laugardagur, janúar 30, 2016

Skellt í lás og skartgripir

Skilningur minn á nýju dönsku flóttamannalögunum rekst að einhverju leyti á við skýringar danskra ráðamanna. Minn skilningur á lögunum er sá að flóttamenn komist ekki inn í landið nema þeir afhendi eigur sínar í fé og öðrum verðmætum þegar lögreglan leitar í eigum þeirra (nema þeir geti bent á tilfinningalegt gildi gripanna, og mega þannig halda eftir giftingarhringjum, en eins og frægt er orðið stóð upphaflega til að gera mætti alla skartgripi upptæka, þ.m.t. giftingarhringi). En því er haldið fram að þannig sé það alls ekki heldur gildi sömu lög um flóttamenn og Dani sem segja sig til sveitar; þeir megi heldur ekki eiga fé eða verðmætar eignir því þá fái þeir ekki bætur. Ég á þó ekki von á því að vaðið sé með krumlurnar ofan í vasa, skartgripaskrín eða aðrar hirslur hins venjulega Dana til að kanna hvað þar leynist. Því mega flóttamenn langt að komnir og mishlaðnir eigum búast við. En eins og við vitum er fólkið sem flýr frá Sýrlandi ekki endilega fátækt, og er ekki að flýja örbirgð, heldur er það að flýja stríðsógnir í landi þar sem heilu borgirnar eru í rúst. Sumt af því fólki stefnir ekki endilega til Norðurlandanna vegna þess að það sér í hillingum að komast á sósíalinn, heldur þráir það að búa í samfélagi þar sem það telur sig geta verið óhult fyrir trúarbrjálæði, skoðanakúgun og stríði.

Danir sem eru mótfallnir nýju flóttamannalögunum kalla þau skartgripalögin (d. smykkeloven) og nota fjölmiðlar það heiti óspart. Í sjónvarpsviðtali 18. desember síðastliðnum sagði Inger Støjberg útlendinga- og aðlögunarráðherra (mér virðist hún einskonar dönsk Vigdís Hauks) aðspurð um hvort giftingarhringir yrðu gerðir upptækir að það væri ylti á kringumstæðum og lögreglumanninum [sem hefur heimild til að fara gegnum farangur hælisleitenda til að leita að peningum og öðrum verðmætum] hverju sinni. Í endanlegri útgáfu laganna var búið að bakka með þessa afstöðu og þar er sérstaklega tekið fram að giftingarhringir (og aðrir gripir með tilfinningalegt gildi) verði ekki gerðir upptækir – en það var bara vegna gagnrýni sem stjórnarflokkarnir fengu fyrir að ætla að ganga svona langt. Nóg var nú samt. Og raunar hafa sósíal-demókratar í röðum gengið úr flokknum fyrir að hafa stutt málið, fullir óbeitar.

Hvernig sem reynt er að réttlæta eignaupptöku með því að segja að ætlast sé til að fólkið sjálft leggi eitthvað af mörkum til eigin framfærslu eða stuðnings við að koma því fyrir (afhverju má það bara ekki þá sjálft borga fyrir það sem það getur, svona einsog innfæddir Danir, og félagslega kerfið hjálpar með rest ef það þá þarf að grípa inní?) þá skýrir eignaupptakan aldrei hvers vegna ætlast er til að fólk geri sérstaklega grein fyrir tilfinningalegum tengslum sínum við einstaka skartgripi. Auk þess er ég nokkuð viss um að hin nýja regla, að flóttamaður sem kemur til Danmerkur má ekki fá til sín fjölskyldu sína fyrr en eftir þrjú ár, á sér enga samsvörun innan félagslega kerfisins sem snýr að innfæddum Dönum. Þar er örugglega ekki þannig frá málum gengið að fái einhver félagslega íbúð eða styrk megi aðrir fjölskyldumeðlimir ekki flytja þangað með honum eða heimsækja fyrr en að þremur árum liðnum – sem stríðir gegn Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi ólög eru auðvitað sett til þess að fæla flóttamenn frá því að koma til Danmerkur.

Dönsku lögin uppskáru mikil viðbrögð utan Danmerkur sem innan. Ban Ki-moon og Kofi Annan núverandi og fyrrverandi framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasamtök og erlendir fjölmiðlar skömmuðu Dani fyrir þessi mannfjandsamlegu lög. Réttilega.

Einn frægasti listamaður samtímans, Kínverjinn Ai Weiwei, hefur svo mikla andstyggð á nýju dönsku flóttamannalögunum að hann ætlar að taka verk sín af sýningum í Danmörku. Viðbrögðin við ákvörðun Ai hafa verið misjöfn.
„Ai Weiwei hefur ákveðið að loka sýningu sinni „Ruptures“ í Faurschou Foundation í Kaupmannahöfn. Ákvörðun hans kemur í kjölfar þess að danska þingið samþykkti lagafrumvarp sem leyfir að verðmæti hælisleitenda séu gerð upptæk og fjölskyldusameiningu þeirra seinkað. Jens Faurschou styður ákvörðun listamannsins og segist harma að danska þingið velji að vera í fararbroddi táknrænnar og ómanneskjulegrar stefnumótunar gagnvart stærsta mannúðarvanda samtímans í Evrópu og Miðausturlöndum, í stað þess að vera í fararbroddi evrópuþjóða við lausn þessa bráða vanda.“
Í Árósum er einnig að finna verk eftir Ai og þar var safnstjórinn súr í bragði og sagði það ósanngjarnt að refsa heilli þjóð fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar.

