miðvikudagur, febrúar 27, 2013

Landsfundarólíkt

Þórður Snær Júlíusson bendir á í leiðara sínum að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi árum saman viljað markaðssetja sig sem sáttastjórnmálamann en á landsfundi Sjálfstæðismanna hafi hún stigið af þeirri braut. (Ég man reyndar ekki alveg hvenær fyrst bar á þessum sáttatón hjá henni, var það ekki eftir hrunið?) Hanna Birna hefur verið vinsæl í borgarmálunum og samkvæmt könnununum er hún einnig vinsæl á landsvísu. Þær vinsældir sem hún hefur notið hafa einmitt verið vegna þessarar sáttastefnu hennar og um daginn mældist Hanna Birna vinsælasti stjórnmálaforinginn (sem er ansi magnað þar sem hún er í minnihluta í borgarstjórn) á eftir Ólafi Ragnari Grímssyni (sem hætti reyndar sem stjórnmálaleiðtogi að margra mati á síðustu öld en hefur tekist að rugla svo marga í ríminu undanfarin ár að hann telst með í svona könnun).

Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins enda þótt hann hafi komið verst út af stjórmálaleiðtogum í könnuninni: er semsagt verst þokkaður allra. Til mótvægis við hinn óvinsæla Bjarna var Hanna Birna gerð að varaformanni en kom þá öllum á óvart og steig fram sem herskár foringi. Það verður áhugavert að sjá hvort þessi stefnubreyting hennar eykur enn á vinsældirnar meðal almennings og hverju það skilar í greiddum atkvæðum í vor.

Á sama tíma og Sjálfstæðismenn fylltu Laugardalshöllina og nærliggjandi bílastæði, gangstéttir og grasbala, héldu Vinstri græn einnig sinn landsfund. Þar var Katrín Jakobsdóttir kjörin formaður, hún hefur um langt skeið verið vinsælasti ráðherrann (ekki síst fyrir að vera eldklár og vel máli farin) og í fyrrgreindri könnum kom hún best út af þeim sem sitja á þingi. Hún sýndi alveg sömu framkomu á landsfundinum og hún gerir endranær, umbreyttist ekki í stríðsherra sem rakkar niður andstæðinginn. Þvert á móti lagði hún áherslu á að hún ætti enga óvini. Engum sögum fer af bílastæðavandamálum á þeim landsfundi en nýkjörni formaðurinn líkti Vinstri grænum við rútu.

Bílar og rútur urðu þannig óvænt umræðuefni. Það má reyndar sjá hegðun og orðalag landsfundargesta jafnt sem flokkanna sjálfa endurspeglast í afstöðu þeirra til bifreiða. Annarsvegar er einkabíll sem potar sér áfram hvar sem hann getur, skemmir út frá sér og tekur ekki tillit til náungans. Hinsvegar er hugsað út frá samfélaginu: sem flestir með og allir ferðast á sama farrými.

Efnisorð: