laugardagur, febrúar 26, 2011

Staðgöngumæðrun verður varla leyfð úr þessu

Miðað við hvað flestir málsmetandi aðilar hafa um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun að segja, þá má teljast ólíklegt að málið verði samþykkt á þingi. Það væri a.m.k.undarlegt að ganga gegn ráðum Alþýðusambands Íslands, Barnaheilla, Femínistafélags Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélags Íslands, Læknafélags Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Rauða krossi Íslands, Siðfræðistofnun HÍ, Umboðsmanni barna og Þjóðmálanefnd Þjóðkirkjunnar. Þar af segir í umsögn Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands að siðferðileg álitaefni séu óvenjulega flókin og margræð í þessu máli því þau snerti móðurhlutverkið, yfirráðarétt kvenna yfir líkömum sínum og viðkvæm tengsl foreldra og barna. Bent er á í umsögnum að erfitt hafi reynst að greina á milli staðgöngumæðrunar í hagnaðar- og velgjörðarskyni. Barnaheill telja að staðgöngumæðrun geti haft í för með sér að farið verði að líta á börn sem söluvöru, og sama geti gerst varðandi staðgöngumóður. Þannig geti skapast möguleiki á að kúga konur til að selja aðgang að líkama sínum á nýjan og enn alvarlegri máta en þekkst hefur. Siðfræðistofnun segir tilhneigingu hafa verið til markaðsvæðingar og Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að þetta leiði til þess að litið verði á börn sem söluvöru.

Umboðsmaður barna segir reyndar líka, eins og Barnaheill, að auðvelda eigi íslenskum barnlausum hjónum að ættleiða börn að utan.* Mér finnst það hljóma skynsamlega að því leytinu að um allan heim eru munaðarlaus börn sem nær væri að fengju heimili og ástríkt uppeldi en að fátækar konur séu látnar ganga með börn gegn gjaldi, eða jafnvel píndar til þess, til þess eins að uppfylla óskir annarra. En ég er ekki viss um að draga eigi úr þeim hindrunum sem eru í veginum fyrir því að ættleiða börn.

Án þess að ég gjörþekki hver skilyrðin séu fyrir að geta ættleitt barn frá fjarlægu landi** þá held ég að það séu oftar en ekki hindranir þeim megin, þ.e.a.s. í fæðingarlandi barnsins sem gera það að verkum að erfitt er að fá að ættleiða þaðan börn. Og það er gott. Því það eru ekki allir með það í huga að veita börnum ástríkt heimili, heldur ætla að selja þau áfram eða nota á einn eða annan hátt sem þræla. Margsinnis hefur komið í ljós þegar börn eru í reiðileysi eftir að hamfarir hafa dunið yfir, að það líður ekki á löngu þar til reynt er að smygla þeim úr landi í stað þess að leita að foreldrum þeirra eða gefa þeim tíma til að jafna sig á áfallinu. Slíkt er ekki með hagsmuni barnanna í huga.

Forstöðumaður Siðfræðistofnunar var í viðtalsþætti í sjónvarpinu nýlega til að tala um staðgöngumæðrun og var það viðtal við hana ágætt og augljóst að henni finnst hagsmunir barnanna vega mikið í þessu sambandi. Í þættinum var líka sýnt brot úr heimildarmyndinni „Google baby“ sem sjónvarpið hafði sýnt og fjallar um karlmann sem sér gróðaleið í því að vera milligöngumaður um staðgöngumæðrun og ferðast m.a. til Indlands í því skyni, það var ekki allt geðslegt sem þar kom fram. Í blaðinu í dag er frétt um barnasöluhring í sem teygði anga sína til nokkurra Asíulanda. Konurnar sem gerðust staðgöngumæður og eggjagjafar voru blekktar með loforði um miklar fjárhæðir, í sumum tilvikum lítur út fyrir að þeim hafi verið nauðgað.

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem er aðalhvatamaður þingsályktunartillögunnar segir í viðtali að hún viti til að nú þegar sé fólk að fara á svig með lög til þess að nota þjónustu staðgöngumæðra. Það ætti því, um leið og þingsályktunartillögu hennar er ýtt útaf borðinu, að herða lög svo hægt verði að koma í veg með það eins og kostur er. Sérstaklega þarf að girða fyrir þann möguleika að fólk geti látið fátækar konur í útlöndum ganga með börn fyrir sig. Með skýrum skilaboðum um að börn sem þannig eru getin fái ekki dvalarleyfi eða ríkisborgararétt á Íslandi, ætti a.m.k. að draga úr þeirri misnotkun á konum sem sumum virðist þykja svo sjálfsögð.

___
* Nánast allur texti þessarar bloggfærslu er tekinn úr Fréttablaðinu.

** Ekki þykir mér heldur ástæða til að hvetja íslenskar konur sem hyggjast fara í fóstureyðingu til að ganga með fóstrið fulla meðgöngu og gefa svo barnið eftir fæðingu. Ég ítreka það sem ég sagði í niðurlagi pistils um fóstureyðingar og ættleiðingar (sem lesa má hér): Konur eru ekki útungunarvélar. Ekki fyrir guð, eiginmanninn, móður sína (sem langar svo til að verða amma), ríkisstjórnina og lífeyrissjóðina (það vantar fleiri skattgreiðendur) eða ókunnugt barnlaust fólk útí bæ. Þær mega - og eiga að mega - eignast börn ef þær vilja og geta en vera lausar við þá kvöð sýnist þeim svo.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, febrúar 23, 2011

Sjáið hvað ég er góð!

Í litlum bæklingi sem ég las stendur þetta: „Í dag ætla ég að gera einhverjum gott án þess að nokkur viti; ef einhver kemst að því telst það ekki með.“

Góðverk eru jákvæð en þau ættu ekki að vera til þess eins að geta stært sig af þeim og stækka þannig í augum annarra.
Heilsíðuauglýsing frá skátunum vakti athygli mína á framtakinu Góðverkadagar 2011* en þar var einmitt verið að hvetja fólk til að gera góðverk. Markmiðið með verkefninu „Góðverk dagsins“ er að hvetja landsmenn til athafna og umhugsunar um að láta gott af sér leiða, sýna náungakærleik, vináttu, hjálpa öðrum og gera góðverk.
Og þetta er auðvitað bara jákvætt og jafnvel hægt að segja: Þótt fyrr hefði verið. Gallinn er bara sá að jafnframt er fólk hvatt il að skrá góðverk dagsins inn á heimasíðu átaksins og „láta þannig alla vita“ um hjálpsemi sína. Jafnframt eru vinnustaðir hvattir til að skrá sig til þátttöku og langur listi fyrirtækja sem tóku þátt í góðverkadögum í fyrra (sem fóru alveg fram hjá mér) er birtur á heimasíðunni auk þeirra sem nú hafa tilkynnt þátttöku. Slíkt hefur auðvitað heilmikið auglýsingagildi fyrir fyrirtækin — og mér sýnist starfsmenn þeirra vera duglegir að senda inn fregnir af góðverkum sínum í vinnunni og hve kúnnarnir hrósi þeim fyrir góða þjónustu. Slíkt er auðvitað liður í ímyndarsköpun fyrirtækja.