Þótt það hljóti að vera svekkjandi fyrir listunnendur í Danmörku að missa af að sjá verk Ai Weiwei þá er miklum mun mikilvægara að hann noti stöðu sína til þess að sýna vanþóknun sína á nýju flóttamannalögunum. Ai ber velferð flóttamanna mjög fyrir brjósti og er t.a.m. með vinnustofu á Lesbos til þess að varpa ljósi á aðstæður þeirra þegar þeir koma þangað. Og það er eftir því tekið sem hann gerir og segir.

Í stuttu máli sagt eru Danir búnir að skíta á sig í augum alþjóðasamfélagsins. Og danskir ráðamenn kveinka sér ógurlega undan óvæginni gagnrýni utan frá.

Það hefur raunar komið í ljós að Danmörk er ekki eina landið sem ‘ver sig’ gegn óvelkomnu fólki með lagasetningu. Sviss, Holland og Noregur eru með lög sem eflaust eiga að gegna sama hlutverki og þau nýju dönsku. Og viti menn, er ekki Ísland með sama viðhorf fest í lög:
„Lög sem samþykkt voru á danska þjóðþinginu um upptöku verðmæta flóttafólks þykja mjög umdeild á heimsvísu en þau þykja ómannúðleg og grimmdarleg. Sambærilegar heimildir eru hins vegar í íslensku útlendingalögunum sem lögfest voru 2002.“
Það virðist þó ekki vera að í íslensku eða norsku lögunum sé heimild til að taka persónulega muni, heldur virðist almennt vera átt við peninga. Og að einhverju leyti má segja að við séum verri en Danir. Sem er slæmt en ekki eins draga-úr-gullfyllingarnar-legt og skartgripaþjófnaðurinn.

Það er óhætt að taka undir með danska blaðamanninum Rune Lykkeberg:
„Evrópa logar í innbyrðis deilum um hvernig beri að taka tillit til lýðræðislegrar kröfu borgaranna um að standa vörð um samfélög þeirra, og virða jafnframt mannréttindi þeirra sem ekki tilheyra þessum samfélögum. Allir hneykslast á vírgirðingum Ungverja, á sama tíma og þeir reyna að reisa sínar eigin girðingar.“

Efnisorð: , , , , ,

mánudagur, janúar 25, 2016

Leikreglum breytt

Frétt sem ég las á vef Ríkisútvarpsins í morgunsárið vakti athygli mína, en ekki beinlínis undrun. Þar var sagt frá því að nú sé ekki lengur tekið eins mikið mark á menntun fólks þegar það sækir um, heldur er meira mark tekið á reynslu umsækjenda.

Fyrir löngu síðan skrifaði ég örlítið um þetta, og þá á þessa leið:

Þegar konur voru almennt minna menntaðar en karlar, voru ekki með stúdentspróf eða bara með stúdentspróf en karlar með háskólapróf, þá var ástæða þess að þær fengju síður störf eða síður háar stöður sögð vera menntunarleysi þeirra og að menntun skipti öllu máli þegar ráðið væri í störf.

[…]

Konur sækja háskóla núorðið meira og hafa ekki síðri og oft meiri menntun en karlmenn sem sækja um sömu stöður eða bjóða sig fram til starfa (þ.á m. í framboðum), þá skiptir alltíeinu reynsla meira máli við mannaráðningar, svo og ‘keppnisskap’ eða álíka mannkostir.

Síðan ég skrifaði þetta hafa konur í enn meiri mæli aflað sér menntunar, og stunda mun fleiri konur nú háskólanám en karlar. En nú hafa semsagt stórfyrirtæki á borð við PricewaterhouseCoopers, Penguin og Ernst&Young fellt niður skilyrði um háskólagráðu við ráðningar, og framkvæmdastjóri starsfmannasviðs Icelandair segir of mikið einblínt á menntun.

Á sama tíma hefur atvinnuleysi háskólamenntaðra kvenna aukist ef eitthvað er. Mér er fyrirmunað að líta á þetta allt sem ótengdar tilviljanir.

Efnisorð: , ,

föstudagur, janúar 22, 2016

Kostað grjótkast (ósýnilegt spurningamerki)

Umræðan um listamannalaun hefur alltaf verið óþolandi en að þessu sinni er eins og 365 miðlar hafi haft með henni sérstakt markmið: að níða skóinn af Andra Snæ Magnasyni. Sá ágæti maður (Þórdís Elva skrifaði um hann feikigóða grein) hefur lengi verið hataður af virkjana- og stóriðjufíklum en nú bættist verulega í hóp þeirra sem sjá rautt í hvert sinn sem hann er nefndur.* Hafi Andri Snær ætlað í forsetaframboð er það nú næsta vonlaust. Og til þess hlýtur jú leikurinn að hafa verið gerður.

