fimmtudagur, febrúar 27, 2014

NöttZ / Hildur

(Varúð, orð sem hér falla og lesa má í skjáskotum gætu hrundið af stað óþægilegum hugrenningatengslum.)

Söngkonan Hafdís Huld Þrastardóttir sagði frá því í Kastljósi í kvöld að hún hefði komist að því að Hildur Lilliendahl hefði undir notendanafninu „NöttZ“ á bland.is talað mjög illa um sig (Hafdísi) og óskað sér alls hins versta, kynferðisofbeldi og dauða. Úff. Fréttinni fylgdi að Hildur segðist ekki hafa sjálf skrifað dauðahótanirnar og sæi eftir ummælum um þroskaskerðingu.

Eftir að hafa fengið sting í magann meðan á Kastljósinu stóð, fór ég á netið. Á bland.is var sannarlega verið að ræða málið. Búið var að grafa upp umræðuþráðinn þar sem tjaldhællinn kemur við sögu. Og þá kom það í ljós sem mig grunaði (en Kastljós orðaði svo sérkennilega að vel mátti misskilja það): að Hildur hafði árið 2009 fengið sms af netinu frá einhverjum sem hún vissi ekki hver var, fyrsta sms-ið snerist um Hafdísi Huld og Hildur var semsé að spyrja hvort einhver á bland vissi hver hefði sent sms-in. Eftir að hafa verið spurð um innihald skilaboðanna birtir hún þau loksins, og svo þau sem fylgdu í kjölfarið.

Þessi viðbjóðslegu ummæli um Hafdísi Huld voru semsagt ekki orð Hildar, heldur voru send til Hildar og hún birti þau. En eins og einhver segir nú í kvöld um þetta mál á bland:

„Kastljós lét það alveg grínlaust hljóma eins og eitthvað sem hún hefði sjálf verið að segja og væri svo núna að bendla aðra við, en umræðan er bara augljóslega frá fyrstu mínútu hún að setja inn SMS sem henni eru að berast þarna.“

Og hér má lesa hvað NöttZ / Hildur skrifaði árið 2009. Allan umræðuþráðinn má lesa hér.












Af þessu má sjá að það er afar langsótt að ætla Hildi að hafa sagt þennan viðbjóð með tjaldhælinn; hún hafði þau úr sms-i sem henni var sent. Hún hefur komið með skýringar á hver skrifaði henni þessi skilaboð og hver hafi skrifað undir hennar notendanafni á bland.is. Að því gefnu að það sé rétt, þá er samt sérkennilegt af Hildi að hafa ekki eytt út þessum drápsummælum á sínum tíma ef einhver annar skrifaði þau í hennar nafni.

Það sem hún svo sjálf skrifaði (og segist sjá eftir) um þroska Hafdís Huldar er svo annað mál; hvað hafði hún eiginlega svona mikið á móti Hafdísi Huld?

Kannski koma aðrar eða betri skýringar á þessu máli en ég vil taka fram að mér finnst þetta A) ömurlegt, B) Hildi ekki til sóma, og C) ekki kasta rýrð á baráttu Hildar fyrir feminisma þó henni hafi verið uppsigað við einhverja konu og látið andstyggileg ummæli falla um andlegan þroska hennar. Enn síður er það áfellisdómur yfir kvenréttindabaráttu eða feministum að til séu orðljótir feministar.

Komi hinsvegar í ljós að tjaldhælsummælin séu beint frá Hildi sjálfri komin mun ég afneita henni með öllu.




Efnisorð:

miðvikudagur, febrúar 26, 2014

Að gera lítið úr reynslu þeirra fjölmörgu sem lentu og lenda í alvarlegum ...

Ef flugfélög heimsins hefðu kynnst kenningum Heiðu B. Heiðars hefðu þau getað sparað sér stórfé. Heiða skrifar pistil um að fólk sem hefur naumlega sloppið frá kynferðisbrotamönnum hafi ekki undan neinu að kvarta. Fólk, og Heiða á greinilega við Hildi Lilliendahl og pistil hennar frá um daginn, er að öllum líkindum haldið „fórnarlambaþrá og dassi af athyglissýki“ ef það vogar sér að ræða svoleiðis smotterí.

