miðvikudagur, mars 13, 2013

Falskar nauðgunarkærur

Mér var bent á ansi áhugaverðan málflutning karlmanns sem er mjög umhugað um að véfengja nauðgunarkærur sem konur leggja fram. Ríkharður Egilsson sendir inn slóðir á þrettán fréttir um falskar nauðgunarkærur sem svar við greinarstúf sem kynntur er með þessum orðum:
„Mörgum er kappsmál að halda því á lofti að þolendur séu líklega að ljúga. Það er ekki öfundsverð lífshugsjón og baráttumál.“
Það er eins og Ríkharður skilji ekki sneiðina.

Fyrir þau sem ekki nenntu að lesa allar greinarnar sem Ríkharður vísaði á hef ég tekið saman helstu atriði þeirra. Ég get ennfremur sparað ykkur þann lestur með því að segja strax að niðurstaðan er ekki sú að fjölmargir karlmenn sitji saklausir í fangelsi (en því halda andfeministar fram og vilja heldur að 99 sekir menn gangi lausir og finnst það góð röksemd fyrir því að dæma enga karla). Hinsvegar er það rétt að Ríkharður fann 13 dæmi um konur sem hafa á undanförnum fimm árum verið sakaðar um að leggja fram falskar nauðgunarkærur, 7 þeirra hafa hlotið dóm fyrir vikið. Hér er reyndar ekki um tölfræðilega úttekt mína á fölskum nauðgunarkærum á heimsvísu — en Ríkharður leitaði fanga í fréttum úr fjórum heimsálfum — heldur niðurstaða úr þeim fréttum sem Ríkharður viðraði sem sönnun fyrir því að „þolendur væru líklega að ljúga“.

Það virðist engu skipta fyrir Ríkharð hvort nauðgunarkærurnar enda með dómi fyrir þá sem eru ranglega ásakaðir (sem gerist ekki oft samkvæmt fréttum Ríkharðs, hann fann ekki nema tvö slík dæmi) heldur spyr: „er ykkur virkilega alveg sama þó saklausir menn sitji í Fangelsi?“ Svar: þeir gera það bara ekki, ekki nema í örfáum undantekningartilvikum en aftur á móti gufar stór hluti nauðgunarkæra upp í kerfinu (ætli þær fari til nauðgunarkæru-heaven?) og sakfellingar eru mjög fáar.

En skoðum dæmin sem Ríkharður framvísaði.

Bretland, 6. ágúst 2008: 13 ára stelpa lagði fram kæru á hendur karlmanni sem sat inni í ár. Hún hafði áður kært karlmenn (ótilgreindan fjölda manna) fyrir sömu sakir.

Bandaríkin, 29. september 2008: Kona kærði tvo menn með nokkurra ára millibili. Annar hafði þegar afplánað nærri 4 ár (af 6-12 ára dómi) þegar í ljós kom að hin ákæran var uppspuni. Konan ekki nafngreind.

Bretland, 23. desember 2008: Kona dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir að eyða tíma og mannafla lögreglu í að rannsaka kærur sem hún lagði fram um m.a. mannrán, nauðgun og fjárkúgun. Hún er nafngreind.

Gríska eyjan Kos, 9. ágúst 2010: Sænsk kona virðist hafa leikið þann leik að leggja fram kærur á hendur karlmönnum og hirða tryggingafé (hún er kölluð 'con artist' í fréttinni) , hún hefur ekki fundist. Tekið er fram að einn þeirra fjögurra Breta sem lentu í klóm hennar hafi setið í varðhaldi. Grískur lögreglumaður nefnir það sérstaklega að breskir karlmenn séu oft handteknir fyrir slíkar sakir.

Bretland, 5. nóvember 2010: Kona fær 16 mánaða fangelsdóm fyrir að eyða tíma og mannafla lögreglu. Hún virðist ekki hafa bent á neinn sérstakan en einn maður tekinn til yfirheyrslu. Konan er nafngreind.

Bretland, 20. nóvember 2010: Kona hefur lagt fram átta upplognar kærur á jafnmarga karlmenn, fjórir þeirra voru leiddir fyrir dómstóla og voru sýknaðir, einn (þeirra?) var sakfelldur fyrir líkamsárás. Konan fékk 12 mánaða skilorðsbundin dóm, sérstaklega er tekið fram að hún eigi við andlega örðugleika að stríða. Hún er nafngreind.

Bandaríkin, 14. september 2011: Kona tilkynnti nauðgun, benti ekki á neinn geranda. Lögregla eyddi þremur vikum í umfangsmikla rannsókn en þá játaði konan að hafa spunnið söguna upp. Hún var kærð og dæmd í þriggja ára skilorð auk samfélagsþjónustu. Konan er nafngreind í fréttinni. [Viðbót:] Tekið er fram við hvað konan starfaði og að ferill hennar sé í rúst.

Bandaríkin, 26. júní 2012: Karlmaður sat í varðhaldi í tvo mánuði vegna upploginna saka, hann lögsótti svo lögreglukonu persónulega fyrir handtökuna og krafðist fébóta. Ekkert mál virðist vera í gangi gegn konunni sem kærði hann og ku stunda að kæra menn ranglega fyrir kynferðisbrot.

Bretland, 25. ágúst 2012: Kona kærði nauðgun og kærði síðar kærasta sinn fyrir ofbeldi, báðar kærur uppspunnar. Tekið er fram að nauðgunarkæran leiddi til handtöku og yfirheyrslu. Konan fékk dóma fyrir bæði brotin og er nafngreind í fréttinni.

Bretland, 26. febrúar 2013: Kona dæmd í 16 mánaða fangelsi fyrir að leggja fram alls ellefu tilhæfulausar kærur. Enginn virðist hafa verið kærður eða dæmdur í kjölfarið, en tekið er fram að einn maður hafi verið handtekinn og yfirheyrður.

Bretland, 4. mars 2013: Kona fær 15 mánaða dóm fyrir að afvegaleiða lögregluna með því að halda því fram m.a. að innbrotsþjófur hefði nauðgað sér og misþyrmt. Karlmaður var handtekinn vegna þess að hann passaði við lýsingar hennar (hún ásakaði hann semsagt ekki beint), hann hafður í varðhaldi en sleppt. Konan er nafngreind.

Nýja Sjáland, 6. mars 2013: Kona saksótt fyrir falskar kærur, ekki nefnt að neinn hafi verið handtekinn eða fangelsaður.

Indland, 12. mars 2013: Almennt um að lögregla í borginni Ludhina á Indlandi kvarti undan því að nú hellist yfir allskyns upplognar kærur, þ.á m. um nauðgun, mannrán og þjófnað, í kjölfar hópnauðgunarmálsins alræmda. Engar tölur um nauðgunarkærur sérstaklega.

Niðurstaða: Tveir menn fangelsaðir, einn í löngu varðhaldi. Sumar nauðgunarkærurnar virðast ekki einu sinni hafa gengið út á að benda á neinn sérstakan mann sem geranda í málinu.

Það að einhver saki einhvern ranglega um nauðgun er auðvitað alvarlegt mál, bæði fyrir þann sem er ásakaður og samfélagið (sem ber kostnað af tilgangslausum rannsóknum). En ekki síst grafa falskar kærur undan trúverðugleika allra brotaþola. Það breytir samt ekki því að það er afar afar sjaldgæft að slíkar kærur endi með sakfellingu saklausra manna og þeir lendi í fangelsi. Nógu sjaldan er nú sakfellt í nauðgunarmálum til að það gefur auga leið að það gerist ekki oft.

Í grein eftir Önnu Bentínu Hermansen kom fram að „nýleg evrópsk rannsókn sýnir að að 2-9% kynferðisbrotamála, eru byggð á röngum sakagiftum sem er sambærilegt við aðra brotaflokka. Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarmóttöku vegna nauðgana í Fossvogi eru 1-2% þeirra mála sem þangað berast byggð á fölskum grunni.“

Semsagt: fáar konur sjá nauðgara sína fá dóm, fáir menn sem eru kærðir fyrir nauðgun eru dæmdir, örfáir eru ranglega ásakaðir og enn færri ranglega dæmdir.

En — eins og sagði í aðfararorðunum sem vitnað var til hér að framan:

„Mörgum er kappsmál að halda því á lofti að þolendur séu líklega að ljúga“.

Efnisorð: , ,