þriðjudagur, apríl 30, 2013

Kúguð til að ganga með barn fyrir aðra

Þessi frétt lét ekki mikið yfir sér í blaðinu í dag, og ég á varla von á að talsmenn staðgöngumæðrunar haldi henni mikið á lofti.

„Bandarísk kona í Bretlandi hefur verið dæmd í fimm ára fangelsi fyrir að hafa neytt fjórtán ára dóttur sína til að verða þungaða. Barnið ætlaði konan að ala upp sjálf.

Konan notaði gjafasæði og þvingaði dóttur sína til að ganga með barn fyrir sig. Konan átti þrjú ættleidd börn en hafði verið neitað um að ættleiða það fjórða. Stúlkan sagði fyrir rétti að hún hefði ekki viljað ganga með barn en hefði vonast til þess að móðir hennar myndi elska hana meira ef hún hlýddi. Stúlkan varð ófrísk fljótlega en missti fóstur. Móðirin gerði í kjölfarið sex tilraunir til viðbótar áður en stúlkan varð aftur þunguð og eignaðist son árið 2011, þegar hún var sautján ára.

Ljósmæður á spítalanum þar sem drengurinn fæddist fylltust hins vegar grunsemdum þegar stúlkan vildi gefa syni sínum brjóst en móðir hennar bannaði það vegna þess að hún vildi ekki að hún tengdist barninu. Spítalinn tilkynnti mál mæðgnanna til barnaverndar. Stúlkan, sonur hennar og yngri systkini hennar tvö voru send í fóstur.“

Þetta mál er auðvitað ekki dæmigert fyrir staðgöngumæðrun, enda var ekki farið í gegnum 'eðlilegt' ferli varðandi staðgöngumæðrun (sem er leyfð í Bretlandi). Dóttirin þar að auki undir lögaldri og annað í þeim dúr. Konan sjálf er auðvitað snarklikkuð.

En.

Ég og fleiri sem erum andvíg því að staðgöngumæðrun verði leyfð hér á landi höfum bent á að það sé mjög erfitt að standa í þeim sporum að vera beðin um að ganga með barn fyrir ættingja eða vinkonu sem getur ekki eignast börn með eðlilegum hætti. Sama á við um stelpugreyið í fréttinni.
„Stúlkan sagði fyrir rétti að hún hefði ekki viljað ganga með barn en hefði vonast til þess að móðir hennar myndi elska hana meira ef hún hlýddi.“
Hvort það á að skrifa þetta á ást hennar á móður sinni, meðvirkni eða að hún hafi verið svo tilfinningalega svelt að hún hafi viljað gera hvað sem er til að móðir hennar elskaði hana meira, er erfitt að segja. En sannarlega notfærði móðurómyndin sér það.

Það er ákkúrat þetta, tilfinningalega kúgunin, sem þetta mál á sameiginlegt með því sem hef varað við* verði staðgöngumæðrun leyfð: Þrýstingurinn að gera systur sinni eða vinkonu þennan greiða gæti orðið ansi mikill og erfitt að standa gegn honum. Það á jafnt við um þær sem eru orðnar sjálfráða og unglinginn í dæminu hér að ofan.

Meira segja í þingsályktunartillögunni sem lögð var fram hér um árið var tekið fram að erfitt yrði að koma í veg fyrir þetta, jafnvel þegar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni: „Þó er þessi leið ekki gallalaus enda mögulegt að úrræðið leiði til óeðlilegs þrýstings á ættingja konu eða pars sem ekki getur eignast barn á náttúrulegan hátt.“

Fólk sem er fylgjandi staðgöngumæðrun mun auðvitað bara líta á þetta hræðilega mál í Bretlandi sem alls óskylt mál, og skella skollaeyrum við aðvörunum.


___
* Ég hef talsvert skrifað um staðgöngumæðrun, hér ræddi ég m.a. þrýsting á ættingja og vinkonur, og hér er annar pistill um þingsályktunartillöguna.

Efnisorð: , ,