fimmtudagur, mars 28, 2013

Að loknu þingi

Það varð ekki góður endir á þinginu. Á síðustu metrunum fór nánast allt í handaskol og mikilvæg málefni náðu ekki fram að ganga. Eins og ég hef áður sagt þá fannst mér ekki liggja lífið á að semja nýja stjórnarskrá en mér þykir samt afar leitt hvernig fór fyrir stjórnarskrármálinu, að því leyti skil ég vel sárindi Birgittu Jónsdóttur.

Persónulega fannst mér enn sárara að sjá Steingrím taka hamskiptum og hygla kjördæmi sínu á mjög opinskáan hátt — og svona rétt í kjölfarið á fréttum um Lagarfljót er helvíti hart að verið sé að höggva svo nærri Mývatni.

Vatnalögin og kvótamálið voru gríðarlega mikilvæg mál sem ekki komust í gegn, það er líka verulega svekkjandi. Ég skil vel að Jóhönnu Sigurðardóttir hafi fundist nýliðið þing vera dapurt tímabil, það var ömurlegt að horfa uppá hvernig stjórnarandstaðan hegðaði sér, eins og hún hefur reyndar gert allt kjörtímabilið.

Ríkisstjórnin gerði sitt besta að til að virða stjórnarandstöðuna og gefa henni rými, en eftirá að hyggja virðist það hafa verið mikil mistök. Í stað þess að stoppa málþóf og beita valdi og þvinga mál í gegn var sífellt reynt að tala við stjórnarandstöðuna og semja við hana eins og þar færi heiðarlegt fólk með góðan vilja. Það gekk ekki upp.

Sjálfstæðisflokkurinn, æfur yfir að vera ekki við stjórnvölinn, bakkaður upp af LÍÚ og samtökum atvinnurekenda auk allra helstu bankabófa landsins, brá fæti fyrir ríkisstjórnina ekki bara í hverju málinu á fætur öðru heldur til þess að önnur mál kæmust ekki á dagskrá. Málþófið sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt uppi með dyggum stuðningi Framsóknarflokksins, sinnar helstu hækju, lamaði þingið og drap t.a.m. stjórnarskrármálið. Framsóknarflokkurinn vill auðvitað ekki jafnt vægi atkvæða eins og nýja stjórnarskráin hefði kveðið á um, Sjálfstæðisflokkurinn bregst eins og Drakúla við hvítlauksknippi þegar talað er um auðlindir í þjóðareign. Að því leyti var stjórnarskrármálið miðlægt í allri umræðu, gegn því var barist á öllum stigum málsins.

Þannig lauk þingi vetrarins og þannig lauk því kjörtímabili þar sem hér sat vinstri stjórn sem tók við skítahaug og reyndi að moka honum burt við andskotans engar undirtektir. En nú virðast kjósendur vilja — þrátt fyrir að býsnast yfir óþolandi umræðuhefð á þingi — fá þá við stjórnvölinn sem hafa haft uppi mestu gífuryrðin, þæft mál sem lengst og þvælst fyrir öllum góðum málum.

Það er, ef eitthvað er, enn dapurlegra en allt hitt.



Efnisorð: ,