Til að toppa þetta allt saman eru samstarfsaðilar skátanna á þessum góðverkadögum Stöð 2, Bylgjan, Vísir og Fréttablaðið.* Hverjir eru aftur eigendur þessara fjölmiðla? Jú, Jón Ásgeir og Ingibjörg, þau hin sömu og eru hlutar af sjömenningaklíkunni, sem rændi Glitni innan frá — fyrsta bankann sem hrundi —  semsagt Jón Ásgeir er einn af stórum gerendum í því fjármálamisferli sem ég nenni ekki einu sinni að rekja alltsaman en sem átti stóran þátt í efnahagshruninu, þessu sem orsakaði kreppuna, muniði? Sért er nú hvert góðverkið!

Og nú eru þessir fjölmiðlar Jóns Ásgeirs semsagt mjög uppteknir af góðverkum. Eins og ekkert hafi í skorist.

En svo ég komi mér að efninu, þá finnst mér varhugavert að ýta undir þá hegðun að fólk geri aldrei neitt nema til að upphefja sjálft sig, hvað þá á almannavettvangi, í stað þess að líta svo á að góðverk hafi gildi í sjálfum sér. Ég skrifaði einhverntímann pistil um styrktarforeldra, þ.e.a.s. þegar fólk styrkir börn í útlöndum, því ég vil meina að margir geri það nánast eingöngu til að geta hreykt sér af góðmennsku sinni (og til að fá þakklæti barnanna í kaupbæti). Mér fannst þá og finnst enn að ekki eigi að ýta undir svona hegðun, enda þótt ég skilji vel þá viðleitni hjálparstofnana að hvetja fólk til að styrkja fátæk og munaðarlaus börn og nú hvatningu skátanna að fólk bæti hegðun sína gagnvart náunganum. Það ætti þó líka að hvetja fólk til að berja sér ekki á brjóst fyrir smáviðvik við náungann (eða fyrir að gauka einhverjum aurum að börnum í útlöndum) heldur benda því einnig á að sjálfumgleði dragi mjög úr vægi góðverksins.

Sumt fólk sem segir frá góðverkum sínum á síðu skátanna skrifar án þess að birta nafn sitt. Það er þó skömminni skárra.

___
* Jú, Reykjavíkurborg er líka samstarfsaðili og Skýrr (hver á það?) en það skiptir minna máli hér.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, febrúar 22, 2011

Sumir öðlingar en aðrir eiginhagsmunaseggir

Það hefur verið mjög mikilvægur þáttur í baráttu kvenna, þeldökkra og samkynhneigðra fyrir jafnrétti að fólk sem tilheyrir ekki þeirra hópi sýni stuðning sinn í ræðu eða riti (og ekki síst með löggjöf). Það er alltof auðvelt að segja að hommar og lesbíur séu hávær hópur fárra og að þeldökkir séu fáfróðir og konur séu bara nöldrandi og enginn þurfi að taka mark á þeim — eða hvað það nú er sem fólk segir til að reyna að þagga niður í þessum hópum sem vilja bara sjálfsögð mannréttindi. Þessvegna skiptir máli að gagnkynhneigt fólk tali máli samkynhneigðra, hvítt fólk máli þeldökkra og karlar máli kvenna. Þó ber ekki að skilja það svo að mér finnist í lagi að hvítt fólk þykist hafa betra vit á málefnum þeldökkra en þau sjálf eða eigi að stilla sér upp í broddi fylkingar, gagnkynhneigt fólk láti sem það séu hinir einu sönnu málsvarar samkynhneigðra né að karlar tali betur fyrir jafnrétti eða eigi að vera í forsvari kvennabaráttu.

Þessvegna voru tilfinningar mínar blendnar þegar átakið Öðlingurinn 2011 var kynnt til sögunnar. Hugmyndin er runnin undan rifjum Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, sem ég þreytist seint á að hrósa, og fór þannig fram að í Fréttablaðinu og á Vísi birtust greinar eftir karlmenn um jafnréttismál dag hvern milli bóndadags og konudags, að báðum dögum meðtöldum. Ég áttaði mig reyndar ekki strax á því að ekki birtust allar greinarnar í Fréttablaðinu og mundi þaraðauki ekki alltaf eftir að fletta þeim upp á Vísi þannig að þegar átakinu lauk átti ég eftir að lesa nokkrar greinanna á Vísi. Það er skemmst frá því að segja að þær voru afar misjafnar. Sumar forvondar meira að segja. Ég veit ekki hvað réði vali á þátttakendum en sumir þeirra virtust illa skilja hvað átakið gekk útá. Það er reyndar talsverður galli hve misjafnan skilning fólk leggur í hugtakið jafnrétti.

Jafnrétti í sinni víðustu mynd nær yfir jafnrétti allra í samfélaginu en þó aðallega að sem barátta fyrir þá hópa sem hafa staðið höllum fæti af einhverjum orsökum og ekki verið metnir til jafns við hina hvítu gagnkynhneigðu miðaldra ófötluðu karlmenn sem eru þeir sem eiga alltstaðar auðveldast uppdráttar og njóta mestrar virðingar. Þannig er talað um jafnrétti fyrir konur, fatlaða, aldraða, samkynhneigða, þeldökka o.s.frv. Og auðvitað ber að stefna að því að allir þessir hópar hafi jafnan rétt og njóti sömu virðingar og fyrrgreindir karlmenn. En átakið Öðlingurinn átti samtsemáður ekki að snúast um alla þessa hópa, heldur jafnrétti kynjanna, í merkingunni baráttumál feminista. Samtsemáður létu sumir karlmannanna það eftir sér að tala um:

— að konur beiti karla ofbeldi og var gefið til kynna að þá þyki konum vera komið einhvers konar ofbeldisjafnvægi
— gjald karlmennskunnar, þ.e. að karlar leiti sér ekki hjálpar og fremji oftar sjálfsmorð
— „jafna foreldraábyrgð“ en með því eru þeir ekki að meina verkaskiptingu á heimili og við uppeldi barna meðan á sambúð stendur heldur á hin jafna foreldraábyrgð bara við eftir skilnað.*

Einhverstaðar fá þessir pistlahöfundar eflaust klapp á bakið fyrir að nota tækifærið til að skrifa um þetta í stað þess að vera að einhverju feministakjaftæði, en í mínum huga urðu þeir ekki miklir öðlingar fyrir vikið. Þeir eiga mun betur skilið titilinn Eiginhagsmunaseggurinn 2011, sem er reyndar yfirskrift leiðara Fréttablaðsins, þar sem Ólafur Þ. Stephensen fjallar um átakið og er greinilega talsvert jákvæðari á það en ég.

Þó get ég sagt að nokkrir Öðlings-pistlanna voru fyrirtak og vil ég nefna nokkra og set á þá tengil svo fólk geti lesið sjálft, því þeir eru hver um sig of langir til að planta í bloggfærslur hér, þó ég geti ekki svarið fyrir að ég muni birta einhverja þeirra síðar.

Öðlingarnir:

Andri Snær Magnason skrifaði um kvenfjandsamleg viðhorf drengja til kvenna og klámvæðinguna. Hann segir m.a.: „Það má velta fyrir sér hvort ekki sé þörf á miklu öfgafyllri femínistum ef almennilegt samfélag á að bíða þeirra sem hér alast upp. Getur verið að fyrri kynslóðir hafi ekki farið til helvítis vegna þess að foreldrum þeirra stóð ekki á sama? Er eitthvað að því þótt yngra fólkið þurfi að rökstyðja viðhorf sín og lífsgildi? Upp úr rökræðunni kemur þá einhver hugsun og samskipti, jafnvel einhver niðurstaða. Einhverjar mömmur þarna úti eru kannski of uppteknar við að raka á sér pjölluna til að halda í við netnotkun eiginmannsins. Einhverjir pabbar þarna úti hafa eytt fullmiklu púðri í að hafa áhyggjur af ,,öfgafullu" jafnrétti í stað þess að huga að því hvernig samfélag bíður barna þeirra. Það er hellingur af klárum og efnilegum krökkum þarna úti. Það er mikilvægt að hafa áhyggjur af þeim.“

Árni Beinteinn Árnason er 16 ára og þekkir því hvernig unglingar hugsa. „Þeirri hugmynd er snemma komið inn hjá strákum að karlmennirnir eigi að ráða. Það er ekki okkur að kenna. Þá hugmynd má rekja til kvikmynda, fjölmiðla, bókmennta og allrar umræðu. …Ég þarf að uppfylla staðalútlitskröfur og vera með í umræðunni í mínum samfélagshópi.
Allir aðrir eru í sömu sporum og ég og þess vegna þarf að sýna okkur umburðarlyndi og fullorðið fólk þarf að setja sig í okkar spor.“ Þörf áminning og vonandi er hann á réttri braut þrátt fyrir meinta aðdáun á slúðurstjörnum samtímans.

Guðmundur Andri Thorsson skrifar um karlmenn sem nauðga. Hann segir: „Það er verkefni okkar karla að minna unga menn á - og muna sjálfir - að konur eru ekki skrokkar til að veita karlinum unað heldur einstaklingar með sín réttindi, sínar tilfinningar, sínar þrár, sína sögu, sína fjölskyldu - sitt líf. Nógir eru hinir sem reyna að sannfæra okkur og strákana okkar um hitt: að konur skuli vera réttlausar, andlitslausar, sögulausar, fótumtroðnar; að það megi hata konur og niðurlægja þær. Það er verkefni okkar að minna unga karlmenn á að valdbeiting veitir engum unað, en eyðileggur allt. Að styrkur sé ekki dyggð í sjálfu sér, að sá sem noti líkamsstyrk og lömunarafl skyndiárásarinnar - eða notfærir sér rænuleysi - til að þröngva sér inn á aðra manneskju geri slíkt ekki af karlmennsku heldur af skorti á karlmennsku.“

Illugi Jökulsson skrifar um Rauðsokkuhreyfinguna (og fær rokkprik fyrir það) og kvenréttindi sem hann honum hafa fundist sjálfsögð alla tíð. Talar mjög gegn notkun orðsins „maður“ þegar átt er við karlmenn. „Og enn heyrir maður þetta vefjast fyrir fólki, og afleiðingin er þá sú að fólk sem talar um "menn" þegar það á við "karlmenn" á við - undir niðri - að karlmenn séu hinir einu sönnu fulltrúar mannkynsins.““

Jens Fjalar Skaptason minnist á ýmis konar ofbeldi og launamun, og klikkir út með: „Daginn sem kona hefur nákvæmlega sama aðgengi og karlmenn að valdastöðum í sínu landi er raunverulegur sigur. Daginn sem engin kona þarf að þola kynbundið ofbeldi er raunverulegur sigur.“

Óttar Norðfjörð skrifar um heimilisofbeldi. Hann hvetur karlmenn til að þagga niður í karlrembum, tala gegn misrétti og spyrja ef grunur leikur á að vinur þeirra sé að beita ofbeldi.

Paul Nikolov skrifar um stöðu kvenna af erlendum uppruna sem verða fyrir ofbeldi af hálfu maka og einangrun þeirra í samfélaginu.

Sigurður Magnússon bendir á að ábyrgð á heimilisstörfum og líðan stórfjölskyldunnar er enn á herðum kvenna, hann skrifar líka um misrétti á vinnustöðum og í stjórnsýslunni.

Stefán Ingi Stefánsson skrifar að það þurfi að fræða karlmenn um kynferðisofbeldi og „ gefa þau skilaboð að kynferðisofbeldi verði ekki liðið“.

Aðrir voru ágætir en ofantaldir bestir.** Segið svo að ég láti karlmenn sem styðja kvenréttindi ekki njóta sannmælis!

___
*Það væri stuð ef karlmenn hefðu jafn mikinn áhuga á börnum sínum meðan þeir búa með barnsmæðrum sínum og eftir að sambúð lýkur, og sæu ekki eftir hverri krónu sem fer í uppeldi barna sinna. Sá sem skrifaði pistilinn og þóttist mikill öðlingur var farinn að tala um peninga í sjöttu málsgrein, en það er einkenni karlmanna í forræðis- og umgengnisdeilum að sjá eftir hverri krónu sem fer í uppeldi barna sinna.
** Þaraf höfðu Andri Snær og Guðmundur Andri reyndar talsvert forskot vegna rithæfileika sinna — þeir skrifa þannig um þetta efni að ég hreifst strax með — en allir hinir voru fínir líka.

Efnisorð: , , , , ,

sunnudagur, febrúar 20, 2011

Ballið á Bessastöðum

Um leið og samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins voru samþykktir á þingi á miðvikudaginn byrjaði óvissan um hvort forseti Íslands myndi samþykkja lögin eða láta undan þrýstingi þeirra sem hafa þá skoðun eina að ekkert beri að borga, ekki krónu, aldrei.

Síðan þá hefur verið nákvæmlega sama spennan og þegar forsetinn sat síðast í þungum þönkum á Bessastöðum. Og bið okkar hinna hefur verið óþægileg, sama hvaða niðurstöðu við óskum eftir.

Þessvegna las ég Ballið á Bessastöðum nú í vikunni. Þetta er barnabók eftir Gerði Kristnýju, sem fyrr í mánuðinum fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þau verðlaun fékk hún reyndar fyrir ljóðabók sem kom út í fyrra, en Ballið á Bessastöðum kom út hið margumrædda ár 2007. Núverandi forseti Íslands kemur ekki við sögu (nema einhver þykist kannski þekkja hann á mynd, en Halldór Baldursson myndskreytir bókina) og engar vísanir til pólitíkur er að finna í bókinni. Án þess að ég ætli að leggjast í einhverja bókagagnrýni eða stjörnugjöf þá get ég sagt að bókin er bráðfyndin og létti geð mitt mjög.

Í fyrra, meðan ég beið eftir að forsetinn skrifaði undir Icesave samningana, og fyrst á eftir að hann lét vita um þá ákvörðun sína að gera það ekki, lá ég í gömlum sjónvarpsþáttum sem minntu mig á betri og áhyggjulausari tíma. Til sama bragðs tók ég eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar varð ljós, enda var ég í mikilli þörf fyrir að flýja veruleikann.

Meðan á búsáhaldabyltingunni stóð greip ég líka til afþreyingarefnis af léttara taginu og þá, eins og núna, las ég barnabækur. Í þeim mátti lesa um skemmtilegar uppákomur og pínu pínulítil vandamál sem leyst voru yfir brauðsneiðum með sultu.

