þriðjudagur, janúar 05, 2016

Fyrsti pistill ársins er jákvæður

Krakkarnir, sem krúttsvöruðu spurningum um flóttamenn og innflytjendur í stuttmynd Velferðarráðuneytisins og Innflytjendaráðs sem sýnd var í Kastljósi í kvöld, sýndu fordómaleysi, góðvild og samstöðu með þeim sem standa höllum fæti. Stuttmyndin ber titilinn „Við fæðumst fordómalaus - hvað svo?“, og það er nú meinið. Sjálfsagt vilja einhverjir rækta góðmennskuna úr börnunum en
en sem stendur eru þau gott fólk sem vill öðrum vel. Vonandi endist það þeim út ævina þrátt fyrir áróður þeirra sem gera lítið úr vanda flóttamanna, tortryggja þá, og vilja með öllum ráðum koma í veg fyrir að aðrir en hreinir aríar með jesúkross um hálsinn setjist hér að.

Á sunnudag (og næstu sunnudaga) sýndi Ríkissjónvarpið þáttinn Rætur þar sem fullorðnir innflytjendur og börn innflytjenda ræddu á prýðilegri íslensku um reynslu sína af að setjast hér að. Það var líka mjög jákvæður þáttur, ekki síst fyrir það hvað hann sýndi fjölbreytta flóru fólks sem hafði ólíkar ástæður fyrir að flytjast hingað. Ég fyrir mitt leyti fylltist bjartsýni og jákvæðni við að horfa á þessa ágætu landa mína. Og aftur í kvöld þegar ég horfði á Kastljós.

Ég trúi ekki öðru en Rætur og krakkarassgötin hljóti að mjaka fordómapúkum í átt að jákvæðara viðhorfi gagnvart fólki af erlendum uppruna.

Efnisorð: , , ,