föstudagur, apríl 19, 2013

Sporin hræða ekki nærri nógu marga

Alveg þar til fyrir nokkrum dögum virtust kosningaloforð Framsóknar — þessi sem eru miðuð við þá sem spenntu bogann mest í góðærinu, þá sem búa í stærstu húsunum — ætla að fleyta Sigmundi Davíð beint í forsætisráðherrastólinn.

Sjónvarpsviðtalið við Bjarna Ben þar sem hann sýndi á sér nýja hlið (og þurfti ekkert að svara hvernig reka ætti þjóðarbúið með lægri sköttum) er talið hafa markað þáttaskil í kosningabaráttunni og vegna þess hafi Sjálfstæðisflokkurinn rétt úr kútnum. En það munar líka eflaust um Fréttablaðið/Vísir sem er í harðri kosningabaráttu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þar hefur Framsókn verið undir sérstakri smásjá og lesendur verið fræddir vandlega um heimskuna í kosningaloforðum Sigmundar Davíðs. Ekki veitti af, en svo varð bara ansi áberandi að afhjúpunin var ekki bara kjósenda vegna heldur til að 'færa fylgið heim í hús' aftur til Sjálfstæðisflokksins. Viðtalið við dóttur Bjarna Benediktssonar, sem var á forsíðu Vísis í gær, afhjúpaði svo afstöðu blaðins endanlega: Bjarni Ben er skemmtilegur og kósý gaur, kjósið hann.

Krúttbangsinn Bjarni vorkennir hátekjufólki óskaplega fyrir mikla lífskjaraskerðingu sem er afleiðing vondrar skattastefnu vinstristjórnarinnar. Skattalækkunarkosningaloforð Sjálfstæðismanna kemur sér einmitt best fyrir hátekjufólkið, kjörlendi Sjálfstæðismanna. Semsagt, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fókusera á þá sem búa best og hafa bestu tekjurnar, það er ekkert nýtt við það fremur en annað hjá þessum flokkum.

Það má ekki milli sjá hvor flokkurinn hefur verri fortíð og spilltari flokksmenn, hvort sem þeim er flaggað fyrir þessar kosningar eða þeir fjármagna og stjórna bakvið tjöldin. Báðir flokkar hafa slíka virkjana- og álverssögu að baki að landið mun aldrei jafna sig — og efnahagsinnspýtingin margfræga reyndist heldur til skaða en hitt. En nú vilja þeir ólmir virkja meir, engu verður eirt komist þeir til valda.

Kjósendur nær og fjær virðast sömuleiðis vilja meira af því sama. Þeir virðast ætla að nota atkvæðin sín til að þakka fyrir frjálst framsal kvóta, sem lagði nánast heilu byggðirnar í auðn; húsnæðislánaverðbólguna (afleiðingar kosningaloforðs Framsóknar 2003), einkavinavæðingu bankanna, samþykktina við Íraksstríðið — kjósendur eru bara alveg sáttir við þetta! Þeir virðast líka sáttir við framgang þessara flokka síðastliðið kjörtímabil þar sem málþófi var beitt til að koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá (sem þó Framsóknarflokkurinn hafði sett sem skilyrði fyrir að styðja ríkisstjórnina) og að forða því að LÍÚ missi spón úr sínum aski.

Nú benda kannanir semsagt til að fylgið sé að fara frá Framsókn yfir til Sjálfstæðisflokksins, en ekki er ljóst hvor flokkurinn hefur yfirhöndina. Þá er bara spurningin: hvort er verra, að Framsókn ráði öllu — líklega með aðstoð Sjálfstæðisflokks — eða Sjálfstæðisflokkur ráði öllu — pottþétt með aðstoð Framsóknarflokks? Svarið er bæði.

Efnisorð: , , , , ,