Nú stendur það uppá forsetann að ákveða hvernig bækur og sjónvarpsefni ég vel mér næstu vikurnar og jafnvel mánuðina. Enda þótt barnabækur séu bráðskemmtileg flóttaleið, rétt eins og gamlir sjónvarpsþættir, þá vildi ég gjarnan að andlegt ástand mitt væri þannig að ég réði við flóknara efni, jafnvel að horfast í augu við raunveruleikann í stað þess að forðast hann.

Eftir nokkra klukkutíma kemur í ljós hvort spennunni verður af mér létt eða hvort hún verður viðvarandi. Ég ætla ekki að vera heima. Þegar ég kem heim aftur býst ég við að ég viti leslista næstu vikna.

___
Viðbót, síðar sama dag:
Mér er allri lokið.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, febrúar 17, 2011

Týndu stelpurnar, karlmennirnir sem níðast á þeim og fjölmiðlarnir sem selja söguna

Ég hef nokkrum sinnum keypt DV eftir að það komst í hendur nýrra eigenda, en aðallega skoðað það á netinu.* Án þess að ég hafi verið reglulegur lesandi, hef meira svona fylgst með úr fjarlægð, þá sýnist mér blaðið vera mjög svipað og það var áður, þ.e. þegar það var gagnrýnt fyrir að velta sér uppúr persónulegum harmleikjum milli þess sem það kom með skúbb um hin og þessi mál í þjóðlífinu, stundum um eitthvað sem skiptir máli og er þakkarvert.

Mál sem DV hefur verið að fjalla um undanfarið og sem margir gætu haldið að flokkaðist undir persónulegu harmleikina en er í rauninni afhjúpun á alvarlegri samfélagslegri meinsemd, er þetta með stelpurnar sem lýst er eftir í fjölmiðlum, yfirleitt eftir að hafa strokið af meðferðarstofnunum, og finnast svo hjá karlmönnum sem hafa dundað sér við að gefa þeim vímuefni og misnota þær kynferðislega.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, ritstjóri Smugunnar, skrifar um þetta í dag, og setur málið í mikilvægt samhengi:
„Það birtast stundum af þeim myndir í blöðum, Lögreglan lýsir eftir þeim og lætur fylgja staðlaðar lýsingar á klæðnaði og útliti og hvenær nánustu aðstandendur sáu þær síðast. Stundum koma slíkar tilkynningar oft í viku. Einn unglingur líkist öðrum, kinnfiskasoginn, með aflitað hár, húfu eða hring í nefinu, sást síðast mörgum dögum, jafnvel vikum áður en tilkynningin birtist. Þær renna saman í eitt þessar tilkynnningar, maður hættir að taka eftir þeim. Þetta eru íslensku götubörnin, sem ferðast um milli götunnar og áfangastaða inni í kerfinu, loksins, ef einhverja hjálp er að fá er það oft of lítið og of seint.

En hvar eru þessi börn þegar þau stinga af? Hvar halda þau til?

Stelpurnar halda til hjá körlum sem lifa með þeim kynlífi. Stundum er um að ræða undirmálsmenn úr heimi fíkniefnanna, þá sem selja efnin, rukka fíkniefnaskuldirnar, þeir slá um sig með peningum og slá sér upp með smástelpum þar sem aflsmunurinn er svo mikill, að jafnvel örlitlir karlar virka stórir. Stundum er um að ræða það sem við köllum ,,venjulega,“ fjölskyldufeður eins og í nýlegu dómsmáli þar sem hálffertugur maður á Selfossi var dæmdur fyrir að misnota og misbjóða barnungri stúlku sem hann hafði tælt til að strjúka af meðferðarheimili.

DV hefur að undanförnu fjallað um týndu stelpurnar og gert það vel.

,,Þær vilja þetta sjálfar,“ segja ofbeldismennirnir og verja þannig hendur sínar eftir að hafa níðst á veikum og ógæfusömum börnum. Og ofbeldið bergmálar innan úr kerfinu, þannig segir yfirmaður kynferðisbrotadeildar um kynferðisbrot í viðtali: ,, Oftar en ekki eru þessi mál tengd mikilli áfengisnotkun og ekki á ábyrgð neins nema viðkomandi sem er útsettur fyrir því að lenda í einhverjum vandræðum. Það er erfitt hvað það er algengt að fólk bendir alltaf á einhverja aðra og reynir að koma ábyrgðina yfir á þá.“

Og ríkissaksóknarinn segir: ,,Ef þú frýst verður gerandinn samt að vita að þú stirðnar vegna þess að þú vilt þetta ekki. Einhvern veginn verður hann samt að vita að hann er að brjóta á annarri manneskju.“

Og hæstaréttardómarinn kvartar yfir því að sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum fari minnkandi þótt aðeins örlítið brot kærumála endi með dómi.

Og Jón Stóri, á sautján ára kærustu sem var í meðferð á Stuðlum. ,,Ég talaði við lögfræðinginn minn, hann segir, ekkert að þessu og ekki hægt að gera skít eins lengi og hún vill þetta,“ segir hann.

Samhliða þessu sér maður svo viðtöl við mæður stelpnanna sem lýst er eftir öðru hvoru í blöðunum. Þar glittir í vonleysi, örvæntingu, sjálfsásakanir, eyðilagt heimilislíf, svefnlausar nætur. Margar þeirra segja að það sé verra en að missa barnið sitt í dauðann, að horfa á það deyja sjálfu sér og öðrum, smám saman, ráfandi um eins og afturgöngu, uppdópað, misnotað og smáð.

Sorg þeirra er enn eitt sjúkdómseinkenni samfélags sem neitar að taka ábyrgð á þeim sem eru veikir og þurfa hjálp, en stendur glaðlega vörð um frelsi þeirra sem vilja notfæra sér veikleikana til að svala sínum lægstu hvötum.“

Það er einmitt þessi punktur hjá Þóru Kristínu sem mér finnst mikilvægur (auk þess sem það er vel til fundið hjá henni að skoða ummæli löggunnar, ríkissaksóknara og hæstaréttardómarans í þessu samhengi). Semsagt sá, að það virðist sem þessir karlmenn komist endalaust upp með þetta. Stelpugreyin þora ýmist ekki eða vilja ekki kæra (sérstaklega ekki þær sem telja sig vera ástfangnar af þessum mönnum og sjá í þeim verndara en ekki níðinga) og þá er bara ekkert gert. Það er í mesta lagi hægt að sækja þær til þeirra. Það er ekkert verið að þvælast með forvirkar rannsóknarheimildir; þ.e. fylgjast með mönnum sem vitað er að stundi að sigta út ungar stelpur með þessum hætti** og grípa í taumana um leið og stelpurnar stíga innfyrir þröskuldinn hjá þeim eða setja annan fótinn uppí bíl til þeirra. Nei, það er beðið eftir að fá öruggar heimildir fyrir að þessi og þessi stelpa sé búin að vera dögum saman í klónum á kvikindinu áður en hún er sótt. Og þá er allt um seinan.

Ég hef ekki lausn á því hvað á að gera fyrir þessar stelpur sem nú þegar hafa lent í þessum aðstæðum eða þær sem eru eða eiga eftir að verða sendar í einhverskonar meðferð gegn vilja sínum þar sem líklegt má telja að þær reyni að strjúka. Nema það eigi að taka upp vistheimili fyrir afvegaleiddar stúlkur, eins og þekktust hér áður fyrr þegar Breiðavík þótti góður staður fyrir unga stráka.

