miðvikudagur, ágúst 21, 2013

Ólíkt hafast þau að fyrstu hundrað dagana

Nú eru u.þ.b. 100 dagar frá því að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við völdum. Mörgum verður hugsað til ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem var öllu afkastameiri á fyrstu 100 dögum sínum. Hún hafði enda sett fram 100 daga aðgerðaáætlun og að þeim tíma liðnum hafði hún uppfyllt 42 af 48 atriðum (sumir segja minna). Það þótti okkur sem kusum ríkisstjórnina allgott en vafasamt er að kjósendur núverandi ríkisstjórnar séu jafn glaðir.

Gauti Eggertsson segir í pistli að í Bandaríkjunum séu fyrstu 100 dagarnir oft taldir mikilvægir til þess að mæla dug og kjark nýrra stjórnvalda, og nefnir Franklin D. Roosevelt og Obama sem dæmi um forseta sem hafi tekið til hendinni svo um munaði. Hann telur svo upp þau tvö atriði sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur gert á fyrstu hundrað dögunum sínum: 1) Lækkað skatta á útgerðarmenn og boðað niðurskurð í fjármálum, 2) ráðist að Ríkisútvarpinu. Svo fór ríkisstjórnin í sumarfrí.

„Lítið spurðist einnig af helsta baráttumáli Framsóknarmanna sem voru skuldamál heimilanna. Að vísu var samþykkt þingsályktunartillaga um þetta mál á sumarþingi þegar búið var að ganga frá forgangsverknunum að breyta lögum um RÚV og lækka skatta á útgerðarmenn. Sigmundur Davíð sagði þessa þingsályktunartillögu vera stærstu aðgerðir í heimi.
Stærstu aðgerðir í heimi voru, sumsé, að skipa nefnd til að leggja til tillögur um aðgerðir.

Ekkert spurðist hins vegar til þessara nefndar, fyrr en fyrir nokkrum dögum þegar í ljós kom að hún hafði ekki einu sinni verið skipuð. Þá var loksins drifið í því 100 dögum eftir að ríkisstjórnin tók til valda. Nú skilst mér að það séu um 30 dagar til stefnu fyrir nefndina að skila tillögum.

Á fyrstu 100 dögum sínum umbreytti FDR bandarísku þjóðfélagi á meðan það tók SDG 100 daga til að skipa nefnd og setja fram áætlun um að fresta fjárlögum.“

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir hafði tekið við völdum eftir kosningarnar 2009 töldu andstæðingar vinstristjórnarinnar dagana og þóttust vissir um að ekki tækist að klára verkefnalistann. Sigmundur Davíð og Bjarni Ben eru ekki undir þeirri pressu. Þeir eru nefnilega þegar búnir að hygla útgerðinni með svo opinskáum hætti að ljóst er að kosningaloforð Framsóknar um skuldaniðurfellingu verða ekki uppfyllt. Alveg örugglega ekki næstu hundrað dagana og líklega aldrei.

Efnisorð: ,