miðvikudagur, apríl 17, 2013

Vert að lesa

Undanfarið hef ég lesið afar margt sem ég er innilega ósammála, en jafnframt margt sem ég tek undir að mestu eða öllu leyti. Flest tengist lesefnið kosningum en ekki allt.

Dæmi um góða grein sem er allsendis ópólitísk (en hinsvegar gott innlegg í feminíska umræðu) er sú sem Sólveig Anna Bóasdóttir skrifaði um fyrirgefningu. Hún er guðfræðingur og skrifar hugvekjuna með biblíuna til hliðsjónar en kemst að þeirri niðurstöðu að fyrirgefning er ekki alltaf svarið.

Aðrar greinar sem eru um kosningarnar og ég mæli með að fólk lesi (eða áframsendi á fólk sem þegar hefur ekki lesið þær) eru eftirtaldar.

Grein Jóns Kalmans Stefánssonar þar sem hann spáir í hver sé lærdómur okkar af hruninu, sé tekið mið af fylgi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.

Pistill Einars Vilhjálmssonar spjótkastara (sem ekki hefur verið talinn „sérstakur vinstrimaður í pólitík“) þar sem hann ræðir skammdrægt minni kjósenda sem bitnar á VG.

Pistill Önnu Bentínu Hermansen þar sem hún ræðir hrunið, klappstýru útrásarvíkinganna, lærdóminn sem við ætluðum að draga af kreppunni, og loforðin sem stór hluti kjósenda virðist ætla að gleypa við.

Pistill Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur er samt allra bestur. Ef ég væri ekki svona hófstillt manneskja hefði ég hrópað húrra að loknum lestrinum.

Ég birti hann í heild.

„Íslenska þjóðin vill fullkomna heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð efnahag. Hún vill skóla þar sem allir geta fundið menntun við sitt hæfi endurgjaldslaust. Hún vill hlúa að börnum og að fólk fái að eldast með reisn. Hún vill anda að sér hreinu lofti þegar hún kemur út á morgnana og er stolt af einstæðri náttúru og vill njóta hennar sumar jafnt og vetur.

Í rauninni er þetta hjartalag íslensku þjóðarinnar talsvert róttækara en stefnuskrá flokkanna sem bjóða fram til Alþingis og þess vegna rembast úfinhærðir hugsjónamenn við að stofna smáflokka í von um að þessi góði hugur brjótist eins og á úr leysingum og hægt verði að stofna þetta sæluríki íslensku þjóðarinnar. En allt kemur fyrir ekki.

Íslenska þjóðin vill ekki greiða skatta. Og hún hefur samúð með öllum sem vilja ekki greiða skatta. Þess vegna þurfa sjúkir að greiða sífellt meiri gjöld á sjúkrahúsum, fyrir lyf og fyrir læknisheimsóknir. Og þess vegna eru sett á skólagjöld. Og þess vegna hímir fólk í biðröðum eftir matargjöfum af því bætur og lægstu laun hrökkva ekki fyrir nauðþurftum.
Þannig var það fyrir hrun – og þannig er það líka eftir hrun.

Eini munurinn er sá að reynt var síðustu fjögur árin að nota skattkerfið til að jafna lífskjörin í dýpstu efnahagslægð sem íslensk þjóð hefur upplifað eftir að hún fékk sjálfstæði. Þannig átti milli – og lágtekjufólk ekki að þurfa að reka samfélagið að stærstu leyti, án hjálpar fjármagnseigenda og hátekjufólks.

Þeirri skattpíningu efnafólks lofar Sjálfstæðisflokkurinn að aflétta. Og Framsóknarflokkurinn bætir um betur og lofar því að verja 300 milljörðum til að fella niður fimmtung af öllum skuldum fólks þótt útreikningar Seðlabankans sýni að meira en helmingur fjárins myndi lenda í vasa þeirra sem eiga 30 milljónir eða meira í hreina eign.

En þjóðin vill líka að fiskurinn í sjónum, vatnið og orkan í fossunum og iðrum jarðar, sé sameign okkar allra. Þeir sem noti þessi gæði eiga þess vegna að greiða fyrir það gjald til samfélagsins.

Þjóðin snerist samt gegn veiðigjaldi. Auðvitað vilja útgerðarmenn ekki borga skatt, hugsaði fólk. Það vill enginn. Það verða því ekki lagðir vegir fyrir þann pening, né heldur verða reknir fyrir hann skólar og peningarnir verða ekki nýttir í til að ýta undir frumkvöðlastarfsemi, rannsóknarstarf, listir og menningu. Þeir sem fengu gefins kvóta geta hinsvegar selt hann dýrum dómum og braskað fyrir arðinn eða lagt hann á bankareikning í útlöndum.

En hvað með hreina loftið, vatnið, fossana og orkuna í iðrum jarðar? Var ekki verið að gera skoðanakönnun, þar sem meirihluti þjóðarinnar vill alls ekki fleiri álver. Afhverju ætlar þjóðin þá að kjósa yfir sig flokka sem vilja halda áfram á braut, stóriðju, mengunar og eyðileggingar?

Af því að þjóðin ætlar að velja stjórnmálamennina sem vilja lækka skattana og fella niður veiðigjaldið. Þess vegna þarf að blása upp risastóra sápukúlu og hrinda af stað fölskum hagvexti, skapa þenslu, sem eykur verðbólgu og hækkar lánin. Í þessa jöfnu hendum við svo nokkrum fossum, fljótum og vötnum sem drepast fyrir augunum á okkur.

Og eftir nokkur ár þegar okkur langar í fossana og fljótin aftur,segja stjórnmálamennirnir: Ekki benda á mig, ég er farinn úr stjórnmálum fyrir löngu. Þið fenguð að velja, náttúruna eða peningana, og þið völduð peningana.

Og svo kemur kreppa.

Hvar eru þá peningarnir? spyr fólk. Og fær sama svarið og venjulega. Þeir eru hjá stórfyrirtækjunum sem vilja ekki greiða skatta til samfélagsins. Ef það á að breyta því, pakka þau bara saman og fara eitthvað annað.

Bíddu við, er þá bara allt svart?

Nei, við getum skrifað þessa sögu uppá nýtt en látið innganginn halda sér. Hann er svona:

Íslenska þjóðin vill fullkomna heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð efnahag. Hún vill skóla þar sem allir geta fundið menntun við sitt hæfi endurgjaldslaust. Hún vill hlúa að börnum og að fólk fái að eldast með reisn. Hun vill anda að sér hreinu lofti þegar hún kemur út á morgnana og er stolt af einstæðri náttúru og vill njóta hennar sumar jafnt og vetur.

Svo skulum við horfa í spegil og hugsa hverju við sjálf viljum fórna til að ná þessu markmiði og hverjir séu líklegir til að hjálpa okkur áleiðis.“

Ákkúrat og einmitt.

Efnisorð: , , , , , ,