föstudagur, febrúar 21, 2014

Margvíslegir fordómar þrátt fyrir lagaleg réttindi

Ísland er eitt tiltölulega fárra ríkja í heiminum þar sem hinseginfólk hefur sömu lagaleg réttindi og aðrir, þarmeðtalið til hjúskapar. Einsog við vitum er mjög þrengt að réttindum hinseginfólks í Rússlandi og sumstaðar í heiminum er samkynhneigð hreinlega bönnuð.* Mandela — maður sem hafði fundið meira en flestir fyrir fordómum annarra — stóð fyrir því að mismunun gegn samkynhneigðum í Suður-Afríku, og frá 2006 hafa samkynja hjónabönd verið lögleg. Þó eru enn gríðarlegir fordómar í Suður-Afríku sem birtast m.a. með þeim hætti að karlmenn nauðga lesbíum í þeim yfirlýsta tilgangi að leiðrétta kynhneigð þeirra. Hér á landi er enn verið að berja á hinsegin karlmönnum og hinsegið fólk verður fyrir margvíslegum fordómum, þrátt fyrir að lögin mismuni þeim ekki lengur. Bandaríkjaforseti er þeldökkur og þykir mörgum það til marks um breytta afstöðu bandarísku þjóðarinnar til fólks af afrískum uppruna, en samt grasserar rasismi enn þar í landi og margoft má lesa í fréttum um hvíta karlmenn sem þykir eðlilegt að skjóta óvopnaða unglinga sem þeir telja hættulega vegna litarhaftsins.

Það er sannarlega framfaraskref að hópar sem áður var meinað um réttindi sín séu nú litnir sömu augum og aðrir í augum laganna, en það dugir ekki til. Stundum er svindlað á lögunum. Konur hafa lagalegan rétt á sömu launum og karlar en þrátt fyrir áratuga jafnan rétt til launa** er launamunur enn þó nokkur, svo ekki sé talað um viðvarandi lág laun í hefðbundum kvennastörfum. Og rétt einsog í tilviki hinseginfólks og þeldökkra, þá hafa lög, hvortsem þau eru um kosningarétt, hjúskap eða önnur sjálfsögð réttindi, litlu breytt um það viðhorf sem mætir konum oft í leik og starfi, og konur verða enn fyrir kynferðislegu áreiti og nauðgunum. Það þarf ekki að leita lengra en í Morfískeppnina til að sjá dæmi um viðhorf sem mætir konum þar sem umhverfið er mótað af karlmönnum. Andstaða margra þeirra við kvenréttindi og fyrirlitning á konum virðist vaxandi vandamál.

En það sem lagalega staðan gerir þó, er að ríkisvaldið hefur með lagasetningunni tekið þá afstöðu að allir hafi sama rétt og sömu tækifæri, í stað þess að draga bara taum gagnkynhneigðra hvítra karla. Sömu lög fyrir alla eru nauðsynlegur grundvöllur fyrir því að viðhorf breytist (auðvitað verður að verða einhver viðhorfsbreyting til að lögin breytist, a.m.k. meðal þeirra sem semja lögin) og með tímanum er auðvitað von til þess að hvítir gagnkynhneigðir karlar og annað fordómafullt fólk sjái að sér og hætti að berja á samborgurum sínum, mismuna þeim eða sýna þeim óvirðingu eða hatur í orði og verki. Vonandi gengur sú viðhorfsbreyting hraðar fyrir sig en jafnlaunabarátta kvenna. Það er of sorgleg tilhugsun að svartir strákar séu álitnir sjálfsögð skotmörk, hinseginstrákar verði enn barðir á djamminu eftir hálfa öld og stelpur kinoki sér við — eða hafi jafnvel gefist upp á — að taka þátt í keppni á vegum skólans síns eða annarri opinberri umræðu.

___
* Ármann Jakobsson hefur skrifað ferlega skemmtilega og áhugaverða grein þar sem hann gagnrýnir m.a. notkun orðanna „samkynhneigð“ og „hinsegin“ („Judy Garland er löngu dauð: Tilgáta um hvers vegna „hinseginhátíðin“ sé í vanda,“ Ritið 3:2013). Anna Pála Sverrisdóttir formaður Samtakanna '78 notar afturámóti hinseginorðið í Knúzgrein og ég leyfi mér að nota það orðalag hér.

** Alþingi samþykkti árið 1961 lög um launajöfnuð kvenna og karla. Samkvæmt nýjustu útreikningum eru 53 ár síðan.

Efnisorð: , , , , , , , ,