fimmtudagur, desember 31, 2015

Árið 2015

Árið 2015 á Íslandi var ár kvennabyltinga af ýmsu tagi. Klámvæðingu kvenlíkamans var andæft, hversdagslegt kynjamisrætti var opinberað, konur skýrðu frá kynferðisofbeldi og hvernig þeim leið daginn eftir, og ræddu tíðablæðingar — án þess að skammast sín neitt.

Á árinu var skömminni einnig létt af geðsjúkdómum. Hinsvegar skammaðist allt almennilegt fólk sín (stundum kallað „góða fólkið“) þegar langveik börn voru flutt með lögregluvaldi úr landi. Þó voru – og eru því miður – margir sem hvorki vildu þessi börn og fjölskyldur þeirra né neina flóttamenn af neinu tagi til landsins. Það viðhorf bergmálar víða um heim: sendið þetta fólk eitthvað annað, við viljum þau ekki. Umræðan um hælisleitendur, flóttamenn og innflytjendur er endalaus. Um Evrópu streymir að því er virðist endalaus fjöldi fólks á flótta frá stríði og örbirgð. Hingað er hinsvegar endalaust flutt inn af bílum enda virðist góðæri vera aftur skollið á – og af því tilefni á að selja bankana — aftur. Herregud.

Stjórnarflokkarnir féllu enn í áliti á árinu. Hin þríhöfða Framsókn með SDG, ÓRG og Vigdísi Hauks sem talsmenn ýmissa vafasamra viðhorfa, útúrsnúninga og lygi, áttu stórleik á árinu – og landsmenn við það að tryllast .

Sjálfstæðisflokknum tekst ekki lengur að fela frjálshyggjustefnuna en Bjarni Ben, (sem er að fjársvelta heilbrigðiskerfið til þess að greiða fyrir einkavæðingu þess) þrætir enn fyrir að bótaþegum sé markvisst haldið í greipum fátæktar. Aldraðir lágu ekki á þeirri skoðun sinni að ríkisstjórnin væri að svíkja gefin loforð um kjarabætur. Þjóðkirkjan fékk afturámóti væna hækkun frá vinum sínum í ríkisstjórninni.

Annað umdeilt en að þessu sinni nokkuð jákvætt var kjör íþróttamanns ársins.

Eygló Ósk Gústafsdóttir sundkona var kjörin Íþróttamaður ársins, algjörlega verðskuldað en þó öllum að óvörum. Samtök íþróttamanna höfðu reyndar tilnefnt jafn marga einstaklinga af báðum kynjum, en líklega stíga þeir skrefið til fulls næsta ár (eins og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkuborgar og Fimleikasambandið hafa reyndar skorað á þá að gera) og velja bæði Íþróttakarl og Íþróttakonu ársins; þá þarf ekki að mismuna karlkyns atvinnumönnum í boltaíþróttum svona svakalega aftur. Þeir náðu sér reyndar á strik því kallaþjálfari í kallafótbolta var þjálfari ársins og kallaliðið í kallaknattspyrnu var valið lið ársins vegna þess að þeir eru að fara að keppa eitthvað á næsta ári. Það var tekið fram fyrir kvennalið Stjörnunnar í hópfimleikum þótt það hefði fengið Norðurlandameistaratitil á þessu ári.

(Eygló var ekki eina sundkonan sem var tilnefnd því Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona kom einnig til greina sem íþróttamaður ársins. Kristín Þorsteinsdóttir sundkona var hinsvegar ekki tilnefnd en þó setti hún tvö heimsmet og tíu Evrópumet á Evrópumeistaramóti fólks með Downs.)

Annað ársins

Erlend fréttamynd ársins: myndin af Aylan, 3ja ára sýrlenskum dreng, sem drukknaði við strendur Tyrklands.

Innlend fréttamynd ársins: myndin af Kevi, 3ja ára albönskum dreng, sem stendur með tuskudýrið sitt í gættinni á heimili sínu í Barmahlíð, á leið úr landi í lögreglufylgd um miðja nótt.

Útlenski fantur ársins: ungverska myndatökukvendið Petra Laszlo sem felldi og sparkaði í flóttamenn

Íslenski fantur ársins: Villi Vill sem sneri nauðgunarkærum á skjólstæðinga sína uppí kærur á konurnar sem höfðu kært þá.


Að árslokum tek ég undir með Sögu Garðarsdóttur:

„Ég held að ungar stúlkur í samfélaginu í dag séu maður ársins.“




Efnisorð: , , , , , , , , , , ,