föstudagur, maí 31, 2013

Lof og last

Ekki gafst tækifæri til að fjalla um fjölmörg mál í maímánuði en til að bæta úr því verður útdeilt lofi og lasti í snarheitum. Fyrst verður þó bent á nokkra góða pistla sem lesendur ættu ekki að láta framhjá sér fara.

Frábærar vangaveltur Hildar Ýrar Ísberg um „íþróttir fyrir alla“.

Páll Ásgeir Ásgeirsson bendir á að viðhorf heimamanna eru ekki endilega náttúrunni fyrir bestu.

Kristín Einars skrifar opið bréf þar sem hún hvetur Sigmund Davíð til að snúa af virkjanaleiðinni og rekur framleiðsluferli áls. (Auðvitað eru engar líkur á að SDG taki mark á þessu. Hafi hann lesið Draumalandið — eða bara fylgst með — veit hann þetta allt saman, hafi hann ekki lesið það þá hefur hann hvorteðer engan áhuga og hefur ekki héðanaf).


LOF
Gunnsteinn Þorgilsson, bóndi að Sökku í Svarfaðardal, á lof skilið fyrir góðverk sem hann vann á dögunum við annan mann, Baldur Þórarinsson frá Bakka. Þeir gerðu hálmdyngju fyrir álftir að verpa í en í óefni stefndi með varpið. Svona eiga bændur að vera.

Lofsverður samtakamáttur feminista um allan heim varð til þess að Facebook mun endurskoða hvernig brugðist verður við kvenhatri og öðrum hatursáróðri á sem notendur birta.

Það er lofsvert að einn hluthafa í Hval hf (Birna Björk Árnadóttir) vill að félaginu verði slitið því hvalveiðihluti félagsins standi ekki undir sér og afurðir seljist treglega.

Lof fær HSÍ fyrir að mismuna ekki konum og körlum (öfugt við KSÍ).

Ánægjulegt er og lofsvert að samkynhneigðir geta nú gifst í Frakklandi eins og aðrir borgarar. Sko Frakka, þetta tókst þeim þó að kaþólikkar (og að öllum líkindum fleiri trúfífl) meðal þeirra hafi verið með æsing yfir þessum sjálfsögðu réttindum.


LAST

Kjósendur, sérstaklega þeir sem kusu Framsóknarflokkinn.

Fleiri eðjót: ferðamenn sem halda að ísjakar séu leikmynd fyrir skemmtilegar uppákomur.

Enn einu sinni komst upp að KSÍ er einbeitt í að mismuna konum og körlum með öllum ráðum. Nú hefur komið í ljós að það þykir svo ómerkilegt að dæma kvennaknattspyrnu að laun dómara eru lægri heldur en þeirra sem dæma karlafótbolta, þó völlurinn sé jafnstór, leikmennirnir jafnmargir og leiktíminn jafnlangur.

Mismunun gagnvart knattspyrnukonum er útbreidd: Akureyrarbær stundar líka kynjamismunun.

Ekki má gleyma skammarlegri meðferð á Króötunum sem fluttir voru úr landi, sannkallaðir gripaflutningar. Það er ömurlegt að íslensk stjórnvöld með fulltingi Útlendingastofnunar skuli koma svona fram við fólk.



Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,