þriðjudagur, maí 21, 2013

Viðhorf til kvenna sem segja ekki nei

Guðrún C. Emilsdóttir skrifar góðan pistil á Knúzið þar sem hún ræðir nýlega sýknudóma í nauðgunarmáli, annan hér á landi og hinn í Svíþjóð.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna eftir að hafa lesið pistilinn. Það er best að byrja á að taka fram að ég er auðvitað alveg sammála Guðrúnu og mér er óskiljanlegt hvernig dómararnir komast að þeirri niðurstöðu að þessar stúlkur hafi ekki verið mótfallnar því sem var gert við þær, og að karlmennirnir hafi verið í fullum rétti að fara sínu fram gagnvart þeim. Guðrún segir rétttilega að
„Skilaboðin sem þessir dómar gefa eru að við hvaða aðstæður sem er eigi konur (og karlar þegar það á við) að segja hátt og skýrt „nei“ séu þær mótfallnar einhverjum kynferðislegum athöfnum, jafnvel þegar gerendum ætti að vera ljóst að litlar líkur séu á því að konur njóti ákveðinna athafna.“

Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem dómarar sýkna nauðgara útfrá þessu viðhorfi, að segi kona ekki skýrt nei þá megi gera við hana hvað sem er. Héraðsdómur Reykjavíkur viðraði þá skoðun í frægu nauðgunarmáli þar sem konu var nauðgað á salerni Hótel Sögu. Lögmaður nauðgarans sagði að það sem gerðist á salerninu hefði verið í lagi því konan sagði ekki nei. Héraðsdómur var sammála honum:

„Þá er að einnig að líta til þess að X þykir, fram til þess að þau fóru inn á salernisklefann, ekki hafa gefið ákærða ástæðu til að halda það að hún væri honum andhverf. Þegar allt þetta er haft í huga álítur dómurinn að ákærða hafi ekki hlotið að vera það ljóst að samræðið og kynferðismökin væru að óvilja X.“
Samkvæmt þessu er kona, sem segir ekki skýrt nei, til í hvað sem er.

Vinkona Guðrúnar gaf út almenna yfirlýsingu um að hún sé mótfallin kynferðislegu samneyti nema hún gefi annað skýrt og skilmerkilega til kynna, að það sé vissara að tilkynna það karlmönnum að, mér hefur dottið það sama í hug, oftar en einu sinni. Það er víst öruggara fyrir konur að lýsa þessu yfir, eins og viðhorf dómsvaldsins er.

En svo er það hitt viðhorfið, viðhorf stráksins sem nauðgaði vinkonu sinni dauðadrukkinni. Hann var fenginn til að fylgja henni heim því hún var of drukkin til að vera ein á ferð. Þegar á áfangastað var komið finnst honum — eftir langa vináttu — að nú sé tækifæri til að láta til skarar skríða. Hvað var hann búinn að bíða lengi eftir þessu tækifæri? Hvernig á stelpan að geta átt karlkyns vini eftir þetta, ef hún veit að þeir eru bara að bíða færis? Stelpan gat ekki séð fyrirfram að strákurinn sem hún hélt að væri vinur sinn væri nauðgari, hvernig á hún að geta treyst karlmönnum yfirleitt eftir þetta? Í þessu fellst jafnvel mesta áfallið sem hún verður fyrir. Feministar hafa lengi bent á að það sjáist ekki utaná karlmönnum að þeir eru nauðgarar, og verið gagnrýndar fyrir að segja að allir karlmenn séu nauðgarar. Málið er að vegna þess að ekki er hægt að vita það fyrr en á reynir verður að líta á svo á að hver og einn gæti verið nauðgari. Þegar karlmaður nauðgar vinkonu sinni þá er hann þar með búinn að segja að engum karlmönnum sé treystandi. Það eru vandræði sem nauðgarar hafa komið öllum karlmönnum í og eru ekki feministum að kenna.

Guðrún veltir því upp „hvort herferðir eins og „Nei þýðir nei“ hafi misheppnast og í raun snúist upp í andstöðu sína.“ Ég er því að einhverju leyti sammála, eins og ég skrifaði um fyrir margt löngu þar sem ég bendi á að það verði alltaf að „tala um nauðgun á sem fjölbreyttastan hátt – ekki bara eitt slagorð sem látið er ganga í áraraðir þar til annað tekur við.“ Núna er í gangi „Fáðu já“-herferðin, sem Guðrún mælir með, en mér finnst augljóst að hún getur líka snúist upp í andhverfu sína: að nauðgararnir kreisti já uppúr fórnarlömbum sínum (og taki jafnvel jáið upp til að spila fyrir löggu og dómstóla) áður en þeir láta til skarar skríða.

Karlmenn geta ágætlega, eins og fram kemur í grein Guðrúnar, lesið á milli línanna og túlkað líkamstjáningu. Þeir hafa enga afsökun fyrir því að hunsa tregðu kvenna til kynmaka, þeir vita alveg hvað þeir eru að gera. En þeir nota hinsvegar skort á mótspyrnu eða að konan hafi ekki sagt nei, þegar þeir eru yfirheyrðir um málsatvik — þá ætti lögga og dómsvald afturámóti að taka ekki mark á þeim. Orð þeirra eru marklaus þegar gjörðirnar sýna annað.

Efnisorð: , , ,