miðvikudagur, mars 20, 2013

Rekstrargrundvelli kippt undan okurbúllum

Á mánudag var samþykkt frumvarp Steingríms J. Sigfússonar, ráðherra og fyrrverandi formanns VG, um neytendalán. Hin nýju lög setja smálánafyrirtækjum þröngar skorðar til gjaldtöku, þau mega nú aðeins rukka 10% af því sem þau gerðu áður.

Útlán — samtök fjárlánafyrirtækja án umsýslu, eða smálánafyrirtækjanna — sendi umsögn um frumvarpið til efnahags- og viðskiptanefndar. Í henni sagði:
„Það er mat Útlána að verði sett inn ákvæði í lög um neytendalán sem kveður á um 50% hámark á árlega hluttfallstölu kostnaðar verði það til þess að smálánafyrirtækin leggist af þar sem starfsemin verður ekki lengur arðbær.“

Það sem mér hefur fundist einna ógeðlegast við smálánafyrirtækin,* fyrir utan hina gróðafíknu starfsemi þeirra, er sú staðreynd að þau spruttu upp eftir bankahrunið. Ekki nóg með að búið væri að ræna stóru bankana innanfrá heldur var tekið til við að leggjast á fólk sem hafði aldrei haft nema smápeninga milli handanna. Árangur áfram, ekkert stopp.

Ég fagna því að nú hillir loks undir að smálánafyrirtækin leggi upp laupana.

___
* Nánar má lesa um skoðun mína á smálánafyrirtækjum hér, og svo frábæra úttekt Láru Hönnu með ótal vísunum hér.


Efnisorð: ,