Það er reyndar sérstakt athugunarefni hvort framganga Jakobs Bjarnar, sérlegs hausaveiðara 365 miðla, kalli ekki á tiltal frá siðanefnd blaðamanna. Viðbrögð hans við athugasemdum Andra Snæs (sem voru skrifaðar á Facebook) hljóta að vera einsdæmi í sögu blaðamanna á Íslandi. Fyrirsögnin ein „Andri Snær gaf út eina bók á tæpum tíu árum“ stingur í augu. Jakob hefði alveg eins getað skrifað ‘jæja þá TÆPUM tíu árum’ því þótt hann biðji „ velvirðingar á ónákvæmninni“ þá skrifar hann næstum jafn langa grein og áður gegn Andra. Til allrar hamingju eru einhverjir lesendur með rænu í hausnum og gagnrýna þetta í athugasemdakerfinu.

Þegar svo sami blaðamaður skrifar grein í Fréttablaðið — sem birtist meðal aðsendra greina fólks sem ekki eru starfsmenn blaðsins — heldur hann því fram að hann sé sérlegur talsmaður listamannalauna og öll umræða af hans hálfu hafi nánast verið Andra Snæ „til lofs og dýrðar“. Þá talar blaðamaðurinn vammlausi um „glórulausar ásakanir á hendur blaðamönnum“.

Sem aftur rifjar upp gagnrýni á annan fjölmiðlamann fyrir ekki löngu. Þegar Ísland í dag birti viðtalið við hvítflibbafangana á Kvíabryggju litu margir (þ.á m. ég) á það sem lið í áróðursherferð 365 miðla til að firra þá sem hafa verið dæmdir, ákærðir og grunaðir um allskyns fjármálamisferli og fjárglæfrastarfsemi sem leiddi til falls bankanna. Sterkur grunur liggur á að sú herferð sé í boði Jóns Ásgeirs og Ingibjargar. Hinsvegar ber á það að líta að bankabófarnir á Kvíabryggju eru enn loðnir um lófana og gætu allt eins hafa kostað sjálfir herferðina alla og þar með ferð fjölmiðlasnatans sem sendur var til þeirra vestur á Snæfellsnes.

Fyrir þá sem ekki vita eða muna, þá hafa 365 miðlar orðið uppvísir að því að vera með kostuð viðtöl án þess að segja frá því. Trúir því einhver að það hafi verið einsdæmi?

Tvennt kemur til greina.

Annaðhvort var rógsherferðin á hendur Andra Snæs skipulögð og kostuð af vitringunum þremur til þess að draga athyglina frá viðtalinu við þá, eftir að í ljós kom að viðtalið jók á en minnkaði ekki óbeit landsmanna á þeim.

Eða það voru samtök álframleiðenda eða einhverjir álíka hagsmunaaðilar úr hópi álvers- og virkjanasinna sem drógu upp veskið og siguðu rökkunum á Andra Snæ.

Hverjir sem eru kostendur herferðarinnar, þá hefur það verið fyrir þá eins og gull ofan á risotto þegar töframaður steig fram á sviðið til að taka þátt í múgsefjuninni gegn listamannalaunum.


___
* Góð grein Viðars Hreinssonar um slaka blaðamenn, kommentakerfin og Andra Snæ. Frá honum er fenginn grjótkasts-hluti fyrirsagnarinnar.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, janúar 19, 2016

Gleymdur hátíðardagur?

Það er langt síðan ég tók þennan dag frá. Merkti við á dagatalinu, en hafði jafnframt í huga að kannski yrði helgin notuð svo ég passaði mig á að vera ekkert upptekin þá (og til vara er ég heldur ekki upptekin næstu helgi). En þótt ég telji mig fylgjast þokkalega vel með, þá sá ég engar auglýsingar eða tilkynningar um fundi og mannfagnaði í tilefni dagsins.

Svo ég harkaði af mér í gær og sló inn slóðina að Kvennablaðinu. Þegar það bar ekki árangur skoðaði ég aðra samfélagsmiðla en hvergi gat ég séð að Kvennablaðið blési til fagnaðar. Samt markaði dagurinn í dag 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna (yfir fertugu) og karla í vinnumennsku, að sögn Kvennablaðsins.

Almenningur allur hélt upp á 100 ára afmælið á síðasta ári og 19. júní var helsti hátíðardagurinn, en langömmubarn Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og pistlahöfundar hennar á Kvennablaðinu aftóku með öllu að sá dagur væri merkilegur og fussuðu og sveiuðu yfir heimsku feminista að vita ekki að 100 ára kosningaréttarafmælið væri 19. janúar.

Og því hefði verið eðlilegt að álykta að Kvennablaðsfólk héldi ráðstefnu eða allavega fund, mætti á Austurvöll og héldi ræður (í dag var ágætis veður til útivistar), eða gerði sér að minnsta kosti far um að minnast dagsins á síðum Kvennablaðsins. En nei. Ekki einu sinni hins stórkostlega áfanga í karlasögunni, að vinnumenn fengu loksins kosningarétt, fær nokkra athygli, hvað þá þetta smotterí að konur fengu í fyrsta sinn rétt til að kjósa til alþingis.

Hversvegna var þá allur æsingurinn þarna í fyrra? Það var ekki vegna þess að Kvennablaðsfólki langaði svona mikið að hafa hátíðahöld á réttum degi, eða vegna þess að það bæri sérstaka virðingu fyrir körlunum forfeðrum sínum sem fengu loks að kjósa eins og húsbændur þeirra. Nei, aðalmálið var að skemma stemninguna, reyna að láta líta út fyrir að 100 ára hátíðahöldin væru eitthvað plat byggt á röngum forsendum, og síðast en ekki síst að draga úr trúverðugleika kvenréttindahreyfinga allra tíma en þó sérstaklega feminista samtímans.

Eiginlega má sjá þetta upphlaup eftirá, svona í ljósi þess að ekki nokkur hræða á Kvennablaðinu minnist opinberlega á þennan ‘hátíðardag’, að ritstjóri og pistlahöfundar hafi þarna í fyrra hegðað sér eins og nettröll. Voru bara að grilla í liðinu, engin meining bak við neitt. En auðvitað var meiningin sú að klekkja á feministum.

Eins og ég þóttist vita.


Efnisorð:

laugardagur, janúar 16, 2016

Hálfur vegan

Árið byrjar ekki rólega. Nú þegar fyrsti mánuður þess er hálfnaður er rétt að renna yfir nokkur hitamál.

Skaup
Skaupið fór misjafnlega í fólk að vanda. Að mínu mati hefði það mátt vera pólitískara, mér finnst það skemmtilegra en upptalning á dýrum íþróttafatnaði. Það er ekki til siðs að pólitíkusar kveinki sér undan Skaupinu en þingmenn stjórnarflokkanna notuðu tækifærið þegar Barnaskaupið reyndist hafa verið með mun beittara háð en fullorðinsskaupið, og kvörtuðu undan áróðri. Grínið er auðvitað að biskupssonurinn með barnaskaupið er alinn upp við að eðlilegt sé að troða áróðri ofan í börn, og þá eru þingmennirnir sem kvörtuðu báðir úr flokkum þar viðhorf til kirkjuferða skólabarna er mjög jákvætt.

Hafnartorg
Svo mjög hafði verið rifist um miðaldra hafnargarð við Tryggvagötu að fæstir mundu eftir að þar átti að koma hús. Og þvílíkt hús! Þegar mynd af bákninu fyrirhugaða blöstu við kom í ljós að það átti að vera stærra en jafnvel ljóti svarti kassinn við Lækjartorg. (Það vill svo til að eftir að þessar myndir birtust kom auglýsing í blaði um að á 3ju hæð svarta kassans væri til leigu „skrifstofuhúsnæði á besta stað með einstöku útsýni“. Vonandi svarar einhver auglýsingunni áður en útsýnið hverfur.)

Við hinn enda Lækjargötu á líka að hrúga steypumagni sem virðist í sömu stærðarhlutföllum og báknið, afsakið „verslunarplássið“. Ætli arkitektunum finnist ekki þessar byggingar „kallast á“? Það er yfirleitt þannig sem þeir útskýra sín verstu verk, þegar þeir þá ekki segja að þau „stingi skemmtilega í stúf“ við umhverfi sitt. Hið síðarnefnda gerir það sannarlega (að undanskildum ljóta svarta kassanum).

Sif Sigmarsdóttir skrifaði slíkan snilldarpistil um þetta skipulagsslys í blaðið í dag að það er skylda að lesa hann.

Listamannlaun með meiru
Hinn árlegi héraðsbrestur, eða umræðan um úthlutun starfslauna listamanna, stendur sem hæst. Að þessu sinni hefur umræðan tekið óvænta stefnu og tengst vangaveltum um hugsanlega forsetaframbjóðendur. Erling Ólafsson orðar það þannig:
„Ætli forsetakosningar séu byrjaðar það mætti halda þegar maður sér skrif ofsaíhalds liðsins gegn hugsanlegum frambjóðanda sem er friðarsinni, umhverfissinni og félagslega þenkjandi. Það er allt gert til þess að hindra framgang hans. Nú er það níð um letingjann á ríkisjötunni sem þiggur milljónir af bláfátækri alþýðu.“
Það er ágætt að halda því til haga að 365 miðlar (þessir sem hafa Kristján Má Unnarsson á launaskrá, þennan sem mærir stóriðju í hverju orði) hafa birt myndir af rithöfundum sem fá starfslaun listamanna eins og um glæpamenn sé að ræða, og gera sem minnst úr framlagi hvers og eins til menningarsköpunar. Sá sem hefur verið orðaður við forsetaframboð fær sérstaka útreið. En auðvitað bara alveg óvart, eins og allt annað hjá 365 miðlum.

Forsetaframbjóðandi(?)
Í Fréttablaðinu hefur líka verið fjallað um hugsanlegt framboð Katrínar Jakobsdóttur. 365 miðlum er mjög í mun að hún bjóði sig fram því Katrín er stjórnarflokkunum mjög skæður andstæðingur sem flestir aðdáendur ríkisstjórnarinnar myndu gjarnan vilja losna við. Hyrfi Katrín af þingi tæki hún jafnframt með sér titillinn vinsælasti stjórnmálamaðurinn. Því yrðu margir í ríkisstjórnarflokkunum fegnir.

Það er eitthvað rotið
Danska ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp sem takmarkar möguleika fjölskyldna flóttamanna á að sameinast í Danmörku. Þá segir þar að gera megi upptæk verðmæti í fórum flóttamanna, þar af fé umfram tiltekna upphæð og skartgripi. Frumvarpið hefur breyst eftir harða gagnrýni; nú mega flóttamennirnir halda eftir giftingarhringnum og öðrum hlutum sem hafa tilfinningalegt gildi svo sem heiðursmerki og fjölskyldumyndir. Sem ekki mátti í upphaflegu frumvarpsdrögunum. (Það bætir ekki úr skák að Svisslendingar fara að nokkru leyti sömu leið og Danir og hirða fé af flóttamönnum.) Ef nasistarnir hefðu ekki hirt fé og skartgripi af gyðingum áður en þeir myrtu þá væri þetta kannski ekki eins æpandi augljósar ofsóknir. Aðallega er þetta samt ógeðslegt.

Afsakið orðbragðið, hér er fjallað um Icesave
Icesave skuldin er nú að fullu greidd. Skilst mér. Finnst samt endilega að áður hafi borist fréttir af því að Icesave málinu sé lokið. Halldór Baldursson teiknaði bestu skýringarmyndina við þetta ruglingslega mál.

Geðþekki álrisinn
Rio Tinto í Straumsvík hefur fryst laun starfsmanna sinna. Álrisinn hefur reynt að kúga þá til að samþykkja að verktakar taki við kjarasamningsbundnum störfum en þeir neitað og hefur kjaradeila þeirra staðið í meira en ár. Starfsmenn álversins eru að vonum sáróánægðir með þessar málalyktir og starfsandinn á vinnustaðnum ku vera skelfilegur.

Af þessu tilefni er skemmtilegt að rifja upp jákvæðar skoðanir Egils Helgasonar á álverum (og Kristjáni Má Unnarssyni).

Grænasta álið okkar í heiminum
Rétt fyrir áramót kærði Landvernd auglýsingar Norðuráls. Snorri Baldursson formaður Landverndar hefur nú skrifað grein þar sem hann hrekur rangfærslur álfélagsins. Niðurlagið hljóðar svo: „Það er fjarri sanni að „álið okkar“ sé einhver grænasti málmur í heimi. Það sem Snorri nefnir held ég ekki, er að með því að dúndra jákvæðum staðhæfingum á borð við „álið okkar“ og „grænasti málmur í heimi“ er verið að gera fólk jákvætt í garð álframleiðslu, alveg burtséð frá því að hægt sé að hrekja staðhæfingarnar. Rétt á meðan auglýsinguna ber fyrir augu eða eyru er hamrað á jákvæðum orðum, þar af leiðir að sá sem meðtekur auglýsinguna verður (eða á að verða) jákvæður í garð álframleiðslunnar. Það er gott að Landvernd lætur Norðurál ekki komast upp með þetta.

Íþyngjandi plássfrekja
Bóndi nokkur á Norðurlandi eystra hefur um nokkurra ára skeið komist upp með að hafa 100 kýr í fjósi sem hefur aðeins legubása fyrir 92 kýr. Honum mun þykja íþyngjandi þessar smámunasömu reglur um að kýr þurfi að leggjast og sofa. Svo heimtar hann bætur vegna tekjutaps vegna þess að hann þarf að fækka kúm svo þær passi í fjósið.

Veganúar
„Veganúar er áskorun til almennings um að prófa vegan lífsstíl í janúar og stuðla þannig með virkum hætti að dýravernd, umhverfisvernd og hættri heilsu. Veganismi er lífsstíll þar sem leitast er við að útiloka og forðast – eftir fremsta megni – hagnýtingu og ofbeldi gagnvart dýrum, hvort sem það á við um fæðu, fatnað, skemmtun eða aðra neyslu.“
Ég dáist að fólki sem er vegan, mér finnst það siðferðilega betra en við hin sem neytum dýraafurða (ég sé t.d. ekki fyrir mér að geta hætt að nota smjör). Vonandi prófa sem flestir að sleppa að borða dýraafurðir, þó ekki væri nema þennan mánuð, eða sleppa allavega kjötinu. Það væri strax spor í rétta átt.

Heima er best
Albönsku fjölskyldurnar sem nú eru orðnar íslenskar komu heim. Það var best.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,

fimmtudagur, janúar 14, 2016

Peningamannaþvottur

Vegna þess að ég horfi nánast aldrei á fréttir Stöðvar 2 eða Ísland í dag, vissi ég ekkert um viðtalið við heilögu þrenninguna á Kvíabryggju fyrr en seint og síðar meir og sá það enn síðar. Sem var að vissu leyti heppilegt því þá þegar voru búnar að birtast ýmsar greinar og glósur um viðtalið, heilindi fjölmiðlamannsins og það sem viðmælendur hans höfðu að segja.

Það vill líka svo heppilega til að fyrir örfáum dögum síðan skrifaði ég um
„herferð sem lengi hefur staðið, ekki síst á síðum Fréttablaðsins, þar sem borið er blak af auðmönnum og bankamönnum (eða þeir skrifa sjálfir fullir heilagrar reiði) og þeir sagðir ranglega ákærðir, illa með þá farið, og saklausir dæmdir.“
Viðtalið sem Þorbjörn Þórðarson tók er sannarlega afar gott dæmi um það.

Þórður Snær Júlíusson segir efnislega það sama og ég í grein á Kjarnanum:
„Viðtalið við Ólaf og samfanga hans tengdum Kaupþingi var liður í mjög fyrirferðamikilli herferð þeirra sem annað hvort hafa hlotið dóma fyrir hruntengda glæpi eða eru til rannsóknar í slíkum málum þess efnis að bankafólk sé fórnarlömb samsæris. Undanfarnar vikur og mánuði hefur sú herferð birst í fjölmörgum aðsendum greinum í blöð frá aðstandendum, lögmönnum, fyrrverandi upplýsingafulltrúum eða mönnunum sjálfum þar sem talað er um aðför að réttaríkinu og dómsmorðið sem þeir hafi orðið fyrir.“
Ingi Freyr Vilhjálmsson hefur einnig skrifað fína grein í Stundina þar sem hann tínir til nokkur ágæt dæmi þess að Ólafur Ólafsson hafi notið klíkuskapar og pólitíkur þegar hann eignaðist Búnaðarbankann (sem svo hlaut nafnið Kaupþing) og ræðir einnig Al Thani-málið (þó ekki eins ítarlega og Þórður Snær) og afskipti Ólafs Ólafssonar af einkavæðingu Vátryggingafélags Íslands.

Ekki er síðri samantekt Láru Hönnu Einarsdóttur þar sem hægt er að sjá Kvíabryggju-viðtalið og ýmis önnur viðtöl sem draga fram allt aðra sögu en þá sem þeir „vesalingarnir á Kvíabryggju“ hafa að segja. (Já og góður punktur hjá Láru Hönnu að benda á að þetta gagnrýnislausa viðtal á Stöð 2, „sem er undir hæl auðmanna“ sé staðfesting á nauðsyn Ríkisútvarpsins.)

Hvort sem Þorbjörn Þórðarson fór nauðugur viljugur eða þótti það þarfaverk að brenna vestur á Snæfellsnes til að taka viðtalið, vafðist honum tunga um tönn þegar hann sagði [á 12:40 mín]:
„Eitt örstutt að lokum, vegna þess að umræðan er oft á tíðum svolítið hatrömm. Svona núna þegar þið vitið meira og þið eruð búnir að hafa tíma til að hugsa málið; Þið vitið alveg sjálfir að það eru ekki … það eru ekkert allir á móti ykkur?“
Þessi spurning, hvort sem spyrjandinn samdi hana sjálfur eða ekki, er versta augnablikið í vondu viðtali, og hlýtur að gera út af við feril Þorbjörns sem fagmanns í blaðamannastétt, enda þótt hans geti beðið glæstur ferill sem málpípa auðmanna.

Ólafur (fyrir hönd auðmanna í fangelsi) svarar spurningunni og segir að reynt sé að draga upp mynd af þeim þremur eins og þeir séu „virkilega svona fólk“ og talar um „þetta almenna viðhorf sem er verið að reyna að búa til í samfélaginu gegn okkur“.

Sjálfur er hann auðvitað blásaklaus af því að reyna að hafa áhrif á viðhorf fólks gagnvart sér og sökunautum sínum, og Jón Ásgeir jafn saklaus af því að beita fjölmiðlum sínum í sama skyni. Einmitt.

Efnisorð: ,

mánudagur, janúar 11, 2016

* [viðbót, síðar]

Rétt í þessu var ég að bæta neðanmálsgreinum við tvær bloggfærslur. Önnur þeirra er síðasta bloggfærsla, en þar hafði mér láðst að nefna grein eftir Jón Trausta Reynisson enda þótt ég hefði sett tengingu á hana, en ég þykist vita að ekki ýti allir lesendur á hlekkinn, og í þessu tilviki vil ég a.m.k. upplýsa um efni greinar Jóns Trausta svo að fleiri lesi hana.

Hin bloggfærslan er skrifuð síðastliðið vor og heitir „Hitnar undir körlum“. Þar ræddi ég þá undarlegu áráttu karla, sem tjá sig við fréttir eða greinar um ofbeldi sem karlar beita konur, að ræða allt annað en það. Helst snúa þeir umræðunni á hvolf og tala um ofbeldi kvenna gegn körlum (en þegar karl stígur fram og segir konu hafa beitt sig ofbeldi fara karlarnir að ræða um forræðismál!). Augljóst dæmi um slíkt má sjá í nýlegri grein eftir Hrannar Björn Arnarsson sem fjallar um karlveldi og kvenmorð, en þar vilja karlarnir í athugasemdakerfinu enganveginn ræða þá staðreynd að karlar beita konur ofbeldi og að líklegra er að „konur verði myrtar af núverandi eða fyrrverandi lífsförunauti sínum, en nokkrum öðrum einstaklingum eða öfgahópum“. Nei, karlarnir í athugasemdakerfinu vilja ræða ofbeldi sem konur beita börn og karlmenn, þ.m.t. andlegt ofbeldi, en leggja þó áherslu á að „hætt[a] að kyngera alla skapaða hluti, það er nákvæmlega ekkert kynbundið við ofbeldi“. Mér þykir einboðið að setja tengingu á grein Hrannars við gamla pistilinn minn, máli mínu til sönnunar. Þar sem mig minnir að ég hafi áður skrifað um þessa undanbragða taktík karlmanna í athugasemdakerfum, mun ég einnig bæta við hlekk á grein Hrannars rekist ég á fleiri gömul skrif mín af því tagi.