Flugfélög afturámóti stökkva til þegar flugvélar lenda í „flugatviki“ og veita flugfarþegum áfallahjálp — jafnvel þótt hættan hafi verið óveruleg, t.d. sprengjuhótun en engin sprengja, sprungið dekk eða dauður hreyfill en lending gengur samt vel og enginn slasast. Enginn slasast! Eins og það væri ekki nær að veita áfallahjálp þegar fólk slasast eða deyr — en þá auðvitað bara þeim sem hafa slasast sjálfir eða dáið. Annað er ómark.

Það að óttast um líf sitt og limi er ómerkilegt, að vilja eitthvað viðra þá upplifun opinberlega er fórnarlambaþrá og athyglissýki og gerir lítið úr reynslu þeirra fjölmörgu sem lentu og lenda í alvarlegum flugslysum (svo notað sé orðalag Heiðu). Samt eru flugfélög eitthvað stressuð um að farþegar sem upplifa „flugatvik“ hætti í framhaldinu að vera flugfarþegar og fljúgi aldrei meir (enda þótt flughræðsla eigi auðvitað ekki rétt á sér nema farþeginn hafi sjálfur slasast eða dáið), og virðast gera ráð fyrir að fullorðið fólk verði fyrir áfalli þegar flugvélin sem það er í reynist ekki eins örugg og það hélt. Flugfélögin rjúka því í að veita áfallahjálp svo allir komist nú yfir áfallið og haldi áfram að treysta flugvélum.

Þvílíkt peningabruðl, að bjóða ódauðu og óslösuðu fólki áfallahjálp þegar það getur bara sjálft farið til sálfræðings við athyglissýkinni.

Vill ekki einhver kynna helstu kenningar Heiðu B. fyrir flugfélögunum?

Efnisorð: , ,

föstudagur, febrúar 21, 2014

Margvíslegir fordómar þrátt fyrir lagaleg réttindi

Ísland er eitt tiltölulega fárra ríkja í heiminum þar sem hinseginfólk hefur sömu lagaleg réttindi og aðrir, þarmeðtalið til hjúskapar. Einsog við vitum er mjög þrengt að réttindum hinseginfólks í Rússlandi og sumstaðar í heiminum er samkynhneigð hreinlega bönnuð.* Mandela — maður sem hafði fundið meira en flestir fyrir fordómum annarra — stóð fyrir því að mismunun gegn samkynhneigðum í Suður-Afríku, og frá 2006 hafa samkynja hjónabönd verið lögleg. Þó eru enn gríðarlegir fordómar í Suður-Afríku sem birtast m.a. með þeim hætti að karlmenn nauðga lesbíum í þeim yfirlýsta tilgangi að leiðrétta kynhneigð þeirra. Hér á landi er enn verið að berja á hinsegin karlmönnum og hinsegið fólk verður fyrir margvíslegum fordómum, þrátt fyrir að lögin mismuni þeim ekki lengur. Bandaríkjaforseti er þeldökkur og þykir mörgum það til marks um breytta afstöðu bandarísku þjóðarinnar til fólks af afrískum uppruna, en samt grasserar rasismi enn þar í landi og margoft má lesa í fréttum um hvíta karlmenn sem þykir eðlilegt að skjóta óvopnaða unglinga sem þeir telja hættulega vegna litarhaftsins.

Það er sannarlega framfaraskref að hópar sem áður var meinað um réttindi sín séu nú litnir sömu augum og aðrir í augum laganna, en það dugir ekki til. Stundum er svindlað á lögunum. Konur hafa lagalegan rétt á sömu launum og karlar en þrátt fyrir áratuga jafnan rétt til launa** er launamunur enn þó nokkur, svo ekki sé talað um viðvarandi lág laun í hefðbundum kvennastörfum. Og rétt einsog í tilviki hinseginfólks og þeldökkra, þá hafa lög, hvortsem þau eru um kosningarétt, hjúskap eða önnur sjálfsögð réttindi, litlu breytt um það viðhorf sem mætir konum oft í leik og starfi, og konur verða enn fyrir kynferðislegu áreiti og nauðgunum. Það þarf ekki að leita lengra en í Morfískeppnina til að sjá dæmi um viðhorf sem mætir konum þar sem umhverfið er mótað af karlmönnum. Andstaða margra þeirra við kvenréttindi og fyrirlitning á konum virðist vaxandi vandamál.

En það sem lagalega staðan gerir þó, er að ríkisvaldið hefur með lagasetningunni tekið þá afstöðu að allir hafi sama rétt og sömu tækifæri, í stað þess að draga bara taum gagnkynhneigðra hvítra karla. Sömu lög fyrir alla eru nauðsynlegur grundvöllur fyrir því að viðhorf breytist (auðvitað verður að verða einhver viðhorfsbreyting til að lögin breytist, a.m.k. meðal þeirra sem semja lögin) og með tímanum er auðvitað von til þess að hvítir gagnkynhneigðir karlar og annað fordómafullt fólk sjái að sér og hætti að berja á samborgurum sínum, mismuna þeim eða sýna þeim óvirðingu eða hatur í orði og verki. Vonandi gengur sú viðhorfsbreyting hraðar fyrir sig en jafnlaunabarátta kvenna. Það er of sorgleg tilhugsun að svartir strákar séu álitnir sjálfsögð skotmörk, hinseginstrákar verði enn barðir á djamminu eftir hálfa öld og stelpur kinoki sér við — eða hafi jafnvel gefist upp á — að taka þátt í keppni á vegum skólans síns eða annarri opinberri umræðu.

___
* Ármann Jakobsson hefur skrifað ferlega skemmtilega og áhugaverða grein þar sem hann gagnrýnir m.a. notkun orðanna „samkynhneigð“ og „hinsegin“ („Judy Garland er löngu dauð: Tilgáta um hvers vegna „hinseginhátíðin“ sé í vanda,“ Ritið 3:2013). Anna Pála Sverrisdóttir formaður Samtakanna '78 notar afturámóti hinseginorðið í Knúzgrein og ég leyfi mér að nota það orðalag hér.

** Alþingi samþykkti árið 1961 lög um launajöfnuð kvenna og karla. Samkvæmt nýjustu útreikningum eru 53 ár síðan.

Efnisorð: , , , , , , , ,

fimmtudagur, febrúar 13, 2014

Eignarréttur á eigin líkama

Vera Sölvadóttir skrifar pistil þar sem hún segir frá því að þegar hún las hinn stórgóða Knúzpistil Hildar um daginn hafi rifjast upp fyrir henni að hún hafi aldrei talið sig hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti. En þegar nánar var að gáð þá hafði hún orðið fyrir margvíslegu kynferðislegu áreiti, allt frá barnsaldri. Og hún segir:

„Ég get endalaust rifjað upp atvik eins og þessi sem ég hef ekki litið á sem áreiti eða ofbeldi. Þetta er normið fyrir mér.“

Ekki ætla ég að bæta öðru við orð þeirra tveggja en að benda á það sem ég skrifaði um káf á skemmtistöðum og kynferðislega áreitni í garð ungra stelpna hér og hér.

Stelpum verður snemma ljóst að karlmenn virða ekki eignarrétt kvenna á eigin líkama, sem veldur því að þær átta sig jafnvel ekki á að þetta er kynferðisleg áreitni. Í fyrri bloggfærslunni sem ég vísa í hér fyrir ofan spurði ég:

„Er ekki svolítið sorglegt að strax um tvítugt séu konur orðnar alvanar því að hver einasti karlmaður líti á þær sem einhvern hlut sem þeir mega fá útrás á, hvar og hvenær sem er með þeim hætti sem þeir vilja hverju sinni? Og konur verða bara að kyngja því ef þær ætla að stunda skemmtanalífið, að láta káfa á sér, annars verður stórkostlegt uppnám?“

Ég var ekkert að ímynda mér þetta, því einsog Vera segir, þekkja þetta næstum alllar konur:
„Enda hafa allar mínar vinkonur lent í svipuðum uppákomum. Eiginlega allar konur sem ég þekki, systur mínar, móðir, kunningjakonur, frænkur. Ég fann enga undantekningu. Við erum bara vanar þessu og dónakallarnir halda áfram.“

Það væri óskandi að skrif Hildar og Veru yrðu til þess að karlmenn endurskoðuðu hegðun sína.