Nær væri að einbeita sér að karlmönnunum sem níðast á stelpunum og stuðningsnetinu kringum þá og hvatningunni sem þeir fá. Fjölmiðlar, og þá ekki síst DV, eru nefnilega fullir af „kynþokkafullum“ myndum af ungum stelpum og sífellt verið að segja fólki að allar stelpur vilji vera til sýnis, séu til sölu og alltaf til í tuskið. Þá er ég ekki einusinni farin að tala um klámviðbjóðinn sem flæðir um netið og aldrei virðist vera neinn vilji til að stoppa (karlmenn eru ákærðir fyrir að hafa barnaklám í fórum sínum en ekki ef klámið snýst um konur yfir 18 ára). Þessi endalausa klámdýrkun einstaklinga og fjölmiðla, og karlmennirnir sem lifa og hrærast í henni, er sannarlega ekki til að bæta stöðu þeirra stelpna sem eru grunlausar um hugsunarhátt karlmannanna sem þær leita skjóls hjá.***

Þessir karlmenn sem sumir eru, eins og Þóra Kristín bendir á, úr ýmsum lögum samfélagsins, eiga vini sem vita um þessar stelpur og hvað er gert við þær. Þeir ýmist segja ekkert eða hvetja þá áfram — og sumir þeirra eru duglegir við að skrifa athugasemdir við greinaflokkinn hjá DV þar sem þeir kenna stelpunum um hvernig komið er fyrir þeim (með misjafnlega geðslegu orðbragði) og bera blak af karlmönnunum sem nota þær á þennan hátt.

Það er reyndar afar ljótur siður hjá DV að hafa athugasemdakerfið opið þegar fjallað er um svona viðkvæm mál, því athugasemdirnar verða oft verulega viðbjóðslegar. Það að eitt viðtal úr blaðinu er bútað niður í marga búta á vefsíðunni virðist jafnvel vera gert eingöngu til að fá sem flestar athugasemdir, því það flokkast jú allt undir aukna umferð og þ.a.l. meiri auglýsingatekjur.

Fyrir nokkru var fjallað um konu sem hafði verið nauðgað af eiginmanni sínum og þurfti í kjölfarið að flýja heimabæ sinn. Henni bárust hótanir frá fjölskyldu mannsins í kjölfarið — og samt hafði DV opið fyrir athugasemdir við umfjöllunina, þar sem svo svívirðingarnar gengu yfir konuna. Í frétt sem birtist á DV um það allt saman segir þetta:
„Í kjölfarið reis fólk upp og lét fjölda ærumeiðandi athugasemda falla um konuna, sem var sögð siðblind, geðveik og annað þaðan af verra. Því var ítrekað haldið fram að nauðgunarkæran hefði verið bragð konunnar í forræðisdeilu þeirra. Allir sem tóku þátt í rógburðinum komu fram undir nafni og mynd en enginn greindi frá tengslum sínum við gerandann. Við nánari eftirgrennslan kom á daginn að fjölmargir tengdust gerandanum fjölskyldu- eða vinaböndum. Aðrir voru frá hans heimaslóðum en ekki er vitað hvort allir sem tjáði sig tengdust honum með einum eða öðrum hætti. Sumir settu fram athugasemd oftar en einu sinni og mörg ummælin eru þess eðlis að þau eru ekki prenthæf. Öllum athugasemdum hefur verið eytt út af netinu.“
En þó DV hafi eytt öllum athugasemdum við þetta tiltekna mál, þá er áfram að hafa opið fyrir athugasemdir í svipuðum málum, og sannarlega eru mál týndu stelpnanna svipuð enda snúast þau um kynferðislega misnotkun og stundum nauðgun. Þetta er eitt af því sem gerir það að verkum að það er aldrei hægt að líta á DV sem annað en sorasnepil.

___
* Það hefur alltaf hist þannig á að ætli ég að lesa ákveðna grein í blaðinu, sem hefur verið auglýst upp á vefsíðu DV, þá hef ég ekki hitt á rétta dagsetningu og því yfirleitt lent í að kaupa blaðið áður en greinin birtist. Mér er fyrirmunað að skilja ástæðuna en hef látið mér það að kenningu verða og er hætt að kaupa blaðið.
** Þeir karlmenn sem sitja fyrir stelpum og konum sem koma úr meðferð (eða skrá sig inní meðferð til að kynnast þeim þar) til að nota þær til að svala ógeðinu í sér á þeim, þeir einbeita sér ekkert bara að stelpum undir lögaldri, þó þær séu umfjöllunarefni DV þessa dagana. Þeir sækja líka í ungar konur (og örugglega konur á öllum aldri) og veit ég um sorgarsögu sem ekki hljómar betur en þær sem DV teflir fram og endaði mjög illa.
*** Við hin eigum ekki að líta bara svo á að þetta er vont en það venst. Við eigum aldrei að venjast klámhugsuninni, aldrei að venjast því að karlmenn komi svona fram við ungar stelpur og konur yfir 18 ára aldri. Og við eigum ekki að sætta okkur við að fjölmiðlar græði á öllu saman. Við eigum að finna leiðir til að stoppa þetta.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, febrúar 13, 2011

Tillitssemi

Ég hef lengi furðað mig á því að þegar einhver vill draga úr notkun ljótra orða og óviðeigandi orðalagi þá er kvartað undan „pólitískum rétttrúnaði“.* Íslendingar fundu reyndar ekki upp hugtakið „pólitískur rétttrúnaður“ heldur er það þýðing úr ensku (political correctness). Í Bandaríkjunum er því veifað við mörg tækifæri og alltaf sem einhverju neikvæðu, það er semsagt notað af þeim sem finnst fáránlegt að draga úr notkun ljótra orða eða líta svo á að orðalag geti verið óviðeigandi. Þannig finnst sumum Bandaríkjamönnum algerlega óþarft að hætta að nota n-orðin svokölluðu (negro, nigger) og líta á það sem pólitíska rétthugsun að segja „litað fólk“ eða „Bandaríkjamenn af afrískum uppruna“ (e. colored, African-Americans). Flestir hafa þó sætt sig við að n-orðin séu algerlega ótæk, vilji samfélagið á annað borð líta svo á að þeldökkir eigi sama rétt og aðrir.** Mannréttindabarátta sjöunda áratugarins, þar sem þeldökkir, konur og samkynhneigðir kröfðust virðingar og réttinda, á auðvitað sinn þátt í því að sum orð þykja nú ekki lengur við hæfi, enda þótt þau hafi verið óspart notuð áður.

Hér á landi hafa konur og samkynhneigðir barist fyrir sjálfsögðum mannréttindum og fengið flest baráttumála sinna samþykkt, a.m.k. samkvæmt lögum.*** Það er þó langt í land að þessir hópar njóti virðingar eða sanngirni á mörgum sviðum, og þá ekki síst í almennri umræðu. Um konur og samkynhneigða, þá sérstaklega homma, eru látin falla mörg ljót orð. (Sama má segja um fatlaða og aðra öryrkja). Sé reynt að sussa niður í þeim orðljótustu, æpa þeir að þeir þoli ekki pólitíska rétthugsun. Fæst af fólkinu sem notar þetta hugtak hefur nokkra hugmynd um hvað það þýðir.