Úr því að ég er í uppfærsluham get ég upplýst lesendur að ég hef lengi haft í huga að fara yfir allar bloggfærslur mínar frá upphafi og hengja við þær rétta merkimiða (það eru þeir sem birtast allajafna neðst við hverja færslu). Ég mun fjölga þeim, bæta við sérstökum merkimiðum fyrir Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, svo auðveldara sé að fletta uppá öllu því sem ég hef hrakyrt þá fyrir; gera líka merkimiða fyrir skipulagsmál, utanríkismál og ýmislegt fleira. Henda jafnframt út merkimiðum sem hefjast á stórum staf og nota litla stafi í nýjum og gömlum merkimiðum. Já og laga augljósar ásláttarvillur (en stilla mig um að laga allar ambögur og málfræðifúsk, enda þótt freistandi sé að kaupa prófarkalestur á allt heila klabbið, ekki veitti af). Sennilega verður viðvörun bætt framan við pistla þar sem það á við. Að auki ætla ég að bæta við fleiri pistla nýjum upplýsingum eða tenglum á fréttir og greinar (ef og þegar ég nenni), aðallega þó vísunum í eigin skrif, og hef það þá yfirleitt neðanmáls og sérmerkt. Ég breyti ekki pistlum að öðru leyti eftirá,* ég lofa.

Það stendur semsagt til að laga, taka til og gera auðfundnara. Ekki verður lokað vegna breytinga á meðan.

Lesendur sem nota rss til að fylgjast með nýjum pistlum fá líklega endalausar tilkynningar við hverja breytingu (ég biðst fyrirfram afsökunar) en aðrir ættu ekki að verða varir við neitt rask. Hugsanlega vek ég þó athygli á einhverjum breytinganna eftir því sem verkinu vindur fram.

Hvenær tiltekt lýkur er óljóst en það ætti að hafast á þessari öld.



___
* [viðbót] Ég áskil mér áfram rétt til að umorða eða bæta við texta innan sólarhrings frá því hann er skrifaður.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, janúar 09, 2016

Bankamannablús

Í Fréttablaðinu hafa með dags millibili birst tvær greinar eftir fyrrverandi bankamenn þar sem annar þeirra ver Sigurð Einarsson en hinn, sem einnig hefur hlotið dóm eins og Sigurður en áfrýjaði dómnum, ver sjálfan sig í greininni.

Fyrri greinin er eftir Jónas Sigurgeirsson sem er óhamingjusamur fyrir hönd Sigurðar Einarsson fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings og núverandi fanga á Kvíabryggju (hvar hann býr ekki á fangagangi eins og almúginn heldur í einbýlishúsi). Gert var grín að fyllerísröfli Sigurðar í áramótaskaupinu (sem var ófyndið) en það þykir Jónasi „lágkúruleg grimmd“. Þess má geta að Jónas þessi Sigurgeirsson er framkvæmdastjóri Bókafélagsins* sem hefur m.a. gefið út Mannasiði Gillz og Heilræði Gillz, svona svo því til sé til skila haldið að Jónas ber skynbragð á lágkúru þegar hann sér hana. Honum finnst einnig greinilega ágætt dreifa lágkúru þótt hann eigi erfitt með að þola tilhugsunina um að hlegið sé að Sigurði Einarssyni í áramótaskaupinu.

Ekki tekur Jónas fram hvort hann er aftur kominn í hlutverk upplýsingafulltrúa Kaupþings eins og á árum áður, og fær borgað fyrir að skrifa varnargreinina fyrir Sigurð eða hvort hann fær feitt djobb næst þegar Sigurði verður treyst til að reka fjármálafyrirtæki af sverari gerðinni, en ljóst er af orðum Jónasar að dómar yfir bankamönnum (sem eru fjölskyldumenn og afburðanámsmenn, en dæmdir menn eru eins og kunnugt er ávallt barnlausir einstæðingar með lesblindu) eru „fórnarlömb skipulegrar aðfarar“.**

Jónas segir einnig að þessir dæmdu einstaklingar eigi það sammerkt að þeir telja sig ekkert rangt hafa gert – og er þar eingöngu að tala um bankamennina, en það vill nú svo til að fæstir þeirra sem hljóta refsidóma telja sig seka; fangelsin eru full af saklausum mönnum – ef þú spyrð þá sjálfa.

Seinni greinin er skrifuð af Þorvaldi Lúðvík Sigurjónsssyni en hann hefur verið dæmdur í 18 mánaða fangelsisvist í héraði og hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. Fátítt mun að dæmdir menn skrifi varnargreinar í blöð, en Fréttablaðið birtir greinina auðvitað myndum skreytta. Þar talar Þorvaldur um „grímulausa misbeitingu ákæruvalds“ og gagnrýnir svo dómarann í máli sínu, og reynir að gera hann tortryggilegan. Sjálfur játar Þorvaldur aðeins að „hafa borist á öldum bjartsýni fyrir 2008“ en segist þó ekkert hafa gert rangt og „myndi breyta eins í sömu aðstæðum aftur“.*** Svo líkir hann máli sínu (og annarra bankstera) við mál hjúkrunarfræðingsins sem var dregin fyrir dómstóla vegna mannsláts á vaktinni hennar; Hafskipsmálið;**** og Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Það er auðvitað frekar magnað að sjá banksterunum líkt við hjúkrunarfræðinginn, eða þeim og ógæfuunglingunum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Lifðu ekki þessir bankamenn hátt, og voru á ofurlaunum vegna þess að þeir báru svo mikla ábyrgð? Í hverju átti sú ábyrgð að felast ef enginn þarf að sæta ábyrgð þegar bankakerfið reynist standa á slíkum brauðfótum að það hrynur?