Efnisorð: ,

föstudagur, febrúar 07, 2014

Notkunarmöguleikar barna

Degi leikskólans var fagnað í gær eins og sýnt var í fréttatíma Sjónvarpins. Þar var fjöldi leikskólabarna samankominn og talað var við nokkur þeirra. Allt voða krúttlegt. Minna krúttlegt var að sjá þau flest í endurskinsvestum, þessum sem þau eru í þegar þau fara á bæjarrölt. Ekki misskilja mig, mér finnst endurskinsvesti frábær hugmynd, og í raun ættu allir, konur og krakkar og kallar með skalla að vera í svoleiðis vestum um hávetur. En það er bara með endurskinsvestin sem blessuð börnin eru sett í, að alloft eru þau merkt einhverjum fyrirtækjum. Nafn leikskólans er þá oft öðrumegin á vestinu en fyrirtækisins hinumegin, eða vestið er merkt fyrirtækinu í bak og fyrir svo að börnin eru í raun gangandi auglýsing fyrir fyrirtækið. Ég hef séð ótal dæmi um þetta gegnum árin og man ekki betur en nöfn banka hafi þannig verið borin á baki saklausra barna, líklega hafa þau vesti verið tekin úr umferð eftir bankahrunið.


Undanfarið hef ég oftast séð nöfn og merki tryggingafélaga á vestunum, eins og sást vel í sjónvarpsfréttinni (neðsta skjáskotið er úr henni). Á síðum leikskóla er glaðlega sagt frá því að tryggingafélög gefi merkt endurskinsvesti. Slíkar gjafir einskorðast þó ekki við tryggingafélög.

Börn í fyrsta bekk grunnskóla hafa líka fengið vesti að gjöf frá Landsbjörgu, og auðvitað gott mál að slysavarnarfélag gefi vesti. En í sömu frétt er talið upp hvaða fyrirtæki „koma að verkefninu og styrkja það“, og þá fer mig að langa til að sjá þessi vesti og hverjum þau eru merkt. Fengu kannski öll fyrirtækin pláss á hverju barni, eða ákveðinn fjöldi vesta merkt hverju fyrirtæki svo þau fengju öll að vera memm? Það er ljótt að skilja útundan, svo mikið vita börnin sem eiga að nota vestin.

Ég undrast hugsun leikskólastjóranna og sveitarfélaganna sem samþykkja þessar auglýsingaherferðir þar sem ósjálfráða börn eru látin taka þátt í. Enn meira er ég hissa á foreldrum að láta þetta viðgangast. Finnst fólki í alvöru í lagi að börn séu notuð sem gangandi auglýsingaskilti fyrir stórfyrirtæki? (Og þó það væri smáfyrirtæki, eða örfyrirtæki.)

Mér fannst líklegt að einhverstaðar hefði einhver gagnrýnt auglýsingarnar á endurskinsvestunum, en eina umræðan og þá um leið gagnrýnin sem ég fann var á Bland.is (áður Barnaland) og svo fann ég eina athugasemd á facebook síðu lögreglunnar, þar sem spurt var: „hvar fást endurskinsmerki? bara þokkalega venjuleg hangandi í snúru? eða til að krækja í rennilása. helst ekki merkt banka eða tryggingarfélagi.“ Svo mörg voru þau orð. En á Bland varð heilmikil umræða í ágúst 2011 og skiptist auðvitað í tvö horn (ég taldi ekki með og á móti innlegg og fylgist ekki með hver sagði hvað). Upphafsinnleggið hljóðaði svona:

„Hvað finnst ykkur um að t.d. bankar og símafyrirtæki gefi leikskólum endurskinsvesti og að börnin ykkar séu merkt þessum fyrirtækjum þegar þau fara í fjöruferð eða húsdýragarðinn með leikskólanum. Mér finnst þetta siðlaust og ég vil að það verði tekið fyrir þetta.“
Svo hófst umræðan. Hér eru örfá dæmi.

„mér finnst allt í lagi að fyrirtæki úti í bæ vilji gera eitthvað fyrir leikskólabörn. mér finnst ekki í lagi að útsetja þau fyrir að vera gangandi auglýsingar í staðinn.“

Öðrum fannst mestu máli skipta að börnin væru í endurskinsvesti eða báru jafnvel í bætifláka fyrir auglýsingarnar sem væru í raun engar auglýsingar.

„Ég vil frekar að barnið mitt sé í merktu endurskinsvesti en engu endurskinsvesti...“

„Það eru bara mjög fáir sem sjá þetta sem einhverja auglýsingu. Það er svosem hægt að lesa eitthvað svona út úr nánast öllu, búa til samsæriskenningar úr öllu. Þetta er bara eitthvað sem er ekki þess virði að spá einu sinni í. Ég er bara fegin að þau fái þetta og þetta sé notað, finnst þetta oft bara krúttlegt hjá þessum fyrirtækjum (útlitin á merkjunum og það).. Ég allavegna sé þetta engann veginn sem einhverja auglýsingaherferð hjá bönkunum“.

„Það má vel vera að ég sé stórundarlegt eintak af manneskju að vera en mér gæti ekki verið meira sama hvort það standi landsbankinn eða síminn á vestinu hjá syni mínum, svo lengi sem hann er með enduskinsmerki.... fólk getur örugglega fengið að kaupa sitt eigið vesti fyrir barnið sitt og brýnt fyrir leikskólakennurunum að þetta sé eina vestið sem barnið megi ganga í:S .... Mér finnst líka annsi margt vera flokkað undir siðleysi í dag sem ég get með engu móti séð neitt siðlaust við.“

Mig grunar að ofangreindar athugasemdir endurspegli viðhorf margra, ef þá fólk nennir yfirleitt að hugsa útí þetta. En miðað við næsta innlegg er til fólk sem er á móti því að börn séu notuð sem auglýsingaskilti — og gerir eitthvað í því.

„Í mínum leikskóla fjármagnaði foreldrafélagið kaup á svona vestum sem báru eingöngu merki leikskólans þar sem leikskólastjórinn (og væntanlega hluti foreldra) var á móti því að börnin væru merkt fyrirtækjum utan úr bæ.“

Í Blandumræðunni var bent á leiðbeinandi reglur um neytendavernd grunn- og leikskólabarna (sjá einnig hér).
„Engar auglýsingar skulu vera í grunnskólum eða leikskólum né önnur markaðssókn. Kynning á æskulýðs-, íþrótta- og tómstundastarfsemi sveitarfélaga er þó heimil. Þá er kostun á starfi innan skólans heimil með samþykki skólastjóra með hliðsjón af stefnu sveitarfélags og foreldrafélags ef það stendur fyrir viðburði á vettvangi skólans. Skólabörn í hefðbundnu skólastarfi skulu þó ekki merkt kostunaraðila með áberandi hætti. Skilyrði er að merki kostunaraðila sé ekki sýnt sérstaklega eða auglýst á staðnum. Kostun á námsefni er einungis heimil eftir því sem reglur sveitarfélags kveða á um.“

Það væri ágætt ef stjórnendur og foreldrafélög leikskóla og grunnskóla kynntu sér þessar leiðbeinandi reglur, og færu helst eftir þeim. Því það er sorglegt að þegar birtar eru fréttir af samkomum leikskólabarna, þar sem þau eru jafnvel að berjast fyrir bættu samfélagi, t.a.m. með því að ganga gegn einelti, þá sé það fagnaðarefni hjá markaðsdeildum fyrirtækja sem sjá ódýru auglýsingaherferðina sína blasa við á fjölda lítilla barna.





Efnisorð: , ,

sunnudagur, febrúar 02, 2014

Ný áskorun fyrir aðdáendur Woody Allen

Þegar ég las ágæta úttekt Gísla Ásgeirssonar á ásökunum Dylan Farrow á hendur Woody Allen fór ég að skoða hvað ég hefði skrifað um þetta mikla átrúnaðargoð margra kvikmyndaáhugamanna. Í ljós kom að það var furðulítið; ég hafði minnst á hann í framhjáhlaupi í einni bloggfærslu árið 2007. Þetta þótti mér furðulegt því ég vissi að ég hafði skrifað mun meira um hann — en í ljós kom að það var ekki á blogginu heldur í tölvupóstum. Svo að hér fer á eftir samantekt úr nokkrum tölvupóstum (flýtir svo ansi mikið fyrir mér) þar sem ég þusa um undarleg fjölskyldumál Allen og kynferðissamband við eina eða fleiri dætur Miu Farrow.

