laugardagur, janúar 16, 2016

Hálfur vegan

Árið byrjar ekki rólega. Nú þegar fyrsti mánuður þess er hálfnaður er rétt að renna yfir nokkur hitamál.

Skaup
Skaupið fór misjafnlega í fólk að vanda. Að mínu mati hefði það mátt vera pólitískara, mér finnst það skemmtilegra en upptalning á dýrum íþróttafatnaði. Það er ekki til siðs að pólitíkusar kveinki sér undan Skaupinu en þingmenn stjórnarflokkanna notuðu tækifærið þegar Barnaskaupið reyndist hafa verið með mun beittara háð en fullorðinsskaupið, og kvörtuðu undan áróðri. Grínið er auðvitað að biskupssonurinn með barnaskaupið er alinn upp við að eðlilegt sé að troða áróðri ofan í börn, og þá eru þingmennirnir sem kvörtuðu báðir úr flokkum þar viðhorf til kirkjuferða skólabarna er mjög jákvætt.

Hafnartorg
Svo mjög hafði verið rifist um miðaldra hafnargarð við Tryggvagötu að fæstir mundu eftir að þar átti að koma hús. Og þvílíkt hús! Þegar mynd af bákninu fyrirhugaða blöstu við kom í ljós að það átti að vera stærra en jafnvel ljóti svarti kassinn við Lækjartorg. (Það vill svo til að eftir að þessar myndir birtust kom auglýsing í blaði um að á 3ju hæð svarta kassans væri til leigu „skrifstofuhúsnæði á besta stað með einstöku útsýni“. Vonandi svarar einhver auglýsingunni áður en útsýnið hverfur.)

Við hinn enda Lækjargötu á líka að hrúga steypumagni sem virðist í sömu stærðarhlutföllum og báknið, afsakið „verslunarplássið“. Ætli arkitektunum finnist ekki þessar byggingar „kallast á“? Það er yfirleitt þannig sem þeir útskýra sín verstu verk, þegar þeir þá ekki segja að þau „stingi skemmtilega í stúf“ við umhverfi sitt. Hið síðarnefnda gerir það sannarlega (að undanskildum ljóta svarta kassanum).

Sif Sigmarsdóttir skrifaði slíkan snilldarpistil um þetta skipulagsslys í blaðið í dag að það er skylda að lesa hann.

Listamannlaun með meiru
Hinn árlegi héraðsbrestur, eða umræðan um úthlutun starfslauna listamanna, stendur sem hæst. Að þessu sinni hefur umræðan tekið óvænta stefnu og tengst vangaveltum um hugsanlega forsetaframbjóðendur. Erling Ólafsson orðar það þannig:
„Ætli forsetakosningar séu byrjaðar það mætti halda þegar maður sér skrif ofsaíhalds liðsins gegn hugsanlegum frambjóðanda sem er friðarsinni, umhverfissinni og félagslega þenkjandi. Það er allt gert til þess að hindra framgang hans. Nú er það níð um letingjann á ríkisjötunni sem þiggur milljónir af bláfátækri alþýðu.“
Það er ágætt að halda því til haga að 365 miðlar (þessir sem hafa Kristján Má Unnarsson á launaskrá, þennan sem mærir stóriðju í hverju orði) hafa birt myndir af rithöfundum sem fá starfslaun listamanna eins og um glæpamenn sé að ræða, og gera sem minnst úr framlagi hvers og eins til menningarsköpunar. Sá sem hefur verið orðaður við forsetaframboð fær sérstaka útreið. En auðvitað bara alveg óvart, eins og allt annað hjá 365 miðlum.

Forsetaframbjóðandi(?)
Í Fréttablaðinu hefur líka verið fjallað um hugsanlegt framboð Katrínar Jakobsdóttur. 365 miðlum er mjög í mun að hún bjóði sig fram því Katrín er stjórnarflokkunum mjög skæður andstæðingur sem flestir aðdáendur ríkisstjórnarinnar myndu gjarnan vilja losna við. Hyrfi Katrín af þingi tæki hún jafnframt með sér titillinn vinsælasti stjórnmálamaðurinn. Því yrðu margir í ríkisstjórnarflokkunum fegnir.

