þriðjudagur, maí 28, 2013

Fyrsta vika Framsóknarmanna við völd

Ég var meðal þeirra sem stóðu við Stjórnarráðið í dag. Veit ekki með hina en ég mætti kauplaust enda hefur aldrei þurft að borga mér fyrir að vera ósammála Framsóknarmönnum. Eins og hinir afturhaldskommatittirnir sem voru þarna og veifuðu grænu var ég þarna því mér sveið lítilsvirðingin sem nýi forsætisráðherrann sýndi öllum þeim sem sendu inn athugasemdir við Rammaáætlun. Flest þetta fólk hefur líka áhyggjur sínar af þeirri virkjanastefnu sem ríkisstjórnin virðist vera á, en ekki ég. Ekki vegna þess að ég sé ekki sammála þeim heldur vegna þess að ég er viss um að þetta er vonlaus barátta, rétt eins og andstaðan við Kárahnjúkavirkjun. Það verður hér allt virkjað í klessu.

Mörgum hefur orðið starsýnt á stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar þar sem talað er um sátt og samlyndi. Nánar tiltekið svona: „Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“ Þetta þykir nokkuð á skjön við hvernig nýi forsætisráðherrann hefur talað fyrstu viku sína í starfi.

Ég fyrir mitt leyti vona að stjórnarandstaðan, þ.e. það fólk sem sat í ríkisstjórn frá 2009-2013 taki ekki upp ósiði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar með því að halda þinginu í gíslingu með málþófi. En að öðru leyti finnst mér fullkomlega eðlilegt að mótmæla öllu því sem kemur frá núverandi ríkisstjórnarflokkum, hátt og í hljóði, á þingi, í fjölmiðlum sem í netheimum, undir nafni eða ekki. Því sannarlega verður ekkert samlyndi þegar forsætisráðherra leggur sig í líma við að tala niðrandi til umhverfisverndarsinna og feminista, hvað þá þegar ríkisstjórnin hefur hernað gegn náttúrunni.



Efnisorð: , ,