Fyrst ber að taka fram að ég hef séð nokkrar ágætar Woody Allen myndir en er fráleitt hans mesti aðdáandi. Ég hef nöldrað við hvern sem heyra vill um samband hans við Soon-Yi í hvert sinn sem myndir hans eru sýndar en það hefur aldrei haggað neinum aðdáendum hans. Nú er spurning hvað þeim finnst eftir að kynferðisbrot hans gegn Dylan hafa komist í hámæli. Fram að því að ég las viðtalið sem ég vitna í hér að neðan var þetta viðhorf mitt til Woody Allen og mynda hans:

Woody getur maður réttlætt að horfa á (með herkjum), Polanski er hinsvegar ógeð (þó mig rámi í að hafa séð einhverja ágæta mynd eftir hann áður en ég vissi hverskonar viðbjóður hann er). [úr tölvupósti ágúst 2012] Þetta viðhorf endurspeglast í bloggfærslunni sem ég skrifaði 2007 (og margar aðrar um Polanski).

Eftirfarandi er úr tölvupósti í október 2013, tilvitnanir þýddar í snatri, annað lítillega umorðað og stytt:

Ég rak augun í nýtt viðtal við Miu Farrow í októberhefti Vanity Fair og hellti mér í að finna upplýsingar um Woody Allen og þá svívirðu hans að fara að vera með stjúpdóttur sinni.

Í viðtalinu kemur ýmislegt í ljós sem ég ekki vissi áður t.d. að Mia Farrow hafði ættleitt Soon-Yi meðan hún var gift André Previn, þannig að stelpan hét alltaf Previn og leit á André Previn sem pabba sinn. Ég vissi að Mia Farrow og Woody Allen hefðu ekki búið saman en verið nágrannar, í athugasemdakerfi Vanity Fair kemur fram að hann hafi búið handan götunnar. Það er hinsvegar ljóst að hann átti son með Miu (sem hún segir reyndar núna að Frank Sinatra hafi átt) og að börnin sem hún ættleiddi eða átti eftir að hún tók upp sambandið við Woody Allen hafi litið á hann sem pabba sinn, eða að minnsta kosti pabba systkina sinna. Það er nefnilega athyglisvert að í þessu viðtali segja þau frá (ekki öll, það væri nú meiri langlokan! og engin furða að maður ruglist í hver ættleiddi hvern og hver er hvað) og lýsa hryggð sinni og andstyggð á Woody Allen sem giftist einu barnanna úr systkinahópnum.

Svo er annað mál og það eru ásakanirnar um kynferðisofbeldi sem Woody Allen á að hafa beitt eitt barnanna, Dylan Farrow, það hafði ég ekki heyrt um áður. Það sem ég vissi heldur ekki er að Mia Farrow komst að sambandi Soon-Yi og Woody Allen þegar hún fann nektarmyndir sem hann hafði tekið af henni (þá var hún um tvítugt). Nektarmyndir sem maðurinn þinn tók af dóttur þinni, það hlýtur að hafa verið góð tilfinning. Ekki að undra að hana hafi farið að gruna að hann hafi lagst á fleiri börn og velt fyrir sér (eins og flestir hljóta að gera) hvenær hann fór að bera víurnar í Soon-Yi. Mér hefur fundist líklegt að hann hafi verið lengi búinn að undirbúa hana til að ganga lengra síðar (e. groom) og að hún sé alveg heilaþvegin af honum. Eftir að hún varð fullorðin sé hún með Stokkhólmsheilkenni, eða sjái enga leið út úr þeim ógöngum sem hún er komin í, enda búin að brenna allar brýr að baki sér gagnvart fjölskyldunni; systkini hennar og jafnvel André Previn, faðir hennar, afneita henni.

Það er áberandi viðhorf í athugasemdakerfinu (mig grunar að sumar athugasemdirnar séu skrifaðar af fólki sem vinnur fyrir almannatengslafyrirtæki sem Woody Allen hafi ráðið) að Mia Farrow sé biluð og þoli ekki að henni hafi verið hafnað fyrir yngri konu (þó hún væri klikkuð réttlætir það ekki meðferðina sem hún varð fyrir). Svo er endalaust hamrað á því að þau hafi ekki verið gift; en þau voru saman í tólf ár, áttu eitt barn saman (sinatrastrákinn) og ættleiddu tvö (þaraf Dylan), það er gjörsamlega fáránlegt að segja að samband þeirra skipti engu máli þegar hann fer að vera með dóttur hennar bara vegna þess að þau voru ekki gift eða bjuggu saman. Sum barna hennar áttu Woody Allen fyrir pabba, hann var pabbi systkina hinna barna hennar.

Þá segir í athugasemdakerfinu að hún hafi haldið við Sinatra og þaraf leiðandi geti hún ekki hneykslast á sambandi manns síns og dóttur! En í New York Times kemur þetta fram um samband Miu Farrow og Woody Allen ári áður en sambandinu lauk. „Samband þeirra er betra en hjá mörgum giftum pörum. Þau eru í sífelldum samskiptum, og fáir feður verja eins miklum tíma með börnum sínum og Allen.“ Þarna var hann reyndar byrjaður að vera með Soon-Yi sem var þá nítján ára. En gagnvart blaðamönnum og umheiminum var hann ennþá maðurinn hennar Miu og var mikið með fjölskyldu sinni.

Eftir að þau slitu sambandi sínu hófust miklar deilur um forræði yfir börnum þeirra þremur. Og þá er spurningin: afhverju hefði Woody Allen átt að fara í forræðismál yfir þessum tveimur ættleiddu börnum ef hann hefði ekki litið á sig sem pabba þeirra? Það er fáránlegt að segja þá að börnin sem Mia Farrow ættleidi áður en þau hófu samband séu ekki stjúpbörn hans, og hann hafi litið þannig á þau (og að Mia hafi litið á þau sem stjúpbörn hans og börnin hafi litið á hann sem stjúpföður sinn).

Það er óþolandi þegar fólk lætur eins og þessi fjölskylduharmleikur sé eitthvað sem Woody Allen beri enga ábyrgð á. Svo ekki sé nú talað um kynferðisbrot gagnvart stjúpdótturinni Dylan, sem enginn virðist vilja ræða.
[Hér lýkur tölvupósti.]

En núna — árið 2013 — fylgir Dylan Farrow málinu eftir. Og það er vel að aðdáendur Woody Allen þurfi að horfast í augu við að frægikallinn er ekki allur þar sem hann er séður.** Og eins og Gísli segir:
„Við getum einblínt á fræga manninn og verk hans, reynt að horfa fram hjá ásökunum úr fortíðinni, krafist þess í athugasemdum á netinu að svona mál verði ekki rifjuð upp því þau séu svo óþægileg og komi okkur ekki við. Hinn kosturinn er að hlusta á þolandann, lýsinguna á kvalaranum og líðaninni.“

Það er kannski auðveldara fyrir mig sem er ekki aðdáandi Woody Allen, en ég skora á það fólk sem heldur fram sakleysi hans á öllum sviðum, að kynna sér málið og íhuga í framhaldinu hvort allt sé réttlætanlegt ef menn eru nógu frægir og hæfileikaríkir.

[Viðbót morguninn eftir að pistillinn er skrifaður:]
Í Fréttablaðinu eru tveir pistlar um ásakanir Dylan Farrow á hendur Woody Allen, þaraf leiðari Friðriku Benónýsdóttur. Hún segir að það sé hættulegt að hvetja fólk til að sniðganga verk listamanna. Ég tek fram að ég var ekki einusinni að hvetja lesendur til að sniðganga myndir Woody Allen, aðeins að þeir endurskoði afstöðu sína og hrökkvi ekki í vörn fyrir hann vegna mynda hans. Ég er alveg ósammála Friðriku um afstöðu til listar „vondra manna“. Mín afstaða er sú að dauðir listamenn græða ekkert á list sinni, en það gera núlifandi listamenn. Það er óþarfi að brenna bækur eða bíóhús eða fjarlægja listaverk úr söfnum, hvorki vegna lifandi eða dauðra listamanna, en fólki er í sjálfsvald sett hvort það sniðgengur list þeirra eða ekki. Það er hinsvegar óþægileg tilhugsun að listamenn komist upp með hvaðsemer í skjóli hæfileika sinna, fái viðurkenningar og græði á tá og fingri með blessun fjöldans. Hinn pistilinn skrifar Haukur Viðar Alfreðsson, honum er ég sammála að öðru leyti en því að mér fannst Annie Hall aldrei fyndin.

___
* Aðalheimild í tölvupóstum mínum var viðtalið í Vanity Fair í október en að auki leitaði ég upplýsinga í Wikipediagreinum um einstaklingana sem hér um ræðir.
** Ég hef áður skrifað um fræga kalla og kynferðisbrot, t.d. um Roman Polanski, Julian Assange, Dominique Strauss-Kahn og Jimmy Savile. Læt ótalið að telja upp skrif mín um íslensk frægðarmenni að sinni.



Efnisorð: , , ,