miðvikudagur, apríl 10, 2013

Lof og last

LOF

Lof fær Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fyrir að samþykkja (loksins) alþjóðlegan vopnaviðskiptasamning sem hefur verið til umræðu árum saman. Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir samninginn „sigur fyrir jarðarbúa.

Lof fá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis um tillögur sem eru viðbrögð við mikilli fjölgun kynferðisbrotamála gegn börnum að undanförnu. Jóhanna Sigurðardóttir sem skipaði starfshóp strax í janúar af sama tilefni; starfshópurinn komst að svipaðri niðurstöðu og þingnefndin. Og ríkisstjórnin fyrir að veita nú þegar um 190 milljónum kr. til að fjármagna forgangstillögur nefndarinnar.

Lof fær Landvernd fyrir að setja af stað undirsskriftarsöfnun vegna Mývatns þar sem farið er fram á nýtt umhverfismat og stöðvun framkvæmda þar til það liggur fyrir.
(Muna þarf að svara tölvupóstinum frá Landvernd sem berst í kjölfar undirskriftarinnar, smella þarf á hlekk til að staðfesta undirskriftina endanlega — annars fellur hún dauð niður).

LAST

Æðsti prestur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar fyrir að vara við feminisma og segjast telja femínisma mjög hættulegt fyrirbæri sem geti eyðilagt Rússland. Samtök femínista boði gervifrelsi utan hjónbands og fjölskyldu. Eiginmenn eigi að sjá fyrir fjölskyldum sínum, konurnar eigi að leggja áherslu á heimilið og börnin. Leggist þetta hlutverk kvenna af sé allt ónýtt, fjölskyldan og fósturjörðin.

Bræðralag múslima í Egyptalandi fyrir að skammast útí Sameinuðu þjóðirnar fyrir að leggja til umbætur í þágu kvenna og að segja að í drögunum séu ákvæði sem stríði gegn grundvallarkenningum íslam sem muni leiða til niðurbrots samfélagsins. Það gerir sérstakar athugasemdir við 10 atriði, þar á meðal um algjört jafnrétti karls og konu í hjónabandi og að eiginmaður þurfi ekki að veita samþykki fyrir því að eiginkonan vinni úti, fari í ferðalög eða noti getnaðarvarnir.

Geir Haarde fyrir að neita að leyfa þingnefnd að heyra upptöku af samtali sínu og Davíðs Oddssonar 6. október 2008 þegar Davíð lét Kaupþing fá 500 milljónir evra — um það leyti sem bankinn lagði upp laupana með þeim afleiðingum peningarnir töpuðust. Sagt er að þetta sé stærsta einstaka mál hrunsins. Þetta er svo augljós hefnd af Geirs hálfu fyrir að hafa verið dreginn fyrir Landsdóm að það er ekki fyndið. Reyndar er ekkert fyndið við Geir, síst af öllu pólitískur ferill hans sem stóð og féll með innleiðingu frjálshyggju í íslenskt samfélag.

Efnisorð: , , , , , , , ,