föstudagur, apríl 12, 2013

Píratar

Stefnuskrá Pírata hefst og endar á því að andæfa „tilraunum innanríkisráðuneytisins á Íslandi til þess að sía út klám á internetinu“. Þar á milli er talað gegn höfundarrétti en með kannabisreykingum og kosningum á netinu (þó ekki til alþingis) sem lausn við flestum vanda.

Það er eitthvað pirrandi við að Píratar tala eins og annað fólk og flokkar hafi aldrei notað netið, þeir hafi einkaleyfi á því og skilji það best allra.* Þeir tala um breytingar á samfélaginu vegna netsins en ekki má gera breytingar á netinu. Afhverju vilja Píratar fara á þing ef þeir eru þeirrar skoðunar að það megi ekki reyna að móta umhverfi sitt?

Varðstaða Pírata um klámið er augljós ástæða þess að ég mun ekki kjósa þá. Að sama skapi er augljóst að klámsjúkir kannabisreykjandi karlmenn, hvort sem þeir kalla sig anarkista eða frjálshyggjumenn, finna samhljóm með Pírötum.

Áherslan á að allt gerist á netinu og netið sé ósnertanlegt (allt annað er ritskoðun sem leiði til fasisma**) er eina mál Pírata sem flokks. Þeir setja ekki fram stefnu varðandi heilbrigðismál eða umhverfismál — flokkurinn sem heild er á móti grænum sköttum. Einsmálsflokkar,*** hvort sem þeir veifa tjáningarfrelsi eða „stöðu heimilanna“ hafa þann galla að þegar til á að taka, í þingumræðum og atkvæðagreiðslum á þingi, hafa kjósendur ekki hugmynd um hvernig einstakir þingmenn einsmálsflokksins bregðast við. Eftirtaldir frambjóðendur Pírata (öll í 1. sæti í sínu kjördæmi) eru tildæmis með ýmist mjög skrítna — eða enga — afstöðu í mikilvægum málum.

Hildur Sif Thorarensen (norðvestur) er á móti listamannalaunum en Helgi Hrafn Gunnarsson (Reykjavík norður) hefur enga skoðun á þeim, né heldur rekstri menningarstofnana eða á einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. En hann sagði á beinni línu DV: „internetið og frjáls samskipti er í mikilli hættu sökum höfundaréttar “, það eru hans helstu áhyggjuefni.

Hildur Sif og Jón Þór Ólafsson (Reykjavíkur norður) hafa enga skoðun á virkjunum yfirleitt. Virkja eða ekki virkja, þeim er bara alveg sama. Jón Þór er reyndar ekkert sérstaklega meðvitaður í umhverfismálum, nema hvað hann afneitar gróðurhúsaáhrifum!

Jóni Þór finnst allir skattar of háir (eða hreinlega óþarfir) og vill ekki ríkisrekið sjónvarp eða útvarp (það vill Smári McCarthy í suðurkjördæmi ekki heldur) og vill ekki opinberan stuðning við listir, en hann vill áfengi í matvörubúðir og lögleiðingu kannabis. Jón Þór er andvígur því að tannlækningar séu hluti af sjúkratryggingakerfinu (svosem nýgerðum samningi um tannlækningar skólabarna) og það kemur ekki á óvart að hann segist vera sammála þeirri staðhæfingu að því frjálsari sem markaðurinn er því frjálsara er fólk — enda er Jón Þór frjálshyggjumaður.

Verða kjósendur Pírata voða glaðir þegar nýju þingmennirnir þeirra viðra þessa afstöðu sína (eða afstöðuleysi) eða kjósa í þinginu eftir þessari sannfæringu sinni?

Mitt í því að ég sit og skrifa um Pírata rekst ég á þessa óborganlegu bloggfærslu Pírata nr. 1 í Reykjavíkurkjördæmi suður, Jóns Þórs Ólafssonar.



Getur verið að feministar, umhverfissinnar og vinstrisinnað fólk ætli í alvöru að kjósa Pírata?
___
* Píratar virðast ekki vera alveg eins klárir á netið og þeir vilja vera láta, það þyrfti einhver að kenna þeim að gúggla mönnum sem bjóða sig fram á lista hjá þeim. Eða kannski fellur þetta bara vel í kramið hjá flokknum jafnt sem fylgismönnum hans?

** Það er munur á að birta og skoða klám og því að gagnrýna stjórnvöld.

*** Margrét Tryggvadóttir kom með ágæta úttekt á vandanum við einsmálsflokka hér.

Efnisorð: , , , , , , , , ,