miðvikudagur, september 25, 2013

Framsóknarráðherra hefur tekið fyrirsjáanlega ákvörðun

Það var fyrirsjáanlegt að núverandi ríkisstjórn myndi ráðast gegn náttúrunni, en samt er hálfgert sjokk að lesa tilkynningu Sigurðar Inga umhverfis- og auðlindaráðherra að hann hafi ákveðið að afturkalla lög um náttúruvernd sem voru samþykkt á Alþingi rétt fyrir þinglok í vor.*

Ingimar Karl bendir á samhengið milli þessarar ákvörðunar og að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fengu það í gegn að gildistöku laganna var frestað til 1. apríl 2014. Þeir ætluðu sér auðvitað aldrei að leyfa þeim að ganga í gildi.

Páll Ásgeir skrifar einnig um þessa ákvörðun Framsóknarráðherrans og segir að „spor Framsóknarflokksins í umhverfisvernd og náttúruverndarmálum hræði og því setti ugg að mörgu náttúruverndarfólki þegar ákveðið var í upphafi núverandi stjórnarsamstarfs að gera umhverfisráðuneytið að nokkurskonar skúffu í skrifborði Sigurðar Inga Jóhannssonar. Helstu afrek Framsóknarflokksins á sviði eyðileggingar náttúrunnar hafa fram að þessu verið virkjunin við Kárahnjúka þar sem kvótakóngnum Halldóri Ásgrímssyni var reistur dýrkeyptur minnisvarði með óbætanlegum náttúruspjöllum.“

Náttúruverndarsamtök Íslands eru heldur ekki sérlega glöð með yfirlýsingu Sigurðar Inga og segja hana vera til marks um „fjandsamlega afstöðu hans til náttúruverndar, hann hafi allt á hornum sér. Fyrst lýsi hann vilja sínum til að leggja niður umhverfisráðuneytið, þá hafi hann tekið undir kröfu iðnaðarráðherra um að Norðlingaölduveita yrði byggð þvert á niðurstöður rammáætlunar og lög þar um og nú vilji ráðherra rífa niður náttúruverndarlög sem voru nær fjögur ár í undirbúningi“.

Hann er ekkert að fara í felur með áætlanir sínar, hann Sigurður Ingi, hann segir blákalt að „haft verður samráð við hagsmunaaðila“ við samningu nýrra náttúruverndarlaga. Það er hægt að halda því fram að með því eigi hann við jeppakallana** sem heimta að fá að burra með hávaða um öll fjöll og firnindi og „stunda hömlulausan akstur utan vega hér eftir sem hingað til“ (eins og Páll Ásgeir orðar það), en það er ekkert sérstaklega erfitt að sjá glitta í Landsvirkjun bakvið þessa ákvörðun Framsóknarráðherrans.

Fyrirsjáanlegt, já. Svekkjandi samt. En fyrst og fremst ömurlegt og sorglegt.

___
* Ingimar Karl bendir á að Sigurður Ingi geti ekki „ákveðið að afturkalla lög um náttúruvernd“ því hann hafi ekki valdheimild til að afturkalla lög. „Ráðherrar setja ekki lög. Ráðherrar afturkalla ekki lög. Þeir hafa rétt til þess að leggja frumvörp fram á Alþingi eins og alþingismenn. Meira vald hafa þeir ekki yfir lagasetningu, hvað sem þeir kunna að vilja sjálfir“. Kannski er orðalagið miðað að hugarfari ráðherrans fremur en raunverulegu valdi hans, en allt um það, hann ætlar að leggja fram frumvarp til að fella lögin úr gildi (áður en þau taka gildi) og leggja fram nýtt frumvarp til náttúruverndarlaga.

** Mikið held ég að þeir verði glaðir, loksins kominn alvöru kall í embættið sem hugsar um þá.

Efnisorð: ,