Það má vera að fjárglæframönnunum þyki langt seilst til að finna eitthvað til að dæma þá fyrir. Jónas segir að það virðist enginn grunur sé um að „hinir ákærðu og dæmdu bankamenn hafi skotið undan fjármunum“, þeir séu dæmdir fyrir allt annað. Al Capone fékkst heldur aldrei dæmdur fyrir margvíslega glæpi sína og skipulögðu glæpastarfsemi. En hann endaði í fangelsi að lokum því það tókst að nappa hann fyrir skattsvik. Og sannarlega átti hann skilið að sitja inni. Eflaust vildu margir Íslendingar sjá helstu gerendur í útrás og bankastarfsemi dæmda fyrir ákkúrat og nákvæmlega það sem þeir gerðu (og skila skattaskjólspeningunum takk!) en ef umboðssvik koma þeim í fangelsi, þá er fínt að dæma þá fyrir umboðssvik.

Þessi greinaskrif Jónasar og Þorvaldar Lúðvíks hljóta að eiga að vera liður í þeirri herferð sem lengi hefur staðið, ekki síst á síðum Fréttablaðsins,***** þar sem borið er blak af auðmönnum og bankamönnum (eða þeir skrifa sjálfir fullir heilagrar reiði) og þeir sagðir ranglega ákærðir, illa með þá farið, og saklausir dæmdir. Rétt eins og á Mogganum eru auðjöfrar, bankamenn og meðreiðarsveinar þeirra, í óða önn að endurskrifa söguna þar sem þeir eru saklausir með öllu.

___
* Áslaug Karen Jóhannsdóttir skrifaði fína samantekt um Jónas og lágkúrugreinina og upplýsti lesendur um hver (frjálshyggju)maðurinn er.
„Jónas er nú framkvæmdastjóri Bókafélagsins, forlags í eigu Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, Kjartans Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, Ármanns Þorvaldssonar, fyrrverandi forstjóra dótturfélags Kaupþings í London, og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar háskólaprófessors. Forlagið hefur gefið út nokkrar bækur tengdar hruninu og eftirleik þess. Má þar meðal annars nefna Icesave - afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson, núverandi upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, og Andersen skjölin: Rannsóknir eða ofsóknir? eftir Eggert Skúlason, ritstjóra DV. Jónas er að auki framkvæmdastjóri Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt (RNH) sem berst fyrir markaðsfrelsi og gegn ríkisafskiptum. Hannes Hólmsteinn er forstöðumaður rannsókna og ritstjóri rita frá RNH.“

** Viðskiptavinir Kaupþingsbanka voru heldur ekki hrifnir af þeirri skipulögðu aðför að sparifé sínu sem átti sér stað rétt fyrir bankahrun þegar starfsmenn bankans hringdu í eldra fólk með þokkalegar innistæður (þetta var líka gert í Landsbankanum), og buðu því að kaupa hlut í bankanum. Þeir sem þáðu boðið töpuðu öllu fénu. En það má auðvitað ekki kenna blessuðum andskotans Kaupþingstoppunum um það.)

*** Stím-málið sem slíkt vakti ekki slíkan áhuga hjá mér að ég nennti að setja mig inní það. Veit því ekki hvernig Þorvaldur breytti eða hverjar aðstæðurnar voru.

**** Björgólfur Guðmundsson var dæmdur í Hafskipsmálinu og var upphafið að því að hann og sonur hans leituðu allra leiða til að endurheimta æru hans að nýju, og eignuðust m.a. í því skyni banka …

***** [Viðbót] Jón Trausti Reynisson skrifar áhugaverða grein um hagsmunaöfl og hvernig þau reyna að breyta skoðunum lesenda, og nefnir þar 365 miðla (Vísi, Fréttablaðið, Stöð 2) og Moggann sérstaklega.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, janúar 05, 2016

Fyrsti pistill ársins er jákvæður

Krakkarnir, sem krúttsvöruðu spurningum um flóttamenn og innflytjendur í stuttmynd Velferðarráðuneytisins og Innflytjendaráðs sem sýnd var í Kastljósi í kvöld, sýndu fordómaleysi, góðvild og samstöðu með þeim sem standa höllum fæti. Stuttmyndin ber titilinn „Við fæðumst fordómalaus - hvað svo?“, og það er nú meinið. Sjálfsagt vilja einhverjir rækta góðmennskuna úr börnunum en
en sem stendur eru þau gott fólk sem vill öðrum vel. Vonandi endist það þeim út ævina þrátt fyrir áróður þeirra sem gera lítið úr vanda flóttamanna, tortryggja þá, og vilja með öllum ráðum koma í veg fyrir að aðrir en hreinir aríar með jesúkross um hálsinn setjist hér að.

Á sunnudag (og næstu sunnudaga) sýndi Ríkissjónvarpið þáttinn Rætur þar sem fullorðnir innflytjendur og börn innflytjenda ræddu á prýðilegri íslensku um reynslu sína af að setjast hér að. Það var líka mjög jákvæður þáttur, ekki síst fyrir það hvað hann sýndi fjölbreytta flóru fólks sem hafði ólíkar ástæður fyrir að flytjast hingað. Ég fyrir mitt leyti fylltist bjartsýni og jákvæðni við að horfa á þessa ágætu landa mína. Og aftur í kvöld þegar ég horfði á Kastljós.

Ég trúi ekki öðru en Rætur og krakkarassgötin hljóti að mjaka fordómapúkum í átt að jákvæðara viðhorfi gagnvart fólki af erlendum uppruna.

Efnisorð: , , ,