Hugtakið sjálft gefur til kynna að einhverskonar pólitík liggi að baki, og fólk klínir ásökun um pólitíska rétthugsun einmitt helst uppá fólk sem það heldur að sé ósammála sér í pólitík, þ.e. kjósi annan flokk en það sjálft. Íslenska þýðingin á „correctness“ er skv. orðabók: í „samræmi við reglur, staðreyndir, siðvenjur“ sem er talsvert frábrugðið orðinu „rétthugsun“. Þeir sem heyra „rétthugsun“ virðast halda að þarna sé einhverskonar heilaþvottur á ferð. Það er þó ekki svo.

Það sem fólk, sem vill draga úr notkun ljótra orða og óviðeigandi orðalags vill, er einfaldlega að taka tillit til þeirra sem gætu heyrt eða lesið þessi orð. Orð geta sært. Sú sem er með litarhátt sem ekki er hinn viðurkenndi næpuhvíti eða er samkynhneigð, eða hefur einhverskonar reynslu sem erfitt er að höfð sé í flimtingum, hún á samtsemáður rétt á því að geta fylgst með fréttamiðlum og vefsíðum, eða gengið um göturnar án þess að eiga sífellt á hættu að lesa og heyra verstu uppnefni og níð sem hægt er að finna um nokkra manneskju eða þann hóp sem hún tilheyrir. Það er furðulegt að líta neikvæðum augum á það fólk sem hvetur til tillitssemi.

Takið nú hugtakið „pólitísk rétthugsun“ útúr orðaforðanum og prófið að setja „tillitssemi“ í staðinn,**** og spáið í hvort það myndi einhver láta útúr sér athugasemd á borð við „á nú að drepa niður alla umræðu með kröfum um tillitssemi?“ Jú, reyndar er til fólk sem finnst öll tillitssemi óþörf (líklega sama fólk sem beinlínis gengur í skrokk á öðrum) en öllu venjulegu fólki þykir tillitssemi að minnsta kosti að einhverju leyti mikilvæg, gott ef ekki nauðsynleg, í samskiptum manna á milli og í samfélaginu almennt.

Tillitssemi er jákvæð. Ekki berjast á móti henni. Þú veist aldrei hvenær umræðan fer að snúast um þig.

____
* Það er líka talað um forræðishyggju við svipað tilefni en hér vil ég aðallega skoða orðalagið „pólitískur rétttrúnaður“.
** Fyrir nokkrum árum var bókin Negrastrákar endurútgefin hér á landi (líka kölluð Tíu litlir negrastrákar) og þegar bent var á hið skelfilega viðhorf til þeldökkra sem þar mátti sjá, þá fannst sumum sem það væri barasta alltílagi, enda þótt þeim væri bent á að á Íslandi búa mörg börn sem gætu tekið það nærri sér, svo ekki sé nú talað um hin, þessi hvítu, sem þarna lærðu að fyrirlíta börn með annað útlit en þau sjálf.
*** Fatlaðir hafa ekki náð alveg eins langt, standa kjaramál þeirra í vegi fyrir því að hægt sé að segja að þeir séu jafnréttháir öðrum í samfélaginu. Sama má segja um aldraða, en umræðan um þá er sjaldnast mjög ljót þau þeir njóti sannarlega ekki þeirrar virðingar sem þeir eiga skilið.
**** Ég velti fyrir mér að nota „nærgætni“ í stað tillitssemi, en komst að þeirri niðurstöðu að það orð skilja ekki allir og auk þess eru líklega alltof margir sem eru svo uppteknir af því að líta bara sjálfum sér allra næst og passa uppá eigin hagsmuni, að þeir myndu halda að ég væri að hvetja til þess. (Sé það nú þegar ekki ljóst, þá er þessi bloggfærsla m.a. skrifuð í þeirri von að einhver lendi hér eftir að hafa gúgglað pólitískri rétthugsun.) Ég hefði líka getað notað orðatiltækið „aðgát skal höfð í nærveru sálar“ en það er eins og kunnugt er úr ljóði eftir Einar Benediktsson, og má lesa það erindi í bloggfærslu minni sem fjallaði einmitt líka um hina svokölluðu pólitísku rétthugsun. Önnur bloggfærsla sem ég skrifaði um hvernig fólk talar andstyggilega um aðra bar yfirskriftina Miskunnarleysi.

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, febrúar 11, 2011

Metfé

Það er hollt og gott fyrir kjósendur að fá innsýn í hugarfylgsni Sjálfstæðismanna. Yfirleitt jarma allir þessir sauðir eins en af og til ætla einstaklingar innan flokksins, þungavigtarmenn, að gera sig gildandi og jafnvel vera fyndnir í leiðinni. Það er þá sem þeir koma upp um sig. Ekki það, fjöldi fólks hefur fyrir löngu séð hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hegðar sér og hver markmið hans eru og áttar sig alveg á hvernig Sjálfstæðismenn hugsa, en það er bara svo sætt þegar þeir segja það okkur sjálfir.

Gullkorn úr munni Sjálfstæðismanna:

Besti vinur aðal var líklega fyrstur til, af þeim sem eru í innsta hring, að afhjúpa hugsanagang stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins: „í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt. Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin.“

Við þetta rímar vitnisburður Styrmis Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd alþingis: „Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Talandi um tækifærismennsku, Þorgerður Katrín, þá varaformaður flokksins, sagði í miðju bankahruninu að það væru „spennandi tímar framundan fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“

Þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom svo út sagði Ólöf Nordal að „Þessi rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið.“

Og svo núna síðast sagði Ólöf Nordal um stefnubreytingu Bjarna Ben í Icesave málinu: „Formaður flokksins stígur það skref, sem er mjög óvenjulegt, tel ég, fyrir foringja í stjórnarandstöðu, að standa bara nákvæmlega með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina.“

Meðan svona fólk opnar munninn opinberlega getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki falið sig undir sauðagærunni. Að því leytinu einu eru þau ómetanleg.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, febrúar 09, 2011

Mótmæli í arabaríkjum og kosningaréttur almennings

Í Fréttablaðinu um helgina var heil síða lögð undir fréttaskýringu um mótmælaölduna sem skellur nú á arabaríkjum í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum, eins og segir í inngangi. Þetta er fróðleg fréttaskýring sem verður enn skiljanlegri þegar skoðað er meðfylgjandi kort af þessum heimshluta þar sem útskýrt er fyrir hvert land fyrir sig hvernig mótmæli ganga fyrir sig, eða líkur eru taldar á að uppúr sjóði. Einnig er löndunum átta stillt upp með mynd af leiðtogum þjóðanna og tölfræðilegum upplýsingum sem blaðamaðurinn hefur talið máli skipta. Þar er sagt hver leiðtoginn (á myndinni) er og hve lengi hann hefur setið á valdastóli, hvenær landið fékk sjálfstæði og frá hvaða nýlenduþjóð eða hvernig landið varð til (ekki jarðfræðilega heldur t.d. að Jemen varð til við sameiningu Norður- og Suður Jemen), sagt frá íbúafjölda, hve mörg prósent íbúa eru atvinnulaus, hverrar trúar fólk er, hve mikið af fólki er undir fátæktarmörkum og hvert hlutfall læsra er, allar þessar síðustu tölur eru í prósentum. Þessar upplýsingar segja heilmikla sögu í fáum orðum og tölum.

