fimmtudagur, nóvember 14, 2013

Enn fleiri klikkaðar hugmyndir úr Eyjum

Það var ekki nóg með að Vestmanneyingar hefðu Árna Johnsen til að dæla út úr sér klikkuðum hugmyndum, Elliði Vignisson bæjarstjóri virðist ætla að feta dyggilega í fótspor hans.

Elliði sveiflast nú með hagræðingarhópnum sem honum finnst greinilega vanta fleiri hugmyndir, og kastar ekki bara fram vangaveltum um að ríkið hætti að reka Sinfóníuna og Þjóðleikhúsið, heldur sér nú matarholu í eldfjallaeyju sem reis úr hafi í Vestmannaeyjum fyrir fimmtíu árum.* Hann vill selja skipulagðar þyrluferðir með ferðamenn út í Surtsey og vill ræða hvers virði stórkostleg náttúra er ef enginn fær að njóta hennar. Það var Sjálfstæðismönnum líkt að setja verðmiða á Surtsey. Og ekki þarf að koma á óvart að þeir vilji græða á henni, eins og öllu öðru.

Það er ekki algengt að það spretti upp eyjar úr hafinu á vorum tímum og jarðfræðingar og líffræðingar hafa verið ákaflega áhugasamir að fylgjast með Surtsey. Fuglar hafa hreiðrað þar um sig, óáreittir að mestu af mannaferðum, skordýr finnast þar og plöntur hafa fest rætur á eynni. Það eitt að sjá hvaða plöntur berast þangað er merkilegt. Þyrlur eru ekki sérlega hljóðlátar og gætu haft verulega vond áhrif á fuglalífið. Skordýr geta borist með ferðamönnum og skófatnaður þeirra getur borið með sér fræ og plöntugró og breytt flóru eyjarinnar. Og eins og nú er altalað með ferðamannastaði þá fylgir ferðamönnum átroðningur. Enda sagði forstöðumaður Vistfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands að það væri full ástæða að hafa Surtsey lokaða almenningi næstu áratugi.

En hver hlustar svosem á svoleiðis röfl, verður ekki bara skipt um stjórn Náttúrufræðistofnunar til að fá sérfræðinga til að skipta um skoðun? Til vara getur hinn umhverfisvæni Sigurður Ingi skrifað uppá eitthvert plagg sem leyfir Eyjamönnum að selja ferðir til Surtseyjar, þeir eru strax farnir að ræða fjölda starfa við afgreiðslu og markaðssetningu, sbr. þessa athugasemd.


Það er gott að vita að til er Vestmanneyingur sem hefur heyrt minnst á þróun mannsins. Verra er ef Eyjamönnum með bæjarstjórann í broddi fylkingar tekst að hafa áhrif á friðun Surtseyjar.

___
* [Viðbót] Elliði hefur áður viðrað þessar hugmyndir sínar, nánar tiltekið árið 2007. Viðhorf hans til Surtseyjar var sannarlega við hæfi á því herrans ári þegar hann sagði að Surtsey væri „klárlega söluvara hvað ferðaþjónustu varðar“. Svo kom eitthvað svokallað babb í bátinn en nú sér Elliði fram á betri tíð þegar aftur eru komin stjórnvöld sem líta á náttúruna sem söluvöru.

Efnisorð: , , , ,