sunnudagur, júní 16, 2013

Ævintýralegur hagnaður útgerðarinnar

Jón Steinsson hagfræðingur gagnrýnir lækkun veiðigjaldsins í grein í Frbl. í gær. Þar segir hann að
„frumvarp sjávarútvegsráðherra [geri] ráð fyrir því að einungis tæplega 18% af auðlindaarðinum í sjávarútvegi renni til þjóðarinnar en ríflega 82% renni til útgerðarinnar.“
Hann bendir á að „veiðigjaldið er einungis lagt á umframhagnað – þ.e. hagnað umfram þann hagnað sem útgerðin þyrfti til þess að fá eðlilegan arð af því fé sem lagt hefur verið í reksturinn.“* Hann segir jafnframt að vegna þess að veiðigjaldið er bara lagt á umframhagnað hafi það
„ekki áhrif á hegðun fyrirtækjanna (nema hvað þau greiða vitaskuld lægri arðgreiðslur til eigenda sinna).“
Hér setur Jón innan sviga það sem er auðvitað kjarni málsins, a.m.k. fyrir útgerðarmafíuna. En það sem meira er um vert, Jón bendir á að hvort sem veiðigjaldið verður lækkað eða verður á þann veg sem fyrrverandi ríkisstjórn fékk samþykkt fyrir á þingi:
„Hagnaður útgerðarinnar er ævintýralegur í báðum tilvikum.“
Fyrir nokkrum dögum lagði Bolli Héðinsson fram áhugaverða spurningu varðandi veiðigjaldið sem hann bendir réttilega á að eru byrðar sem Alþingi samþykkti að útgerðin ætti að bera en nú á að velta yfir á þjóðin. Hann spyr hvernig forsetinn muni bregðast við.

Og nú spyr ég: hver ætlar að hefja undirskriftasöfnun gegn lækkun veiðigjalds með áskorun til forseta að skrifa ekki undir slík lög? Ekki að ég hafi álit á ÓRG, því ég lít svo á að hann sé handbendi auðvaldsins, rétt eins og forsætisráðherrann hans. Ég held semsagt ekki að hann myndi neita að skrifa undir lækkun veiðigjalds — en það má reyna.

____
* Hér vantar reyndar sárlega skilgreiningu á „eðlilegum arði“ en látum það liggja milli hluta.

Viðbót: Jón Steinsson skrifar stuttan en snarpan bloggpistil þar sem hann bendir á að ráðamenn þjóðarinnar haldi fram dellu á borð við það að lækkun veiðigjalds muni auka tekjur ríkisins, og segir: „Það er þekkt niðurstaða í sálfræði að það er hægt að fá stóran hluta fólks til þess að trúa nánast hvaða dellu sem er ef hún er endurtekin aftur og aftur. Þetta virðist vera stefna stjórnvalda varðandi veiðigjaldið.“

Viðbót: Agnar Kr. Þorsteinsson hefur ásamt fleirum sett af stað undirskriftarsöfnun —  á veidigjald.is — sem endar á borði forseta ef þingið samþykkir lög um lækkun á veiðigjaldi. Skrifa undir hér. (Muna þarf að svara tölvupóstinum sem berst í kjölfar undirskriftarinnar, smella þarf á hlekk til að staðfesta undirskriftina endanlega — annars fellur hún dauð niður).

Efnisorð: