þriðjudagur, janúar 07, 2014

Kaldir karlar og kýrnar í Vatnsmýrinni

Ég hef ekkert vit á flugvélum eða flugrekstri og get ekki lagt mat á hvað gerðist þegar flugslysið varð um verslunarmannahelgina við Hlíðarfjall í Eyjafirði. En þegar ég las viðtalið við Björn Gunnarsson lækni og fyrrverandi læknisfræðilegan forsvarsmann sjúkraflugsins leitaði hugurinn í margar áttir. Ég hyggst rekja stuttlega það sem fór gegnum huga minn við lesturinn.

Fyrst er það þetta með einkavæðinguna. „Mýflug tók við sjúkrafluginu á Akureyri í ársbyrjun 2006 eftir útboð hjá ríkinu. Frá árinu 2010 tók félagið einnig við sjúkraflugi í Vestmannaeyjum og þjónar nú landinu öllu.“ Miðað við viðtalið fara flugmenn jafnt sem framkvæmdastjórinn sínu fram eins og þeim sýnist. Ekkert er gert ef einhver kvartar og lítið eftirlit virðist haft með þessum einkarekstri, og ekkert er gert ef einhver kvartar. Það þarf sannarlega að fara fram opinber rannsókn á „rekstri Mýflugs á sjúkrafluginu og þætti eftirlitsaðila.“

Það er líka eitthvað undarlegt að flugmönnum Mýflugs hafi liðist að A) taka með sér fjögurra ára barn í sjúkraflug, þar sem það getur orðið vitni að þjáningum veikra og slasaðra eða hreinlega horft upp á fólk deyja, B) láta veikan eða slasaðan sjúkling bíða meðan flogið er með „ost fyrir Bónus og tvo farþega fyrir flugstjórann.“

Umræðan um Reykjavíkuflugvöll snerist að miklu leyti um sjúkraflug,en einn flugstjóra Mýflugs var í stjórn „Hjartans í Vatnsmýrinni“. Hamrað var á því að það skipti öllu að hafa flugvöllinn þar sem hann er því ekki mætti lengja tímann sem sjúkir og slasaðir þyrftu að bíða eftir að komast á sjúkrahús. Biðtími sjúklinga virðist þó ekki hafa verið mönnum efst í huga þegar þeir létu flutning á fullfrískum farþegum og osti ganga fyrir, svo að slasaður eða veikur maður á Kárahnjúkum mátti bíða klukkutíma aukalega eftir að vera sóttur. En þar voru reyndar aðallega útlendir farandverkamenn, spurning hvort það hafi verið einhver þeirra sem beið slasaður, skipti það máli?

Ég gat því ekki annað en verið sammála þegar ég las athugasemd Jóns M. Ívarssonar (Jón er frábær!) sem segir í athugasemd við frétt þar sem segir að flugmenn Mýflugs hafi verið eins og kýrnar á vorin: „Frásagnir af athæfi sjúkraflugmanna Mýflugs fá röksemdir "Hjartans í Vatnsmýrinni" um að hver mínúta skipti máli til að hljóma dálítið undarlega.“

Þá eru frásagnir læknisins og þær ályktanir sem draga má af fréttaflutningi síðust daga af flugslysinu á Akureyri á þann veg að það er erfitt að verjast því að „glannaskapur“ og „töffarastælar“ komi upp í hugann. Mér varð hugsað til atviks af allt öðrum toga sem átti sér stað nýverið, um jólin, þar hlutust reyndar engin meiðsl af. En sá sem bar ábyrgð á atvikinu lét viðvaranir sem vind um eyru þjóta og var jafn skeytingarlaus um öryggi farþeganna sem hann bar ábyrgð á og aðstæður björgunarsveitarmanna og fjölskyldna þeirra.

Frétt um málið sagði frá Helga Jóni Davíðssyni leiðsögumanni, sem var einn af þremur leiðsögumönnum sem voru á ferð með 40 farþega í þremur rútum í aftakaverðri, enda þótt björgunarsveitarmaður hafi varaði sterklega við því að hópurinn færi þá leið sem farin var. Eftirá var Helgi Jón glaðhlakkalegur og sagði enga hættu hafa verið á ferðum (enda þótt rúður í rútunum þremur hafi brotnað svo túristarnir sátu berskjaldaðir fyrir veðrinu svo ekki sé minnst á hættuna þegar glerið brotnaði). Honum virtist alveg standa á sama um björgunarsveitarmennina sem höfðu þurft að rjúka út í veðrið til að bjarga honum og fólkinu. Einn þeirra bar honum þau skilaboð „frá dóttur sinni væri að slá ykkur utanundir fyrir að stela pabba sínum á aðfangadag“, það hrein ekki á hann frekar en annað. Íslenskir töffarar eru alvöru karlmenn og þeir láta ekki veðurspár eða öryggi farþega sinna, hvað þá tilhugsunina um að annað fólk fái að halda jól með fjölskyldu sinni, stoppa sig þegar þeir eru að sýna hvað þeir eru kúl.

Síðast en ekki síst þá stakk mig þegar ég las viðtalið, að þegar læknirinn segir frá fundi sínum með forsvarsmanni Mýflugs, segir hann að viðbrögð forsvarsmannsins hafi verið að „hann fór annaðhvort upp á háa c eða hló að manni“. Það eru einmitt sömu viðbrögð sem feministar fá við gagnrýni sinni á ýmislegt sem betur má fara í heimi karla. Þá rísa upp karlmenn og aðrir andfeministar og verða brjálaðir, eða þá að þeir hlæja að gagnrýni feminista og gera lítið úr henni, ef ekki feministunum sjálfum. Þegar reynt er að ræða við þá rífa menn bara kjaft, eins og sumir flugmenn Mýflugs þegar þeir voru staðnir að því að brjóta öryggisreglur. Það er nefnilega bannað fyrir alvöru íslenska karlmenn að líta í eigin barm og velta fyrir sér hvort allt sé í lagi í heimi karlmanna. Það er bara hlægilegt.

Efnisorð: , , ,