þriðjudagur, desember 03, 2013

Dagar mikilla tíðinda

Undanfarnir dagar hafa verið mikilla tíðinda. Á laugardag kynnti ríkisstjórnin skuldaniðurfærsluna og það hefði sannarlega þurft að eyða mörgum dögum og dálksentimetrum í að ræða hana, kosti hennar og galla. Ég er auðvitað í liði þeirra sem er á móti henni bara til að vera á móti, en finnst nú samt að það séu réttmætar athugasemdir að benda á að bankaskatturinn er ekki í hendi og „leiðréttingin“ eigi eftir að hljóta þinglega meðferð og samþykki. Hagsmunasamtök heimilanna eru hæfilega ánægð með tillögurnar „eins langt og þær ná“ og vara við að ríkissjóður taki þessa áhættu. Það eru því engin húrrahróp úr þeirri áttinni.

Í leiðréttingartillögum kemur fram að lánþegum er ætlað að taka út séreignalífeyrissparnað sinn til að greiða inná höfuðstólinn en eru þá bara að nota sína eigin peninga og það kallast varla skuldaniðurfærsla, auk þess sem láglaunafólk er líklega ekki upp til hópa með séreignasparnað svo að sú leið gagnast ekki öllum. Þá efast ég stórlega um að 'leiðréttingin' komi 80% heimila til góða, hvað með fólk sem tók húsnæðislán í óverðtryggðum erlendum gjaldeyri?

Leiðréttingin er minni
en kosningaloforð Framsóknar gengu út á, hvað þá ef miðað er við digurbarkalega gagnrýni Sigmundar Davíðs á allt sem síðasta ríkisstjórn gerði. En kannski er þetta allt saman gott og frábært, engin verðbólga fer af stað og allir verða glaðir. Sigmundur Davíð hefur áður veðjað á ólíklega niðurstöðu (Icesave) og kannski gengur þessi skuldaniðurfærsluleið upp sem hann hefur veðjað á núna. Hann stendur reyndar ekki einn við veðbankann, hann hefur formann Sjálfstæðisflokksins með, en áður hefur formaður þess flokks stutt við kosningaloforð Framsóknar þvert gegn allri skynsemi og fundist að „væntanlegur skaði fyrir samfélagið væri ásættanlegur kostnaður“. Við verðum að vona að það fari ekki eins illa og síðast.

Vodafone gagnalekinn kom svo einsog og sérpöntuð smjörklípa frá Tyrklandi, allir urðu uppteknir af hver sagði hvað við hvern og jesúminn-þvílíkt-orðbragð. Mörgum hlýtur að hafa liðið illa sem sáu aðra smjatta á einkaskilaboðum sínum, og ég lái þeim það ekki, eiginlega er þetta bara allt hið ferlegasta mál. (Það er ekki oft sem ég er sammála Ragnari Þór Péturssyni, en ég tek undir hvert orð í þessum pistli hans.)

Og svo rann upp mánudagsmorgunn, ekki friðsæll og ekki fagur. Hafi Vodafone lekinn verið áfall fyrir marga þá hlýtur sú tilfinning að heyra orðið „skotbardagi“ notað í frétt af innlendum vettvangi að hafa verið jafn vond fyrir okkur öll. Að lögregla hafi skotið mann til bana er áfall, „sakleysi íslenzks samfélags glataðist“, eins og Ólafur Þ. Stephensen orðar það (ég hefði samt í hans sporum sleppt því að nota „fumlaus“ í þessu samhengi). Og aldrei slíku vant ætla ég ekki að álasa lögreglunni. Það var kerfið sem brást. Aðstandendur mannsins sýna mikið æðruleysi með því að vera fyrst og fremst þakklátir fyrir að hann varð engum að bana.

Eftir allar þessar fréttir, allar sögulegar og a.m.k. tvær þeirra verulega vondar (hugsanlega fleiri), er því mikill léttir að geta hlegið. Og það gerði ég þegar ég las frétt um að utanríkisráðuneytið kvarti yfir að ESB hafi einhliða og án fyrirvara hætt samstarfi! Gunnar Bragi Sveinsson hefur auðvitað haldið að ESB ætlaði að borga IPA verkefni eins og ekkert hefði í skorist — 'ekkert' eins og það að hann hafi sjálfur einhliða og án fyrirvara sagt upp aðildarviðræðum við ESB. En nú er hann bara alveg hissa. Þá hló marbendill.

Efnisorð: , , ,