fimmtudagur, mars 21, 2013

Bakþankar og aðrir lestrarþankar

Ein ástæða þess að ég les Fréttablaðið er að mér þykir gott að lesa meðan ég maula morgunmatinn. Fréttirnar í blaðinu hafa flestar birst deginum áður á öllum fréttamiðlum á netinu en ég er sólgin í að lesa greinar og pistla af öllu tagi sem eru ýmist eftir blaðamenn, pistlahöfunda eða fólk útí bæ.

Nú berast ótt og títt fréttir af uppsögnum pistlahöfunda blaðsins og hafa Kolbeinn Proppé, Brynhildur Björnsdóttir og Sigurður Árni Þórðarsson verið látin hætta bakþankaskrifum, og er það leitt. Sigurður Árni segir í dag, í aðsendri grein, frá ástæðum þess að pistlar hans eru héreftir afþakkaðir af hálfu ritstjórnar.
„Ástæða uppsagnar var ekki að pistlar mínir væru lélegir og ekki heldur að ég væri prestur. Ástæðan var aldur minn. Blaðið þyrfti að sækja inn á æskumarkaðinn. Lesendum Fréttablaðsins í hópi 50 ára og eldri hefur fjölgað, er stærsti lesendahópurinn og er þar með mikilvægur markhópur auglýsenda. Í stað þess að styrkja þjónustuna við þetta fólk ætlar blaðið aðallega að sækja inn í æskugeirann með yngri höfundum.“
Þarna þykist ég sjá handbragð Mikaels ritstjóra og styrkir það mig í þeirri skoðun að koma hans á blaðið muni gera það verra en áður.

Fleiri ágætir pistlahöfundar hafa skrifað reglulega í blaðið (þó ekki bakþankapistla), og má þar nefna Guðmund Andra Thorsson og Jón Orm Halldórsson. Sá síðarnefndi birti í dag áhugaverða grein, eins og þessi brot sýna.
„Flestum sem fá pólitísk völd virðist koma á óvart hvað erfitt er að beita þeim til gagns. Þetta er ört að versna en er þó ekki nýtt. Möguleikar stjórnmálamanna til að ráða niðurstöðum með því valdi sem þeim er gefið hafa alltaf verið minni en mönnum er títt að ætla. Nákvæmar greiningar á liðnum atburðum leiða í ljós að viðtekin söguskoðun er oft byggð á miklum einföldunum. Samhengið á milli þess sem ráðandi menn vildu og þess sem varð er oftast flóknara og minna en viðtekin saga gefur til kynna.

Glöggir og hreinskilnir stjórnmálamenn í öllum álfum heimsins kvarta undan þessu máttleysi sín á milli, ekki síst við útlenda kollega. En einn er sá hópur sem stjórnmálamenn ræða þó ekki við um þessi vaxandi vandræði. Það eru kjósendur. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að gagnvart kjósendum verða stjórnmálamenn að sýnast þess megnugir að breyta því sem þeir lofa að breyta. Leikrit stjórnmálanna byggist á því. Kjósendur kvarta jafnan hástöfum undan litlum efndum en krefjast um leið nýrra loforða.“
Lokaorð Jóns Orms eru þessi.
„Af öllum þessum ástæðum ættu menn ekki að láta kosningar, þetta svolítið deiga verkfæri lýðræðisins, snúast um einstök mál. Þau munu hvort sem er öll fá annan endi en lofað er. Heldur ættu menn að spyrja um almenn leiðarljós fólks og flokka í þeim þétta skógi af sífellt flóknari og óvæntari álitaefnum sem fram undan er. Það skiptir kjósendur meira máli að vita hvar þeir hafa menn, svona almennt talað, en að heyra um einstaka drauma þeirra. Nákvæm fyrirheit lenda fljótt í fjallháum bunkum svikinna kosningaloforða. Almenn afstaða ræður hins vegar hvernig menn vinna úr flóknum og óvæntum málum.“

Meðan ég á von á svona lesningu við morgunverðarborðið mun ég lesa þetta annars vandræðablað.

Efnisorð: ,