fimmtudagur, júlí 18, 2013

Enn um WOW og vændi

Um daginn bar fyrir augu mín eintak af WOW magazine (nei, ég var ekki að ferðast með WOW). Ég hafði nú hreinlega ekki vitað af þessum snepli fyrr en þar sem ég les allt sem fyrir augu ber ákvað ég að fletta þessu þriðja tölublaði hins merka fyrirtækis. Áður en yfir lauk varð ég hissa, en þó allsekki hissa, sem er alltaf skrítin blanda. Sömu tilfinningu fæ ég þegar dómstólar sýkna kynferðisbrotamenn eða fella yfir þeim fáránlega væga dóma, svo og þegar þjóðhátíðarnefnd í Vestmannaeyjum fær landsþekktan kvenhatara sem kærður hefur verið (en ekki sýknaður) fyrir kynferðisbrot, þrátt fyrir yfirlýsingar um að barist sé gegn nauðgunum á þjóðhátíð.

Nema hvað, hissa og ekki hissa augnablikið kom þegar ég sá auglýsingarnar frá tveimur 'kampavínsklúbbum' í blaðinu (á síðum 140 og 146).

Fréttablaðið skýrir frá því að það hafi sent útsendara sína á tvo kampavínsklúbba í vikunni (annar þeirra auglýsir í þriðja tölublaði WOW blaðsins, ég hef enn ekki skoðað tvö hin fyrri tölublöð og veit því ekki um auglýsingar þar). Kampavínsklúbbarnir segja að þar sé hægt að kaupa „flott vín í dýrari kantinum og fengið að ræða við stúlkurnar sem hér vinna í staðinn“. Í frétt blaðsins er tekið fram að hávaði frá tónlist er mikill á stöðunum, og má af því þá ályktun draga að samræður séu torveldar.

Annað sem gæti gert innihaldsríkar samræður eigi sér stað er tungumálakunnátta starfskvenna, en á báðum stöðunum sem útsendarar blaðsins heimsóttu voru erlendar konur við vinnu, og á öðrum staðnum töluðu þær „eilitla ensku“, á hinum voru þær ekki til viðtals nema gegn gjaldi og því minna vitað um tungumálakunnáttu þeirra.

Það sem segir þó mest um hverskonar starfsemi fer fram á kampavínsklúbbunum er niðurlag fréttarinnar.
Þær sögðust búa allar saman í lítilli blokkaríbúð og því vera mjög nánar. Ein kvennanna var greinilegur yfirmaður þeirra og virtust konurnar leita til hennar eftir samþykki um næstu skref í samskiptunum. Í boði var að fara afsíðis í bakherbergi. Þar gátu þær veitt heimildarmanni „það sem hann vildi“ án þess að frekari útskýringar fylgdu. Tíu mínútur með stúlku þar kostuðu tuttugu þúsund.

Það er þessi starfsemi sem WOW auglýsir. Og kemur ekki á óvart.

Efnisorð: ,