laugardagur, maí 11, 2013

Er þetta ekki spilling, er þetta ekki yfirhylming?

Langt er síðan upp komst að innan kaþólsku kirkjunnar hafa prestar stundað barnaníð í miklum mæli og í ofanálag hylmdu yfirmenn þeirra yfir með þeim. Barnaníðingarnir fengu ýmist að vera óáreittir í starfi eða fluttir annað þar sem þeir héldu uppteknum hætti, sumir áratugum saman. Yfirhylmingin ofan á kynferðisbrotin hefur grafið verulega undan kaþólsku kirkjunni, sem von er.

Yfirhylming er auðvitað ein tegund spillingar. Við áttuðum okkur á því eftir bankahrunið en Transparency International hafði árum saman gefið út þá yfirlýsingu að Ísland væri eitt óspilltasta land í heimi. Þar var spilling skilgreind sem mútur og þess háttar en yfirhylming (og frændhygli og fleira sem hér grasseraði) ekki tekin með í reikninginn.

Bandarískar löggumyndir sýna oft framá spillingu innan lögreglunnar þar sem flett er ofan af mútuþægni, fíkniefnasölu og allskyns ólöglegu athæfi öðru. Ég veit ekki að hve miklu leyti það sama megi segja um íslensku lögregluna, hvort spillingin lýsi sér öðruvísi, hvort hér sé aðallega um frændhygli að ræða, eða hvort menn séu að selja fíkniefni sem gerð hafa verið upptæk, þegja yfir ofbeldisbrotum félaga sinna eða hvað annað gengur þar á. En ég veit að innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru og hafa verið kynferðisbrotamenn og að þeir hafa fengið óáreittir að halda áfram störfum sínum eftir að flett hefur verið ofan af þeim í samtölum við starfsmenn embættisins eða á opinberum vettvangi.

Nú er komin niðurstaða varðandi kæru Erlu Bolladóttur sem var nauðgað árið 1976 þegar hún sat í gæsluvarðhaldi. Vitaskuld var málið fyrnt, það eru áratugir síðan lögreglumaðurinn nauðgaði henni í Síðumúlafangelsinu. En þó ekki sé lögleg ástæða til að sækja mál á hendur honum er ansi merkilegt að hann sé enn í starfi, Erla gaf út sögu sína árið 2008 og líklegt er að innan lögreglu og dómskerfis hafi menn legið yfir bókinni. Það hefur því verið vitað í fimm ár að lögreglumaður nauðgaði henni en ekkert var gert. Núna, eftir að hún lagði fram formlega kæru á enn að leyfa nauðgaranum að starfa í lögreglunni. Hann verður ekki kærður og honum verður ekki gert að víkja úr starfi.

Mál Erlu Bolladóttur er ekki fyrsta málið sem varðar kynferðisbrot starfandi lögreglumanna, hvort sem þeir hafa framkvæmt glæpina innan eða utan vinnutíma. Árið 2000 kom út bókin Launhelgi lyganna þar sem sagt var frá kynferðisofbeldi sem lögreglumaður beitti stjúpdætur sínar. Bókin var skrifuð undir dulnefninu Baugalín en höfundur steig fram undir nafni árið 2007, kom þá m.a. í Kastljósviðtal og sagði sögu sína, en hún hafði reynt að leggja fram kæru á hendur stjúpa sínum en var vísað frá þegar löggurnar komust að því að um starfsbróður þeirra var að ræða, eins og systir hennar hefur einnig staðfest. Löggan hefur semsagt lengi vitað í áratugi af kynferðisbrotum þessarar löggu, þar af hefur málið verið opinbert í þrettán ár. Ég veit ekki hvort sá níðingur er enn starfandi lögga, hann gæti verið kominn á eftirlaun eða dauður, en hann var ekki rekinn úr löggunni, svo mikið þykist ég vita.

Það sama gildir um enn einn nauðgarann sem mér vitanlega er enn starfandi í löggunni (með fyrirvara um eftirlaunaaldur). Ég ætla ekki að nafngreina hann þó ég viti vel hver hann er. Málið sem varðar hann varð alþekkt þegar Drífa Kristjánsdóttir forstöðumaður Meðferðarheimilisins á Torfastöðum skrifaði opið bréf til þáverandi dómsmálaráðherra fyrir hönd eins skjólstæðings síns árið 1992. Þar kom fram saga ungu stúlkunnar sem var dóttir lögreglumanns sem hafði beitt hana kynferðisofbeldi um árabil. Þetta mál varð mjög umtalað, ekki síst vegna þess að hann lét son sinn taka þátt í verknaðnum, sá varð frægur kynferðisbrotamaður, sem sat inni fyrir glæpi sína. En einu afleiðingarnar fyrir kallhelvítið var að hann var færður til innan lögreglunnar og settur í skrifstofudjobb. Það eru ekki mörg ár síðan ég sá smettið á honum á síðum dagblaðs þar sem hann svaraði einhverjum spurningum varðandi starf sitt, virðulegur ásýndum í embættisklæðnaði. Nauðgari í löggubúning.

Þessir karlar hafa allir fengið að starfa óáreittir innan lögreglunnar löngu eftir að ljóst er að þeir eru nauðgarar og barnaníðingar. Og þetta eru bara þeir sem við vitum um. Miðað við þetta má draga þá ályktanir að löggan hylmi líka yfir fleiri glæpum, fleiri glæpamönnum innan sinnan raða.

Löggur sem vinna í kynferðisbrotadeildinni – sem og aðrar löggur í Reykjavík —  eiga vinnufélaga sem eru þekktir nauðgarar. Þar að auki er kynferðisbrotadeild lögreglunnar undir stjórn Björgvins Björgvinssonar sem talaði þannig um þolendur kynferðisbrota að hann var tímabundið rekinn úr starfi. Hvaða áhrif hefur þessi félagsskapur á viðhorf lögreglunnar til þeirra kvenna, karla og barna sem til hennar leita?

Sú spilling og yfirhylming sem tíðkast hefur innan raða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er embættinu til ævarandi skammar.

Efnisorð: ,