sunnudagur, apríl 07, 2013

Egg, karfa, talning

Það kom mér ekki stórkostlega á óvart að sjá að ég ætti mesta samleið með Vinstri grænum í Alþingisprófi DV. Mun þó skoða önnur framboð og stefnuskrár þeirra til að gefa þeim möguleika á að vinna atkvæði mitt. Það er þó öruggt að ég þarf ekki að leggjast í miklar rannsóknir til að vita að ég mun ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Ég fagna lélegu fylgi Sjálfstæðisflokksins – og horfi með skelfingu til fylgisaukningar Framsóknarflokksins. Það er flokkur sem hefði átt að leggja niður fyrir löngu.

Ég fór að skoða hvað ég hefði sagt andstyggilegt um Framsóknarflokkinn gegnum tíðina (fjölmargt) og þá rakst ég á gamla bloggfærslu þar sem ég lýsti skoðun minni á ýmsum flokkum sem buðu fram í síðustu borgarstjórnarkosningum. Þetta er úr útlistun minni á einhverju fyrirbæri sem hét Reykjavíkurframboðið, en mér fannst stefna framboðsins „pínulítið galin“:
„Hún gengur útfrá því sem gefnu að hægt sé að veðsetja óselt byggingarland í Vatnsmýrinni og því verði til nógir peningar til að gera hitt og þetta í borginni. Í fyrsta lagi þá er furðulegt að tala um að taka lán fyrir rekstri borgarinnar sem útgangspunkt í fjármálarekstri hennar […] Svo byrjar maður ekki að tala um að eyða peningum sem á eftir að fá að láni út á eign sem á eftir að vita hvort einhver vill lána útá ... Þetta er grundvöllur allra rekstraráætlana og stefnu Reykjavíkurframboðsins. Fyrr má nú telja eggin áður en þau eru komin í körfuna.“
Framsóknarflokkurinn ætlar nú, skilji ég barbabrelluna rétt, að nota peninga sem erlendir kröfuhafar bankana eigi að gefa Íslendingum umyrðalaust, til að lækka „skuldir heimilanna“. Þetta smáatriði að peningarnir eru kannski ekki svona auðfengnir virðist ekkert vefjast fyrir Framsóknarflokknum — eða kjósendum.

Í annarri bloggfærslu sagði ég um kjósendur að mótstaða þeirra gegn lýðskrumi væri á núllpunkti. Fari sem horfir munu þessar kosningar staðfesta það.

Efnisorð: