föstudagur, mars 08, 2013

Hvað er málið með fóstureyðingar?

Eitt af fjölmörgum baráttumálum kvenna* um allan heim er rétturinn til að hafa stjórn á frjósemi sinni. Andstæðingarnir koma flestir úr röðum heittrúaðra sem telja það skyldu kvenna að eignast sem flest börn, og eru því jafnt á móti fóstureyðingum og getnaðarvörnum. Hér á landi höfum við aðgang að hvoru tveggja og sjaldan heyrast raddir sem vilja taka af konum réttinn til fóstureyðinga.

Þessvegna varð ég mjög hissa þegar Sölvi Tryggvason tók fóstureyðingar fyrir í Málinu. Þátturinn hefur af og til vakið athygli út fyrir áhorfendahóp Skjáseins, eins og þegar Sölvi lokkaði barnaníðinga úr felum. Það sem af er þessa árs hafa umfjöllunarefnin verið: útigangsmenn, undirheimar, barnaníð og fóstureyðingar.

Ég verð að segja að ég skil ekki alveg forsendurnar fyrir því að hafa fóstureyðingar með í þessum pakka. Eru fóstureyðingar vandamál á borð við að fólk sé á götunni? Er það samfélagsmein sem þarf að uppræta eins og barnaníð? Eða hvað er það sem Sölvi vildi vekja athygli á?

Hafi þátturinn átt að vekja umræðu í samfélaginu — á forsendum samfélagsmeins og einhvers sem þarf að uppræta — þá virðist það hafa mistekist. Ég sá hann ekki sjálf (hef ekki aðgang að Skjáeinum) en með gúggli fann ég bara einn vettvang þar sem þátturinn var ræddur: bland.is.

Skrifað var um þáttinn á umræðuþræði meðan á þættinum stóð og eitthvað eftir að sýningu lauk og sé að marka frásagnir þar þá var mjög mikil slagsíða á viðmælendum þeim sem Sölvi valdi til að koma fram í þættinum. Talað var við fjórar manneskjur sem voru mjög neikvæðar gegn fóstureyðingum en tvær manneskjur sem voru hlynntar þeim. Þetta er reyndar allt og sumt sem ég veit um þáttinn en það gefur vísbendingu um að Sölvi hafi með vali sínu á viðmælendum viljað leggja lóð á vogarskálar andstæðinga fóstureyðinga.*

Hvaða skaðræðislega samfélagsvandamál ætli hann taki fyrir næst, getnaðarvarnir?

___
* Til mótvægis bendi ég því á pistla sem ég hef skrifað um fóstureyðingar, ég hef áður vísað á þessa pistla og á eflaust eftir að gera það oftar.

Réttur kvenna til að eyða fóstri

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum

Fóstureyðingar verða að vera löglegar

Takmarkanir á réttindum kvenna í Bandaríkjunum (þarna var Bush yngri enn forseti)

Fóstureyðing eða ættleiðing

Helstu andstæðingar fóstureyðinga — karlmenn

Helstu andstæðingar fóstureyðinga — kaþólikkar

Fóstureyðingar valda (ekki) ævilangri sektarkennd

Fóstureyðing — þegar guð drepur saklaus börn í móðurkviði

Eru fóstureyðingar réttlætanlegri þegar barnið gæti orðið fatlað?

Allskonar konur fara í fóstureyðingu

Fóstur finna ekki til sársauka

Börn að ala upp börn

Efnisorð: , , ,