laugardagur, maí 04, 2013

Lof og last

Margt gleymdist að minnast á í aðdraganda kosninga og verður nú tekið til við að útdeila lofsyrðum og lasti. Fleira finnst reyndar neikvætt en jákvætt og horfur eru á að sá halli aukist enn fari svo að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur taki völdin.


LOF

Lof fá þau fyrirtæki sem fyrst allra hafa fengið jafnlaunavottun VR: IKEA, ISS, Íslenska gámafélagið og Parlogis. Til að hljóta vottunina þurfa vinnustaðir að uppfylla ýmis skilyrði og sýna fram á að konum og körlum sé ekki mismunað í launum með ómálefnalegum hætti. Þeir skuldbinda sig jafnframt til að sæta eftirliti í að minnsta kosti þrjú ár.

Lof fær Þórdís Hauksdóttir fyrir að benda á að embættismenn og borgarfulltrúar hafi leyft stórfyrirtæki að leggja Úlfarsfell undir fjarskiptamöstur, með tilheyrandi jarðraski.

Lof fær Andri Snær fyrir frábær skrif undanfarið, um Lagarfljót, gegn ónauðsynlegri veglagningu um Gálgahraun og fleira áhugavert.


LAST

Bankaráð Landsbankans fyrir að vilja hækka laun bankastjórans á þeim forsendum að annars líti aðrir í bankanum ekki upp til hans. Engin rök, síst þessi, er hægt að færa fyrir að hækka laun bankastjórans umfram venjulegar launahækkanir launafólks.

Öldungadeild Bandaríkjaþings sem felldi lagafrumvarp um auknar heimildir til að kanna bakgrunn skotvopnakaupenda. Samtök byssueigenda hafa alltof mikil ítök á bandaríska þinginu.

Forsvarsmenn ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi og Mosfellsbæ sem létu ábendingar um að bílstjóri fyrirtækisins áreitti kvenkyns farþega sem vind um eyru þjóta í stað þess að reka hann. Þar með hafði hann tækifæri til að nauðga öðrum farþega, sem einnig var fötluð kona eins og sú fyrri.

Kristján Loftsson fyrir að ætla að hefja hvalveiðar, eina ferðina enn. (Ég hélt að hann hefði nóg að gera við að telja peningana sem hann fékk í arð frá Granda?)

Íbúasamtök Rituhóla. Það er óþolandi að tré sem plantað er á útivistarsvæðum borgarinnar fyrir okkur öll séu felld af óðum einbýlishúsaeigendum sem þola ekki að trén skyggi á útsýnið til Esjunnar. Það er einsgott að þessi skríll verði dreginn fyrir dómstóla. (Bent hefur verið á að Árni Johnsen búi í Rituhólum. Mér þykir ólíklegt að hann hafi tekið þátt í ólöglegu skógarhöggi, strangheiðarlegur maðurinn, enda hlýtur honum að nægja tilgátuútsýni.)

Útmerkur, sú deild Reykjavíkurborgar sem hefur umsjón með Elliðaárdal og Öskjuhlíð, fyrir að æsa sig yfir (ólöglega) felldum trjám í Elliðaárdal en segja ekki múkk við því að rústa eigi trjágróðri í Öskjuhlíð. Þvílík hræsni.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,