miðvikudagur, júní 19, 2013

19. júní 2013

Það er óhætt að segja að það séu kaldar kveðjur sem Hæstiréttur sendir konum á kvenréttindadaginn. Fjórir karlar sýkna tvo karlmenn af nauðgun sem þeir höfðu áður fengið þunga dóma fyrir. Eini kvenkyns hæstaréttadómarinn var körlunum ósammála (sem fyrr) og vildi ekki sýkna því hún taldi það „hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi gerst sekir um það brot sem þeir eru ákærðir fyrir“.

Alveg burtséð frá því hver sagði hvað i yfirheyrslum og fyrir dómi og hvernig málsatvik voru (en samantekt á því má lesa í dómnum undir sératkvæði Ingibjargar Benediktsdóttur), þá langar mig að benda á að annar þeirra sem var sakfelldur fyrir nauðgunina í Héraðsdómi Reykjavíkur er alræmdur fantur. Nú segir kannski einhver að það sé ekki þar með sagt að hann hafði nauðgað þessari stelpu, og það er svosem ágætt að hafa það í huga. En — hverjar eru líkurnar á því að það geri sér einhver — í þessu tilviki stelpan — að leik að kæra þennan mann nema hafa til þess góða ástæðu? Réttupphönd sem þorir að ljúga einhverju uppá hann og þurfa svo að ganga um götur bæjarins eða bara yfirleitt búa á Íslandi eftir það. Nógu erfitt er eflaust að telja í sig kjark til að kæra hann fyrir það sem hann hefur þó gert, en að gera hann reiðan að ósekju? Neitakk, það þyrði ég að minnsta kosti aldrei.

Ég þori ekki einusinni að nafngreina helvítið.

En svo er það hin spurningin: Hefðu fjórir kvendómarar komist að sömu niðurstöðu? Það er engin leið að vita það því svo margir eru kvendómarar við Hæstarétt ekki.

Þetta rífur ekki beinlínis upp stemninguna á kvenréttindadaginn.

Efnisorð: , , ,