sunnudagur, júní 30, 2013

Landsdómur og Sjálfstæðisflokkurinn

fagnar Geir Haarde því að Evrópuráðið hafi sagt að Landsdómur sé frat og Bjarni Ben ætlar að leggja hann niður (dóminn, ekki Geir).

Það kallar á smá upprifjun.

Í fyrsta lagi þá hafði Jóhanna Sigurðardóttir margsinnis farið fram á við þingið að landsdómur yrði með stjórnarskrárbreytingu lagður niður. Undir það tók Sjálfstæðisflokkurinn ekki — og þá ekki Geir.

Í öðru lagi þá var blásið til stjórnlagaþingskosninga (sem Hæstiréttur dæmdi ólöglegar að undirlagi Sjálfstæðismanna) og síðan stjórnlagaþings (sem var endalaus þyrnir í augum Sjálfstæðismanna) sem lagði fram drög að stjórnarskrá sem hefði lagt niður landsdóm. Undir það tók Sjálfstæðisflokkurinn ekki — og þá ekki Bjarni.

Núna vill Bjarni með handafli leggja landsdóm niður — en þá stendur þetta smáræði í veginum sem er gamla stjórnarskráin sem enn er í gildi.

Það er ekki hægt að ljúga uppá Sjálfstæðisflokkinn. Hann sér alveg sjálfur um að snúa uppá veruleikann.

Efnisorð: ,