangi í sögu afrískra-ameríkana.

Ég grét reyndar ekki yfir embættistökunni í dag, kannski aðallega vegna þess að ég horfði ekki á athöfnina í beinni útsendingu eins og síðast.

Ég hef ekki verið eins ánægð með Obama og ég vonaði að ég yrði. Hann hefur ekki lokað Guantanamo (kannski ekki alveg honum að kenna því þingið stoppaði það mál*) og Bandaríkjaher er enn í Afghanistan. Þá er ég ekki í hópi þeirra sem hoppa hæð mína af gleði þegar menn eru teknir af lífi, jafnvel þó þeir heiti Osama Bin Laden. Svo virðist Obama vera undir hælnum á fjármálamönnum í stað þess að taka í lurginn á þeim.

Það sem Obama getur stært sig af að hafa gert er að skrifa undir lög um jöfn laun karla og kvenna og að hafa afnumið skilyrði sem Reagan setti upphaflega um að ekki mætti styðja fjölskylduráðgjöf ef hún fæli í sér jákvæða afstöðu til fóstureyðinga (e. global gag rule). Hann reyndi þó að loka Guantanamo fangabúðunum og er hættur stríðsrekstri í Írak. Hann afnám líka reglu að hermenn megi ekki vera opinberlega samkynhneigðir (hann styður hjónabönd samkynhneigðra sem er nýmæli af hálfu forseta). Honum tókst að berja í gegn heilbrigðislöggjöfinni þrátt fyrir mikla andstöðu. Það er líka mjög jákvætt hvernig hann virðist ætla að taka á brjálaðri byssumenningu Bandaríkjamanna. Ekki má gleyma að hann hvetur til jafnréttis, eins og reyndar kom fram í innsetningarræðu hans í dag þar sem lagði að jöfnu kvenréttindabaráttu, baráttu blökkumanna og baráttu samkynhneigðra fyrir réttindum sínum.

Margt fleira væri hægt að telja upp Obama til lofs eða lasts, en ég læt staðar numið. Ég held enn að hann sé góður forseti á mælikvarða annarra forseta Bandaríkjanna, og líklega mun aldrei á minni ævi verða manneskja í því embætti sem ekki mun — af illri nauðsyn eða með glöðu geði — lúta fjármálaöflum og standa í hernaði utan landssteinanna.

Vonandi fer Obama þá leið, sem er auðsóttari nú á seinna kjörtímabilinu þegar hann þarf ekki að ganga í augun á kjósendum til að ná endurkjöri,** að standa loksins við stóru orðin og að minnsta kosti loka þessu andstyggilega Guantanamo fangelsi.

___
* Þingið stoppaði hann af í því góða máli eins og það hefur reynt í mörgum öðrum. Það vandamál er líka við að stríða á alþingi.

** Silja Bára Ómarsdóttir benti á í ágætu viðtali hjá Ríkisútvarpinu að Obama geti sniðgengið þingið með því að stjórna með tilskipunum.

Efnisorð: , , , ,