mánudagur, nóvember 04, 2013

Bara í útlöndum

* Varúð - eftirfarandi lestur gæti valdið vanlíðan *

Í desember síðastliðnum varð kona fyrir hópnauðgun í Nýju Delí á Indlandi. Afleiðingarnar af nauðguninni og misþyrmingunum urðu þær að konan lést af sárum sínum nokkrum dögum seinna. Fréttin af þessu voðaverki barst um alla heimsbyggðina. Enda þótt málið sé alþekkt þá ætla ég að rekja það hér í tilefni af því að mennirnir sem frömdu verknaðninn hafa nú áfrýjað dauðadómnum sem þeir fengu í haust. Þá voru þeir allir dæmdir sekir, líka sá þeirra sem hafði verið dauður í nokkra mánuði.

Árásin á konuna og vin hennar átti sér stað 16. desember 2012 í bíl sem þau héldu að væri almenningsfarartæki. Vini konunnar var misþyrmt og hann rotaður. Í bílnum voru auk þeirra fimm karlkyns farþegar og bílstjóri. Eftir að allt er afstaðið var konunni og vini hennar hent út. Innan sólarhrings var búið að handtaka bílstjórann og alla farþegana: Ram Singh (34 ára), Mukesh Singh (26), Vinay Sharma (20), Pawan Gupta (19), Akshay Thaku (28) og sautján ára ónafngreindur unglingur.

Svo gerist þetta, í tímaröð.

19. desember. Pawan Gupta segist sekur.

29. desember. Konan deyr.

3. janúar 2013. Lögreglan leggur fram kæru á hendur fullorðnu karlmönnunum fimm fyrir nauðgun, morð, mannrán, spilla sönnunargögnum og tilraun til að myrða vin konunnar. Mukesh Singh, Vinay Sharma, Akshay Thakur og Pawan Gupta neita allir sök. Samkvæmt þeim eru þeir saklausir (líka Pawan Gupta sem áður hafði játað á sig glæpinn).

Nú hefði heimsbyggðin öll átt að hætta að tala um þetta mál í virðingarskyni við þá sem höfðu setið saklausir í fangelsi í rúman hálfan mánuð, ákærðir fyrir hræðilegan glæp. Við vitum jú að menn eru saklausir uns sekt er sönnuð. Og sekt er aldrei sönnuð nema menn játi eða séu dæmdir sekir af til þess gerðum dómara.

Hér er því um að ræða menn sem sitja saklausir í fangelsi, bornir þungum sökum. Eftirleiðis verður því fjallað um þá á þeim nótum.

10. janúar. Lögmaður saklausu mannanna segir að fólkið sem varð fyrir árásinni hafi sjálfu verið að kenna hvernig fór, og að hann hafi aldrei heyrt um nauðgunarmál þar sem sómakærar konur komi við sögu. Vinur konunnar hafi þaraðauki átt að koma henni til hjálpar og þetta sé allt alfarið honum að kenna.

Febrúar. Réttarhöld hefjast yfir sakleysingjunum.

11. mars 2013. Ram Singh finnst hengdur í klefa sínum. Ekki hefur verið úr því skorið hvort hann, þessi saklausi maður, fyrirfór sér vegna þess að hann var sakaður um glæp sem hann framdi ekki eða hvort fangaverðir myrtu hann saklausan. Hann var aðeins 34 ára að aldri, blessuð sé minning hans.

6. ágúst. Réttarhöldin standa enn yfir og tekist er á um sekt eða sýknu sakborninganna. Mukesh Singh segist fyrir rétti vera blásaklaus af glæpnum því hann hafi bara keyrt bílinn en ekki nauðgað stelpunni. Hann segir reyndar að Ram Singh (sem dó saklaus í fangelsi), Akshay, Pawan Gupta, Vinay Sharma og unglingurinn hafi verið í bílnum, en það er auðvitað bara bull, enginn þeirra var í bílnum (eins og þeir hafa margsannað í réttarhöldunum) og þeir eru allir saklausir. Þó loga enn netheimar um allan heim þar sem þeir eru kallaðir öllum illum nöfnum.

31. ágúst. Unglingadómstóll dæmir sautján ára unglinginn sekan. Hann fær þriggja ára fangelsisdóm að frádregnum átta mánuðum sem hann hefur þegar setið inni. Hann var talinn hafa gengið harðast fram gegn konunni og nú er semsagt komið í ljós — með dómi — að hann er sekur. Helvítið á honum.

10. september. Mukesh Singh, Vinay Sharma, Akshay Thakur og Pawan Gupta fundnir sekir um nauðgun og morð (og sitthvað fleira) eftir átta mánaða réttarhöld. Sönnunargögn voru m.a. DNA og vitnisburður Mukesh auk þess sem vinur konunnar bar kennsl á þá. Þeir voru allir dæmdir til dauða. Jafnframt var Ram Singh fundinn sekur en ekki dæmdur til dauða því hann var þegar dauður.

Dómur hefur fallið, allir karlmennirnir sem voru ásakaðir um að hafa nauðgað og misþyrmt konunni hafa verið fundnir sekir og eru því djöfuls nauðgarar og ógeð.

En ekki fyrr.

Frá því þeir voru handteknir í desember og fram í september voru þeir saklausir. Blásaklausir englar sem mátti ekki orði á halla. En um leið og dómarinn sagði 'sekir', þá bara búmm, urðu þeir sekari en fjandinn.

Það finnst það kannski einhverjum skrítið.


Efnisorð: