miðvikudagur, mars 06, 2013

Steinunn Stefánsdóttir hættir á Fréttablaðinu

Margoft hef ég vitnað í leiðara Steinunnar Stefánsdóttur og jafnvel birt þá í heilu lagi eða lítið stytta.* Eitt sinn skrifaði ég að mér fyndist að Steinunn ætti að skrifa alla leiðara Fréttablaðsins, enda hefur hún haldið á lofti feminískum sjónarmiðum í leiðurum sínum.

En nú er búið með að Steinunn skrifi leiðara Fréttablaðins. Hún hefur verið látin taka pokann sinn** og í stað hennar kemur Mikael Torfason. Mikael Torfason! Þetta eru vond, verri, verstu umskipti sem ég hef heyrt um lengi.

Ekki veit ég hvar Steinunni ber niður næst, en vonandi verður það vettvangur sem sæmir henni og hennar ágætu skrifum. Ég þakka henni ánægjulegan lestur og óska henni velfarnaðar.

___
* Alls hef ég vísað í tólf leiðara Steinunnar með einum eða öðrum hætti (það vill svo til að hún hefur starfað í tólf ár á Fréttablaðinu), hér eru nokkrir þeirra eins og þeir hafa birst hér á blogginu.

2.desember 2008: Launamunur kynja er úreltur
11. mars 2009: Þegar vopnin snúast í höndunum
24. október 2009: Eftirspurn kallar á framboð
28. nóvember 2009: Nauðgun án frekari valdbeitingar
2. apríl 2010: Þrír mikilvægir áfangar
25. október 2010: Þess vegna kvennafrí
2. ágúst 2011: Hér eru allir mjög sáttir.

** Hér verður ekki farið útí þá sálma að ræða stöðu kvenna sem starfa í fjölmiðlum, fjölda þeirra og átakanlegan skort á þeim í ritstjóra og fréttastjórastöðum, enda þótt það væri viðeigandi.

Efnisorð: ,