laugardagur, apríl 13, 2013

Alþýðufylkingin og Regnboginn

Ég hef verið að skoða tvö af nýju framboðunum sem eru lengst til vinstri, Alþýðufylkinguna og Regnbogann.

Margt er gott og gilt í stefnumálum Regnbogans, m.a. þetta.

Launajafnrétti og kvenfrelsi eru meðal mikilvægustu baráttumála okkar samtíma. Bæta þarf búsetuúrræði og þjónustu við fatlaða, öryrkja og aldraða. Standa þarf vörð um mannréttindi samkynhneigðra og transfólks.

Tryggja þarf aðgengi að tryggu húsnæði á leigumarkaði.

Setja verður launamál þeirra lægst launuðu á oddinn, bæði lífeyrisþega og fólks á vinnumarkaði. Taka á til alvarlegrar umræðu að lögbinda lægstu laun með tilliti til framfærslu.

Við höfnum ofurtrú á frjálshyggjuna og markaðssamfélagið … Við teljum að blandað hagkerfi opinbers rekstrar og einkarekstrar smárra rekstrareininga sé farsælla

Regnboginn skartar m.a. fyrrum þingmönnum Vinstri grænna: Atla Gíslasyni og Jóni Bjarnasyni og fyrrverandi Framsóknarþingmanninum Bjarna Harðarsyni (sem var í VG um tíma). Ég hef lengi haft mikið álit á Atla sem feminista og Bjarni finnst mér skemmtilegur. Afar góðar konur eru einnig á framboðslistum: Harpa Njálsdóttir félagsfræðingur sem mikið hefur fjallað um fátækt er í efsta sæti í Reykjavík norður, Anna Bentína Hermansen, kynjafræðingur og ráðgjafi á Stígamótum er í sjötta sæti í sama kjördæmi, og Anna Ólafsdóttir Björnsson fyrrum Vinstri græn Kvennalistakona er í þriðja sæti (á undan henni eru tvær konur) í Suðvesturkjördæmi. Mér líst sannarlega vel á þessar, og fleiri konur framboðsins.

En þrátt fyrir þessar ágætu konur þá er Regnboginn í mínum huga fyrst og fremst framboðsflokkur karla sem sviku VG þegar mest reið á. Það kom sér illa fyrir VG, það kom sér illa fyrir ríkisstjórnina, en fyrst og fremst sýndi það óbilgirni sem er vægast sagt óheppileg þegar vinna þarf saman. Og það þurfti sannarlega að vinna saman að því að moka skítahauginn sem blasti við núverandi ríkisstjórn þegar hún tók við völdum.

Framboðslistar Alþýðufylkingarinnar gefa afar góða mynd af fólkinu sem býður sig fram. Aldur og staða frambjóðenda skiptir jú líka máli, og þarna má sjá óvenju marga starfsmenn úr félagslega geiranum auk verkafólks.

Það er galli að það séu karlmenn í efstu sætum í báðum þeim kjördæmum (Reykjavík norður og suður) þar sem flokkurinn býður fram. Vésteinn Valgarðsson, sem er efstur á lista í suðurkjördæminu, hefur reyndar skrifað gegn klámi og fær plús fyrir það, en Þorvaldur Þorvaldsson hefur aldrei höfðað til mín.

Þó er margt í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar sem ég get tekið undir.

Komið verði á „samræmdu félagslegu lífeyriskerfi sem tryggir öllum sömu upphæð til framfærslu sem þess þurfa með, hvort sem ástæðan er öldrun, örorka, veikindi, atvinnuleysi eða annað.“

Aukið vægi hins félagslega í samfélaginu á kostnað markaðsvæðingar, sérstaklega á sviðum almannaþjónustu sem allir þurfa á að halda og umsjón með auðlindum, sem eiga að vera sameign þjóðarinnar.

Auðlindir lands og sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar, óframseljanlegar og að arðurinn skili sér til þjóðarinnar … Komið verði í veg fyrir að útgerðarmenn geti braskað með fiskveiðiréttindi.

Alþýðufylkingin berst gegn því að auðmenn sölsi undir sig vatns- og orkuauðlindir þjóðarinnar. Til þess er nauðsynlegt að þær séu reknar félagslega, með hóflega nýtingu og þarfir þjóðarinnar að leiðarljósi. Allur hagnaður af auðlindunum skal skila sér í bættum lífskjörum þjóðarinnar.

Stemma skal stigu við of mikilli samþjöppun og einokun í landbúnaði og ferðaþjónustu sem getur valdið óhóflegri ofníðslu á landi. Einnig skal koma í veg fyrir að auðmenn geti yfirtekið skipulagsmál í sveitarfélögum í krafti lóðareigna.

Ég myndi fagna því mjög ef þessi sjónarmið yrðu ofan á í samfélaginu og lagasetningu alþingis.

Það er blæbrigðamunur og sumstaðar áherslumunur en ekki að mínu mati raunverulegur grundvallarmunur á vinstri flokkunum, Alþýðufylkingu, Regnboganum og Vinstri grænum. Helst vildi ég að allir þessir flokkar mynduðu saman ríkisstjórn (Samfylkingin mætti vera með ef hún héldi sig vinstra megin á mottunni) og ynnu saman að félagslegum jöfnuði í þágu allra. En þar sem Alþýðufylkingin og Regnboginn ná varla einu prósentustigi í könnunum fyrir þingkosningarnar, væri það sóun á atkvæði að kjósa annanhvorn flokkinn. Þessvegna kemur hvorugur þeirra til greina í mínum huga.

___
Viðbót: Vésteinn Valgarðsson svarar spurningum Knúzzins um afstöðu Alþýðufylkingarinnar til jafnréttismála og feminisma. Það er mjög vel til fundið hjá Knúzinu að spyrja framboðin um afstöðu þeirra, því fjölmiðlar hafa upp til hópa gleymt þessum málefnum í aðdraganda kosninganna, og svör Vésteins eru honum og flokk hans til sóma.

Atli Gíslason hefur svarað Knúzinu fyrir hönd Regnbogans. Svör hans eru afar feminísk, eins og hans var von og vísa.

Efnisorð: , , , , , ,