Það er eitthvað rotið
Danska ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp sem takmarkar möguleika fjölskyldna flóttamanna á að sameinast í Danmörku. Þá segir þar að gera megi upptæk verðmæti í fórum flóttamanna, þar af fé umfram tiltekna upphæð og skartgripi. Frumvarpið hefur breyst eftir harða gagnrýni; nú mega flóttamennirnir halda eftir giftingarhringnum og öðrum hlutum sem hafa tilfinningalegt gildi svo sem heiðursmerki og fjölskyldumyndir. Sem ekki mátti í upphaflegu frumvarpsdrögunum. (Það bætir ekki úr skák að Svisslendingar fara að nokkru leyti sömu leið og Danir og hirða fé af flóttamönnum.) Ef nasistarnir hefðu ekki hirt fé og skartgripi af gyðingum áður en þeir myrtu þá væri þetta kannski ekki eins æpandi augljósar ofsóknir. Aðallega er þetta samt ógeðslegt.

Afsakið orðbragðið, hér er fjallað um Icesave
Icesave skuldin er nú að fullu greidd. Skilst mér. Finnst samt endilega að áður hafi borist fréttir af því að Icesave málinu sé lokið. Halldór Baldursson teiknaði bestu skýringarmyndina við þetta ruglingslega mál.

Geðþekki álrisinn
Rio Tinto í Straumsvík hefur fryst laun starfsmanna sinna. Álrisinn hefur reynt að kúga þá til að samþykkja að verktakar taki við kjarasamningsbundnum störfum en þeir neitað og hefur kjaradeila þeirra staðið í meira en ár. Starfsmenn álversins eru að vonum sáróánægðir með þessar málalyktir og starfsandinn á vinnustaðnum ku vera skelfilegur.

Af þessu tilefni er skemmtilegt að rifja upp jákvæðar skoðanir Egils Helgasonar á álverum (og Kristjáni Má Unnarssyni).

Grænasta álið okkar í heiminum
Rétt fyrir áramót kærði Landvernd auglýsingar Norðuráls. Snorri Baldursson formaður Landverndar hefur nú skrifað grein þar sem hann hrekur rangfærslur álfélagsins. Niðurlagið hljóðar svo: „Það er fjarri sanni að „álið okkar“ sé einhver grænasti málmur í heimi. Það sem Snorri nefnir held ég ekki, er að með því að dúndra jákvæðum staðhæfingum á borð við „álið okkar“ og „grænasti málmur í heimi“ er verið að gera fólk jákvætt í garð álframleiðslu, alveg burtséð frá því að hægt sé að hrekja staðhæfingarnar. Rétt á meðan auglýsinguna ber fyrir augu eða eyru er hamrað á jákvæðum orðum, þar af leiðir að sá sem meðtekur auglýsinguna verður (eða á að verða) jákvæður í garð álframleiðslunnar. Það er gott að Landvernd lætur Norðurál ekki komast upp með þetta.

Íþyngjandi plássfrekja
Bóndi nokkur á Norðurlandi eystra hefur um nokkurra ára skeið komist upp með að hafa 100 kýr í fjósi sem hefur aðeins legubása fyrir 92 kýr. Honum mun þykja íþyngjandi þessar smámunasömu reglur um að kýr þurfi að leggjast og sofa. Svo heimtar hann bætur vegna tekjutaps vegna þess að hann þarf að fækka kúm svo þær passi í fjósið.

Veganúar
„Veganúar er áskorun til almennings um að prófa vegan lífsstíl í janúar og stuðla þannig með virkum hætti að dýravernd, umhverfisvernd og hættri heilsu. Veganismi er lífsstíll þar sem leitast er við að útiloka og forðast – eftir fremsta megni – hagnýtingu og ofbeldi gagnvart dýrum, hvort sem það á við um fæðu, fatnað, skemmtun eða aðra neyslu.“
Ég dáist að fólki sem er vegan, mér finnst það siðferðilega betra en við hin sem neytum dýraafurða (ég sé t.d. ekki fyrir mér að geta hætt að nota smjör). Vonandi prófa sem flestir að sleppa að borða dýraafurðir, þó ekki væri nema þennan mánuð, eða sleppa allavega kjötinu. Það væri strax spor í rétta átt.

Heima er best
Albönsku fjölskyldurnar sem nú eru orðnar íslenskar komu heim. Það var best.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,