laugardagur, mars 16, 2013

Karlmaður, líttu þér nær

Stundum byrja ég á einhverjum ósið og á erfitt með að hætta honum. Lestur blogg.gáttarinnar er svoleiðis ósiður (lestur Fréttablaðsins er annar; hef ekki enn afþakkað það inná heimilið). Mér finnst of þægilegt að sjá í sviphendingu hvaða bloggarar hafa skrifað pistil þann daginn, í stað þess að þræða hvert og eitt blogg til að sjá hvort þau hafa verið uppfærð, og stundum rekst ég jafnvel á eitthvað áhugavert. Oft fer það samt þannig að ég verð bara pirruð á tímaeyðslunni. Þannig fór tildæmis þegar ég álpaðist til að elta fyrirsögn sem sagði: Femínistar á Íslandi vaknið!

Bloggpistilinn undir þessari fyrirsögn skrifar bloggari sem kallar sig Sleggjuna (sem ekki má rugla saman við Hvellinn, enda þótt ég lesi ekki síðuna þeirra nógu oft til að sjá mun á þeim kumpánunum) og hann hefur greinilega áhyggjur af stöðu stúlkna.

„Á hverjum degi eru 39 þúsund stúlkur á barnsaldri neyddar í hjónaband, margar hverjar seldar eins og hver annar nautpeningur til að auka tekjur fjölskyldunnar. Þess eru dæmi að stúlkur séu barðar til dauða, þeim nauðgað eða refsað á annan grimmilegan hátt.“
Það er auðvitað jákvætt að hann beri hag stúlkna fyrir brjósti. En það er skipunin sem fylgir, sem truflar mig. Hann segir nefnilega: „Þetta er það sem femínistar skulu einbeita sér að.“

Ég get haldið langa ræðu sem svar við þessari skipun. Ekki síst vegna lokaorða Sleggjunnar þar sem hann segir: „Hverjum er ekki sama um kynfæratalningu á ritstjórastólum eða gestum í Silfur Egils þegar þetta er í gangi.“

Ræða mín myndi t.a.m. benda á að karlmenn eru sífellt að segja feministum fyrir verkum ( sbr. lið c og x hér ) — og að það sé löngu orðið þreytt að þeir skuli skipa konum fyrir verkum. Þá sé það líka afar vel þekkt smjörklípuaðferð að benda feministum á að baráttan á heimavelli sé lítilvæg miðað við alvöru vandamál í fjarlægum útlöndum. Fjarlægðin er einmitt mikilvæg, því þá telja karlmennirnir sig vera stikkfrí frá gagnrýni; það er varla hægt að kenna þeim um hvernig staða mála sé í Langtburtistan.

En nú vil ég segja þetta, við Sleggjuna og aðra þá sem finnst að okkur feministunum eigi að vera sama um það sem gerist í garðinum heima hjá okkur því það sé skógareldur hinumegin á hnettinum (og trúið mér, okkur er ekki sama um stöðu kvenna á heimsvísu):

Hvernig væri að íslenskir karlmenn gefi út yfirlýsingar, leggist í auglýsingaherferðir, eða gerist sjálfboðaliðar í því skyni að stöðva karlmenn hvar sem er í heiminum svo þeir neyði ekki stúlkur á barnsaldri til að giftast sér, selji þær, berji þær til dauða, nauðgi þeim eða refsi á annan grimmilegan hátt.

Ofbeldi gegn konum í heiminum verður ekki stöðvað nema allir karlmenn leggi sitt lóð á vogarskálarnar, líka karlmenn sem búa á Íslandi þar sem feministar leyfa sér að ræða stöðu kvenna á fjölmiðlum.

Efnisorð: , , ,