sunnudagur, maí 19, 2013

Tillitsleysi hjólreiðamanna

Bloggpistill sem ég las í dag hleypti í mig illu blóði. Pistillinn ber yfirskriftina Heyrnarlaus á reiðhjóli, en ætti kannski frekar að heita Tillitslaus á reiðhjóli. 'Heyrnarleysið' í titlinum snýr að þeim sem njóta útivistar með heyrnartól í eyrunum. Pistlahöfundi finnst það óþarfi, allir eigi að vera eins og hann og hlusta á fuglasönginn eða þögnina. Honum finnst reyndar líka óþarfi að vera með bjöllu á hjóli sínu og þykir betra að nota röddina til að gera öðrum vart við sig. Hann nefnir reyndar ekki hvernig hann fari að því að ná sambandi við fólkið með heyrnartólin, hvort rödd hans nái að yfirgnæfa það sem úr þeim berst. Það myndi bjalla gera í flestum tilvikum, því bjölluhljóð er hátt og hvellt. Bjöllur eru semsagt öryggistæki og skylt er að reiðhjól hafi bjöllu.

Pistlahöfundur er reyndar fjarri því eini hjólreiðamaðurinn sem íþyngir ekki fararskjóta sínum með bjöllu, þær eru sjaldgæfar meðal þeirra sem geysast eftir hjólreiðastígum höfuðborgarsvæðisins. Það verð ég oft — næstum áþreifanlega — vör við þegar ég geng á tvískiptum gangstígum þar sem annar hlutinn er ætlaður gangandi vegfarendum og hinn hjólreiðamönnum.

En þó pistillinn fjalli að mestu leyti um 'heyrnarleysi' segir pistlahöfundur einnig frá því að kunningi hans geri það að leik sínum að bregða gangandi vegfarendum með því að hjóla eins hratt fram úr þeim auðið er, verði þeim á að vafra yfir á hjólastíginn. Ég hef oft séð hjólreiðamenn þeysast inná þann part sem er ætlaður gangandi fólki, ýmist vegna þess að þeir vilja vera samhliða eða eru að fara framúr (og nota þá aldrei bjöllu). Ég hef afturámóti engan séð reyna að bregða þeim svo þeir hrökkvi til baka eða útaf stígnum. En ég mun hafa það í huga næst þegar ég sé hjólreiðamenn gera sig breiða.

Efnisorð: