fimmtudagur, apríl 25, 2013

Gott fordæmi virkar en lagasetning hefur úrslitaáhrif

Fyrir ekki svo mörgum árum þótti sjálfsagt að reykt væri allstaðar. Reykingamenn fengu að reykja á vinnustöðum, í flugvélum og hvar sem þeir komu. Væru þeir gestir á heimili þar sem ekki var reykt, tóku þeir samt sem áður upp sígarettuna og púuðu sem mest þeir máttu, nema þeim væri beinlínis bannað það. Ekki nennti allt reyklaust fólk að taka þann slag. Það var ekki fyrr en sett voru lög um bann við reykingum á vinnustöðum sem fór að renna upp ljós fyrir reykingamönnum og þeir fóru flestir að reyna að muna eftir að biðja um leyfi til að reykja. Fram að því hafði áróður gegn reykingum náð til sumra en allsekki allra þó dropinn hafi vissulega holað steininn. En það þurfti að setja reykingamönnum skorður með lögum svo þeir sæju að sér.

Kvennaframboð níunda áratugarins hristu verulega uppí rótgrónum stjórnmálaflokkum og þar urðu menn að hugsa sinn gang ef þeir áttu ekki að missa atkvæði kvenna til Kvennalistans. Konur áttu eftir það fleiri sæti á framboðslistum allra flokka. Þær voru þó sjaldnast í efstu sætum sem leiddi til þess að þær voru lengi enn fámennar á þingi. Vinstriflokkarnir Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur tóku upp kynjakvóta til að tryggja að konur ættu greiðari aðgang á þing og í sveitastjórnir, síðar setti Samfylkingin sér þá reglu að nota fléttulista í prófkjörum en uppstillingarnefnd Vinstrihreyfinginnar-græns framboðs raðaði á lista framanaf en nú hafa prófkjör tekið við að mestu og kynjajafnvægið batnaði enn við það. Fordæmi vinstriflokkanna hefur fjölgað konum í þeirra röðum á þingi og sett pressu á hina flokkana. Þá hefur lagasetning um hlutfall kvenna í stjórnum hlutafélaga verið enn eitt lóð á vogarskálarnar. Nú væri hver sá flokkur sem ekki sýndi fram á nokkurnveginn jafn hlutfall karla og kvenna á framboðslistum og að konurnar ættu ekki (mikið) síðri möguleika á þingsæti, talinn argasta afturhald* og mætti búast við að konur myndu í stórum stíl sniðganga framboðið þegar í kjörklefana kemur.

Það er því ekki til marks um tilgangsleysi kynjakvóta** og fléttulista eða gagnsleysi lagasetninga að Píratar og Sjálfstæðismenn geta — þrátt fyrir að hafna kynjakvótum í orði kveðnu — hreykt sér af jöfnu hlutfall kvenna og karla á framboðslistum,*** heldur niðurstaða árangurs þeirra sem gengu gegn viðteknum venjum og sátu undir ákúrum fyrir vitleysisgang og frekju.

Nú er það orðin viðtekin venja að konur komist ofarlega á framboðslista, áður var það undantekning sem átti að duga öllum konum.

Eitt síðasta virki reykingamanna, veitingastaðir, voru illþolanlegir reyklausu fólki allt þar til sett voru lög um að þar væri alfarið bannað að reykja. Þau voru sett því veitingamenn höfðu þverskallast við að fylgja reglum um reyklaus svæði. Lagasetningin hafði úrslitaáhrif, nú er hvergi reykt. Áður en langt um líður mun þykja fáránlegt að nokkrum manni hafi dottið í hug að reykja á veitingastöðum. Ójafnt hlutfall kynja á þingi vekur vonandi í nálægri framtíð álíka furðu.

_____
* Talandi um argasta afturhald. Hægri grænir eru með karla í efsta sæti í 5 kjördæmum en konu í einu kjördæmi. Í NA-kjördæmi eru karlar í fyrstu 17 sætunum, þá kemur ein kona er í 18. sæti og svo karlar í 19.-20. sæti. Í Suðvesturkjördæmi eru karlar í fyrstu 20 sætum, svo ein kona í 21.sæti og karlar í 22.-26. sæti.

** Knúzið hefur spurt flokka um afstöðu þeirra til jafnréttismála og femínisma. Ein spurningin lýtur að kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja. Þar eru það bara Sjálfstæðisflokkur, Píratar og Flokkur heimilanna sem hafna kynjakvótum með öllu. Píratar koma með ítarleg svör þó að enn sé jafnfréttisstefna flokksins ekki til — en auðvitað vilja þeir óheft aðgengi að klámi. Aðrir flokkar svara að mestu leyti mjög skikkanlega, Húmanistar vilja t.d. að kynferðisbrot fyrnist ekki (því miður eru þeir hlynntir sáttaleið milli þolenda og gerenda, en annars var svar þeirra alveg 80% mjög fínt) og Björt framtíð fékk plús í kladdann fyrir að vera hlynnt sænsku leiðinni. Aðrir flokkar svöruðu einnig vel (óþarft að telja alla romsuna upp) en Lýðræðisvaktin, Landsbyggðarflokkurinn og Vinstri græn fengu fullt hús stiga.

*** Fléttulistar tryggja ekki að konur komist á þing, því að ef aðeins efsti maður á lista kemst inn og efsti maðurinn er karl þá er til lítils að vera með konu í öðru sæti. Kjördæmin eru sex og alls eru 45 karlar í fyrsta sæti framboðanna en 27 konur. Píratar eru einir með jafnt hlutfall karla og kvenna í efsta sæti. Framsókn, Sjálfstæðisflokkur, Björt framtíð, Samfylking, Regnboginn, Flokkur heimilanna og Lýðræðisvaktin, tefla fram 4 körlum og 2 konum í efsta sæti. Dögun og Vinstri græn eru einu flokkarnir sem hafa fleiri konur en karla í efsta sæti á framboðslistum: 4 konur og 2 karla hvor. Athygli vekur að Landsbyggðarflokkurinn sem býður bara fram í einu kjördæmi er með þrjár konur í þremur efstu sætunum. Ég myndi kjósa þær ef ég gæti, bara útá það.

Efnisorð: , ,