Einu virðist þó blaðamaðurinn hafa gleymt, og það er hvernig lýðræði er háttað í löndunum átta, þ.e.a.s hvort og þá hvernig kosningarréttur almenningur hefur. Einhvernveginn hélt ég að það myndi skipta máli, svona þegar einn leiðtoginn hefur þegar verið rekinn úr vistinni og hinir eru krafðir um að taka pokann sinn, en þær upplýsingar rötuðu ekki í fréttaskýringuna. Ég held reyndar að kvenkyns blaðamaður hefði ekki klikkað á þessu atriði. Í upplýsingum um kosningarétt almennings felast jú einnig upplýsingar um kosningarétt kvenna. Nú segir kosningaréttur kvenna einn og sér ekki allt um stöðu þeirra í samfélaginu en hann er samt sem áður vísbending, rétt eins og tölur um læsi.

Mér datt reyndar ekki í hug að blaðamaðurinn hefði ekki aðgang að þessum upplýsingum enda var ég nokkuð viss um að þær væri að finna á nákvæmlega sama stað og hann fékk allar hinar upplýsingarnar. Ég fletti því uppá vefsíðunni sem mér fannst augljósasti kosturinn: Staðreyndabók leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA The World Factbook). Þar eru nefnilega allar upplýsingarnar sem CIA hefur verið að safna sér um þjóðir heims undanfarna áratugi.* Ég fletti upp á Marokkó, svona útafþví að það var fyrsta landið sem var í fréttaskýringunni og athugaði hvort ég fyndi upplýsingar um leiðtoga, sjálfstæði, íbúafjölda, atvinnuleysi, trúarbrögð, hlutfall undir fátækrarmörkum og læsi. Þær fann ég allar og hver um sig stemmdi nákvæmlega við tölurnar í Fréttablaðinu.** Þar með var búið að finna hvaðan upplýsingarnar voru komnar. Ég leitaði þá að því hvort ekki væri hægt að finna eitthvað um kosningarétt, og var það hægur vandinn. Ég snaraði mér þá í að fletta upp Alsír, Túnis, Libíu, Egyptalandi, Jórdaníu, Sádi-Arabíu og Jemen og fann sömu upplýsingarnar fyrir þau öll.*** Þetta allt tók mig innan við tíu mínútur frá því að ég fór fyrst inná síðuna.

Marokkó: allir 18 ára og eldri hafa kosningarétt
Alsír: allir 18 ára og eldri hafa kosningarétt
Túnis: 18 ára og eldri hafa kosningarétt, nema þeir sem hafa setið inni í 3 mánuði eða meira eða hlotið skilorðsbundinn dóm til 6 mánaða eða meira. Þá mega lögreglumenn og hermenn ekki kjósa.
Libía: allir 18 ára og eldri hafa ekki bara kosningarétt heldur ber tæknilega séð skylda til að kjósa****
Egyptaland: allir 18 ára og eldri verða að kjósa
Jórdanía: allir 18 ára og eldri hafa kosningarétt
Sádi-Arabía: aðeins karlmenn sem orðnir eru 21 árs mega kjósa
Jemen: allir 18 ára og eldri hafa kosningarétt

Kannski fannst blaðamanninum þetta of einsleitt eða of flókið eða ekki skipta máli því það mega þó allavega flestir kjósa. Og allir vissu hvorteðer að konur mega ekki kjósa í Sádi-Arabíu. Fyrir mína parta þá mundi ég a.m.k. ekki hvernig þessu væri háttað í hinum löndunum og fannst því þessar upplýsingar því vanta í fréttaskýringuna.

Og ég bakka ekki með það, að hefði blaðamaðurinn verið kona, hefði þessar upplýsingar ekki vantað.

En nú ætla ég að flýta mér að loka CIA síðunni. Mér finnst alltaf þegar ég skoða hana að næstu daga á eftir sé fylgst með hverri hreyfingu minni í netheimum. Hvað þá eins og núna þegar ég hef verið að fletta upp hverju óróleikasvæðinu á fætur öðru.***** Yfir og út, skipti.

___
* Jæja, ekki allar, Wikileaks hefur víst sýnt fram á það.
** Upplýsingar um leiðtoga fást undir Government, sömuleiðis um sjálfstæði. Íbúafjöldi, trúarbrögð og læsi undir People, atvinnuleysi og hlutfall fátækra undir Economy.
*** Kosningaréttur, suffrage, er undir Government, beint fyrir ofan nafn leiðtogans. Ekki vandfundið.
**** Ekki hef ég hugmynd um hvernig þessari kosningaskyldu er framfylgt en held að þetta hljóti að vera íhugunarefni fyrir næstu kosningar til stjórnlagaþings.
***** Það er kannski ímyndun í mér, en eftir því sem ég fletti uppá fleiri löndum hægði á upplýsingastreyminu og aftur og aftur kom upp villumelding. Blikkuðu rauð ljós einhverstaðar?

Efnisorð: , ,

sunnudagur, febrúar 06, 2011

Icesave, táknmál og ráðherrann sem brá

Síðastliðna viku hafa nokkur mál vakið athygli mína en mér hefur ekki fundist tilefni til að skrifa langar færslur um hvert og eitt, hef ég því ákveðið að ræða þau stuttlega í einni færslu.

Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra dauðbrá þegar hann komst að því hve margar konur eru beittar ofbeldi — en rannsókn sýndi að rúm 22 prósent kvenna sögðust hafa verið beitt ofbeldi í nánu sambandi einhvern tímann frá 16 ára aldri. (Sannarlega gæti ég skrifað langt og mikið mál um ofbeldi gegn konum en hér er ég fyrst og fremst með viðbrögð ráðherrans í huga). Kannski er þessari upphrópun hans ætlað að vekja athygli á málinu, sem er grafalvarlegt, þó Guðbjartur hafi gert sig hlægilegan með þessum viðbrögðum. Ofbeldi er staðreynd í lífi fjölmargra kvenna og viðvarandi ógn sem vofir yfir okkur öllum, en karlmenn hafa aftur á móti þau forréttindi að geta leyft sér að vera sér ómeðvitaðir um það og verða hissa.

Viðsnúningur Bjarna Ben og hluta þingflokks Sjálfstæðismanna í Icesave-málinu hefur vakið athygli. Fjölmiðlar hlaupa reyndar ekki upp til handa og fóta og tala um villiketti og klofning en fylgjast með þessu eins og Móse hafi verið að koma ofan af fjallinu. Sjálfstæðismenn hafa ítrekað sagt að þeir vilji ekki „þvælast fyrir góðum málum“ — og hegðað sér svo í hrópandi andstöðu við það allt frá því að þeir misstu stjórnartaumana — en nú taka þeir sérstaklega fram að núna séu þeir ekki að þvælast fyrir, núna sko. Skemmtileg tilbreyting frá því að valda eins miklum skaða og þeir geta eingöngu til að klekkja á ríkisstjórnini eins og þeir hafa lagt í vana sinn hingað til. Þessu á almenningur allur greinilega að fagna. Þessi viðsnúningur er greinilega þvílíkt fágæti að Þorsteinn Pálsson, sem var ritstjóri áður og eftir að hann var formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lýst því yfir að Bjarni Ben hafi tekið forystu í málinu. „Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að axla þá ábyrgð og teflir nú fram betri samningi með því pólitíska afli sem þarf til að koma málinu frá. 

Ráðherrarnir eru orðnir að eins konar fylgifiskum Sjálfstæðisflokksins í málsmeðferðinni.

Það að Bjarni hafi snúist á sveif með ríkisstjórninni þýðir semsagt ekki að hann fylgi henni að málum* heldur hefur hann nú forystu fyrir henni í þessu erfiða máli, segir fyrrverandi formaður flokksins. Skal það fært til bókar og skrifað í sögubækur framtíðarinnar: Bjarni Ben skrifar uppá samninga um Icesave. Eitthvað er nú bjargvætturinn skelkaður við óánægju flokksmanna (ekki má nota orðalagið 'hætta á klofningi' enda á það auðvitað bara um VG) svo hann þvertekur ekki fyrir að Icesave fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún myndi auðvitað fara nákvæmlega á sama veg og sú fyrri, þ.e. að mikill meirihluti segir nei sama hver spurningin er því fólk heldur upp til hópa að við sleppum við að borga hina tæru snilld Landsbankans, sem flokksbundnir Sjálfstæðismenn áttu og stýrðu. Þannig myndu reyndar allar þjóðaratkvæðagreiðslur um skattamál fara, eða hvernig væri ef fjárlög væru alltaf borin undir þjóðina?

Talandi um Sjálfstæðisflokkinn og ritstjóra; mér finnst furðulegt að komast að því að mbl.is sé mest lesni fréttavefur landsins. Þegar núverandi ritstj. tók við Morgunblaðinu sögðu ellefu þúsund manns upp áskriftinni í mótmælaskyni. Nú virðist sem þetta fólk og fleira til lesi blaðið á netinu. Var það þá fyrst og fremst að forðast prentsvertuna? Eða áttar fólk sig ekki á að auglýsingatekjur Moggans aukast við hvert skipti sem einhver skoðar sig um á mbl.is, og þannig styrkist ritstj. í sessi. Það er hægt að telja á fingrum annarrar handar hve oft ég hef farið inná mbl.is undanfarin ár, hefur það þá verið vegna þess að ég hef elt tengil þangað inn og ekki áttað mig á hvert leiðin lá. Mogginn í dulargervi var borinn í hús í vikunni en ég vissi það ekki fyrr en ég las um það á einhverju blogginu; ég hafði hent honum í endurvinnsluhrúgu ólesnum því ég hélt að þetta væri einhver ofvaxin ferðaskrifstofuauglýsing. Ég fiskaði hann því uppúr hrúgunni og fletti í gegn (ekki hrædd við prentsvertuna) og komst að því að ég var ekki að missa af neinu.

Jákvætt var að sjá að ríkisstjórnin er einhuga um að staða táknmáls verði tryggð með lögum. Frumvarpið, sem mennta- og menningarmálaráðherra mun leggja fram á þó eftir að fara gegnum umræðu og atkvæðagreiðslu þannig að (tákn)málið er ekki í höfn. Svona frumvörp hafa oft dagað uppi í nefnd.** Viðurkenning á táknmáli sem fyrsta máli heyrnarskertra (yfirleitt er ekki hægt að tala um táknmál sem móðurmál því fæstir heyrnarskertir eiga líka heyrnarskerta foreldra sem þeir læra málið af, þessvegna er talað um fyrsta mál) var eitt af stefnumálum nokkurra frambjóðenda til stjórnlagaþings (og tryggði það þeim atkvæði mitt) og því er jákvætt að ríkisstjórnin vilji gera að lögum málefni sem margt fólk vill sjá í stjórnarskrá (hver veit svosem hvenær henni verður breytt eða hvernig, en þarfyrirutan útilokar lagasetning ekki að táknmál fengi líka sess í stjórnarskránni) enda þótt það væri auðvitað kostur að hafa óhagganlegt ákvæði um táknmál í stjórnarskrá.

Svei mér þá ef það hefði ekki verið auðlæsilegra ef þessir þankar mínir hefðu verið hver í sinni færslu.

___
* Ég hef reyndar áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað stuðningi sínum við Iceasave samningana gegn því að fallið verði frá því að innkalla kvótann eða einhver annar skiptidíll sé undir. Í Silfri Egils var Samfylkingarþingmaðurinn Sigmundur Ernir greinilega á því að fara í stjórn með Sjálfstæðismönnum. Úff. Orð Tryggva Herbertssonar í kjölfarið voru ansi mögnuð, hann virðist vera ekki síður veruleikafirrtur en þegar hann var efnahagsráðgjafi Geirs Haarde á síðustu metrunum fyrir hrun.
** Svíar urðu þjóða fyrstir til að viðurkenna táknmál sem móðurmál döff fólks árið 1981. Nú 30 árum síðar hafa Íslendingar ekki enn fylgt í kjölfarið. Þó hefur frumvarp þess efnis ítrekað verið lagt fram, síðast 2007.

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, febrúar 02, 2011

Karlmenn komast upp með meira

Ég hef stundum sagt, en man ekki hvort ég hef viðrað þá skoðun mína hér, að jafnrétti sé náð þegar kona getur staðið sig hörmulega sem ráðherra án þess að vera álitin klúðra starfinu eingöngu vegna þess að hún er kona eða ætlast til að hún segi af sér, heldur þyki það bara eðlilegasti hlutur í heimi, svona eins og þegar Halldór Blöndal var ráðherra. Engin kona hefði komist upp með að standa sig jafn illa og hann, en hann var karlmaður og komst því upp með það.

Ég hélt alltaf að þegar ég nefndi Halldór Blöndal sem dæmi (og hann var gott dæmi þó margir aðrir karlar hafi líka komist upp með að vera lélegir í starfi) þá væri ég voða frumleg. Vissi þó að þetta með að jafnrétti væri ekki náð fyrr en konur kæmust upp með að vera lélegir ráðherrar væri meira og minna stolið, að minnsta kosti rámar mig í að hafa lesið það á bandarísku bloggi.

Nú þegar ég les gamla bloggfærslu Þórunnar Sveinbjarnardóttur þá sé ég að líklega hef ég eftir einhverjum leiðum verið að taka upp eftir henni. Hún segir:
„Ég er ekki viss um að ég þori að hætta mér út í umræðuna um ólíkar kröfur til útlits og hátternis stjórnmálamanna eftir kyni. Vil þó nota þetta tækifæri til þess að setja fram kenningu mína um það hvernær fullu jafnrétti stjórnmálamanna – kvenna og karla – verði náð hér á landi. Þessa kenningu setti ég fyrst fram á ógleymanlegum fundi Vesturlandsanga Kvennalistans í Borgarnesi árið 1993 og kalla hana Blöndals-kenninguna um jafnrétti í stjórnmálum. Hún er svona: Fullu jafnrétti stjórnmálakvenna- og karla verður náð þegar konur mega og geta verið jafn viðskotaillar, krumpnar og uppstökkar í störfum sínum og Halldór Blöndal (var) – og komast upp með það!“


Ég var ekkert að þvælast á fundi í Borgarnesi árið 1993 þannig að ekki hafði ég þessa Blöndals-kenningu frá Þórunni. Líklegra er að ég hafi heyrt hana eftir einhverjum leiðum, enda þótt mig reki ekki minni til þess. Kannski föttuðum við Þórunn bara uppá þessu hvor í sínu lagi, annaðeins hefur nú gerst.

Hvort heldur er, þá er kenningin góð.

Efnisorð: , ,